25. fundur verkefnisstjórnar, 09.01.2019

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

25. fundur 09.01.2019 09:00-11:15

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Guðrún Pétursdóttir (GP) formaður, Helgi Jóhannesson (HJ), Herdís Helga Schopka (HHS), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD).

Gestir: Graham Marchbank (fyrrverandi sérfræðingur skoskra skipulagsyfirvalda á sviði vindorku), Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS) formaður faghóps 2, Jón Ásgeir Kalmansson (JÁK) formaður faghóps 3, og Tómas Grétar Gunnarsson (faghópi 1).

 

 1. Fundur settur kl. 09:00.
 2. Inngangur formanns verkefnisstjórnar. GP fór yfir aðdraganda fundarins.
 3. Opin umræða um vindorku og reynslu Skota af henni: Fundurinn fólst í óformlegu samtali fundargesta um fyrirkomulag vindorkumála í Skotlandi.
  1. GM gerði grein fyrir því að Skotar hafa byggt upp mikla virkjun vindorku á landi undanfarna áratugi, meðan Bretar hafa lagt áherslu á vindorkuver á sjó. Í Skotlandi er uppsett afl vindorkuvera nú um 7600MW. Vindurinn er ákjósanlegur orkugjafi, sem gerir Skotum kleift að loka orkuverum sem nota jarðefnaeldsneyti. Það er því mjög brýnt að geta nýtt vindinn vel og í sátt við samfélagið.
  2. Frá upphafi var lögð áhersla á að kortleggja hvaða svæði kæmu ekki til greina fyrir þessar tegund virkjana, hvað þyrfti sérstaka aðgát, og hvaða svæði virtust henta vel fyrir vindorkuver. Slíkt svæðaskipulag hefur reynst mjög mikilvægt við að einfalda meðferð umsókna og spara tíma, fé, og ágreining.
  3. Áhrif vindorkuvera á atvinnustig og efnahag í nærumhverfi voru rædd. Fjöldi starfa skapast á byggingartíma, en síðan þarf að viðhalda og líta eftir mannvirkjunum. Það er meira verk en við vatnsaflsvirkjanir, en kallar ekki endilega á fasta búsetu á staðnum.
  4. Reynslan sýnir að ekki hafa orðið alvarlegir árekstrar milli ferðaþjónustu og vindorkuvera, og taldi GM að það mætti þakka kortlagningunni sem sagt er frá í lið b. Einnig hafa vindorkugarðar verið gerðir aðgengilegir, t.d.  með göngu- og hjólastígum, svo ferðast megi óhindrað um þessi svæði.
  5. Orkufyrirtækin hafa samið við viðkomandi sveitarfélög (local authorities) um framlag til samfélagsins í skiptum fyrir starfsleyfi. GM lagði áherslu á að þarna þyrfti að fara varlega, því rausnarleg meðgjöf dygði ekki til að gera slæmar áætlanir góðar.
  6. Spurt var út í viðhorf skosks almennings til mismunandi orkuvera, t.d. hvort munur væri á viðhorfum almennings til vindorkuvera annars vegar á landi og hins vegar á sjó; einnig hvort munur væri á viðhorfum fólks til annars vegar vatnsorkuvera og hins vegar vindorkuvera. Viðhorf fólks til mismunandi vindorkuvera eru ekki þekkt, en mun meira er um vindorkuver á landi en í sjó við Skotland. Langt er síðan síðast var byggt stórt vatnsorkuver í Skotlandi, svo ekki hefur verið hægt að bera slíkar framkvæmdir saman við vindorkuver, en almennt ríkir sátt um þau vatnsorkuver sem þegar eru í Skotlandi.
  7. Regluverk kringum vindorkunýtingu og munur/líkindi milli landanna tveggja voru rædd. Í Skotlandi sjá sveitarstjórnir um leyfisveitingar vegna vindorkuvera <50MW og ferlið í heild tekur frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár. Sé umsókn samþykkt er ákvörðunin endanleg, en synjun er hægt að áfrýja. Rætt hvaða gögn umsækjendur þurfa að senda inn með umsóknum um leyfi til að reisa og reka vindorkuver.
  8. Sjónræn áhrif vindorkuvera rædd, en þau hafa orðið ástæða synjunar á svæðum sem að öðru leyti hefðu hentað vel.  Mikilvægt er að nýta landslag vel í þessu sambandi, þannig að vindmyllur verði sem minnst áberandi.
  9. Líftími og endurnýjun vindorkuvera. Af tæknilegum ástæðum er líftími vindmylla um 20-25 ár. Reynsla Skota sýnir að við endurnýjun er farið fram á að fá að reisa skilvirkari vindmyllur samkvæmt nýjustu tækni, sem eru mun hærri en áður, með stærri spaða og meira uppsett afl. Nú þegar eru myllur með spöðum um 220 m á hæð og  tækniframfarir munu væntanlega leyfa enn stærri mannvirki. Það sem hamlar stærð vindmylla á landi um þessar mundir eru erfiðleikar við að koma spöðunum á áfangastað. Þessa stækkun mannvirkjanna þarf að hafa í huga við staðarval vindorkuvera.
  10. Auk sjónrænna áhrifa, flugleiða fugla, og menningarminja, er jarðvegsgerð og dýpt meðal þeirra þátta sem taka þarf tillit til – einkum ef um mýrar eða mó er að ræða, sem við röskun mun auka losun gróðurhúsalofttegunda.
  11. Spurt var hvernig GM ráðlegði Íslendingum að standa að uppbyggingu vindorku. Ættu Íslendingar að reisa háar eða lágar vindmyllur, hafa nokkur stór vindorkuver á afmörkuðum svæðum eða dreifa þeim? GM telur affarasælla að byggja fá en stór vindorkuver og forðast eins og kostur er að dreifa vindmyllunum. 
 4. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:15


HHS ritaði fundargerð.