23. fundur verkefnisstjórnar, 19.11.2018

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

23. fundur 19.11.2018 15:30-18:00

Fundur með öllum faghópum um niðurstöður samráðsfunda faghópa með haghöfum um aðferðafræði

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Elín R. Líndal (ERL), Guðrún Pétursdóttir (GP) formaður, Helgi Jóhannesson (HJ), Herdís Helga Schopka (HHS), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD).

Gestir:

  • Faghópur 1: Ása L. Aradóttir (ÁLA), formaður (á fjarfundi), Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristján Jónasson (KS), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP, á fjarfundi),
  • Faghópur 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS) formaður, Anna G. Sverrisdóttir (AGS, á fjarfundi), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðni Guðbergsson (GG), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ, á fjarfundi).
  • Faghópur 3: Hjalti Jóhannesson (HjJ), Jón Ásgeir Kalmansson (JÁK) formaður, Magnfríður Júlíusdóttir (MJ) og Sjöfn Vilhelmsdóttir (SV).

Forföll: Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Magnús Guðmundsson (MG); Þorvarður Árnason (ÞÁ); Guðmundur Jóhannesson (GJ), Sveinn Runólfsson (SR)


  1. Fundur settur kl. 15:30.
  2. Inngangur formanns verkefnisstjórnar. GP fór yfir aðdraganda fundarins og lýsti fyrirkomulaginu. Fyrst yrðu ræddar athugasemdir frá fulltrúum orkufyrirtækja, svo náttúruverndarsamtaka og ferðaþjónustu. 
  3. Umræður um atriði sem fram komu hjá orkufyrirtækjum: Formenn faghópa kynntu í örstuttu máli helstu athugasemdir sem fram höfðu komið: 
    1. Faghópur 1 (F1): ÁLA fór yfir helstu athugasemdir virkjunaraðila: stærð áhrifasvæða vegna vatnsafls- og vindorkukosta og spurningar um hve nákvæmum gögnum virkjunaraðilar þurfi að skila. 
    2. Faghópur 2 (F2): ADS kvað sömu athugasemdir hafa komið fram hjá orkufyrirtækjum, að áhrifasvæði væru of stór. Aðilar ferðaþjónustunnar reyndust hins vegar sáttir við stærð og afmörkun áhrifasvæðanna. Orkufyrirtæki gerðu athugasemdir við að F2 virðist meta landið eins og það sé ósnortið og ekki gera ráð fyrir að virði margra svæða sé þegar raskað. Einnig var fjallað um gæði gagna og hversu ítarlegum gögnum þurfi að skila með umsókn um virkjunarleyfi. Loks sætti gagnrýni hve ferðaþjónustu er gefið mikið vægi. 
    3. Faghópur 3 (F3): JÁK sagði orkufyrirtækin hafa gert alvarlegar athugasemdir við að mat á samfélagslegum áhrifum hafi ekki verið tekið með í reikninginn við röðun valkosta. Rætt var hvaða breytur ætti að skoða og mikilvægi þess að meta áhrif virkjanakosta á atvinnustig og bætta innviði á svæðinu. Áhersla var lögð á að rannsökuð yrðu áhrif og viðhorf til virkjana sem nú væru starfandi en hefðu valdið miklum deilum á fyrri stigum.
    4. Áhrifasvæði:
      1. Ítarlega var rætt  hvernig hægt sé að koma betur til skila þeirri hugsun sem er að baki afmörkun áhrifasvæða F2. ADS minnti á, að þegar verið er að skoða áhrif á ferðamennsku þarf að taka tillit til þess að menn ferðast frá einu svæði til annars og taka með sér þau hughrif sem þeir verða fyrir á  leiðinni. Hver virkjunarkostur getur haft áhrif á mismunandi ferðaleiðir og það eru þau áhrif sem F2 skoðar. Áhrifin eru mest næst virkjuninni, en dvína mjög með fjarlægð. Sú staðreynd er ljós í niðurstöðu rannsóknarinnar en hún þarf líka að koma fram í aðalkortinu sem sett er fram. Það hefur ekki verið gert til þessa og kann að valda þeirri tilfinningu að áhrifasvæðin séu alltof stór. ADS sýndi nokkrar glærur um áhrifasvæði mismunandi virkjana og ræddi vægi hvers áhrifaþáttar. Flestir fundarmenn voru sammála um að betra sé að sýna ekki bara útmörk áhrifasvæða, heldur nota litabreytingar og tölur til að skýra hvar áhrif virkjunar eru mest og hvernig dregur úr þeim. HJ tók fram að að sínu mati séu áhrifasvæðin of stór og áhrif þurfi ekki endilega að flokkast sem neikvæð.
      2. Rætt hvort mögulegt væri að breyta áhrifasvæðum hjá F1 og skilgreina þau misjafnlega eftir viðföngum. Sem stendur eru áhrifasvæði vatnsaflsvirkjana skilgreind sem vatnasvið ofan stíflu en neðan stíflu er tekið til ákveðinnar fjarlægðar út frá miðlínu ár.  Meðlimir F1 voru á einu máli um mikilvægi þess að aðferðin væri gegnsæ og samanburðarhæf milli valkosta. Vatnasvið er ótvíræður mælikvarði sem hefur náttúrufarslega skírskotun. Að beita mismunandi skilgreiningum á áhrifasvæði viðfanga byði heim miklu flækjustigi og hættu á ósamanburðarhæfum viðmiðum. Muna verður að markmiðið með vinnu faghópanna er að bera saman virkjunarkosti – og það verður að gera á samanburðarhæfan hátt.
      3. Sérstaklega var rætt um áhrifasvæði vindorkuvera og mikilvægi góðra gagna þegar þau eru metin, ekki síst með tilliti til sjónmengunar.
      4. SUP benti á að hugtakið „áhrifavæði“ geti verið misvísandi, þar sem áhrifa gætir mjög mismikið innan þessara svæða. Réttara væri að tala um „könnunarsvæði“ eða „rannsóknarsvæði“. HHS benti á að í 2. áfanga rammaáætlunar hafi verið talað um „matssvæði“.
      5. ÁLA lagði til að skoðað yrði í F1 hvaða áhrif minnkað áhrifasvæði hefði á útkomu einhverra virkjunarkosta úr RÁ3. Tekið var vel í þessa hugmynd og mun verkefnisstjórn beita sér fyrir að þetta verði gert á nýju ári.
      6. Rædd var gagnrýni orkufyrirtækja á að ekki sé tekið tillit til þess að svæði í nágrenni við ætlaða virkjun séu þegar röskuð. Faghóparnir telja þetta ekki rétt, því tekið sé tillit til slíkra þátta. Sem dæmi má nefna mat á Búrfellslundi og Skrokköldu, sem bæði hlutu lágar einkunnir á verðmætamati vegna þess að þau standa á röskuðu svæði. Annað dæmi er að einkunn  Hagavatns fyrir víðerni lækkaði verulega vegna háspennulínu í nágrenninu.
    5. Gæði gagna:
      1. Spurningin um gæði gagna er ofarlega í huga haghafa, einkum virkjunaraðila sem senda inn gögnin. Það hefur sýnt sig að færri athugasemdir koma þegar gögnin sem faghópar og verkefnisstjórn fá eru nákvæm og góð. Virkjunaraðilar eru misjafnlega í stakk búnir til að afla nákvæmra gagna en hlutverk rammaáætlunar er að meta virkjunarkosti á fjölbreyttum forsendum og eðlilegt að kallað sé eftir góðum gögnum um þá þætti sem máli skipta við matið.
      2. Áhrifamat virkjunarkosts byggir á gögnum frá virkjunaraðila en verðmætamat byggir á almennum gögnum um svæðin. Stundum vantar viðkomandi gögn, t.d. benti SUP á að heildarsýn vanti yfir menningarminjar í landinu og þess vegna sé erfitt að álykta um hvort ákveðnar minjar séu einstakar eður ei. Þar kemur varúðarreglan til skjalanna.
      3. Hvenær verða gögn gömul/úrelt? Sem dæmi má nefna að rannsóknir í ferðamálum úreldast hratt við þær aðstæður sem hafa verið að undanförnu.
    6. Aðferðir verkefnisstjórnar: Á fundum faghópa með orkufyrirtækjum um aðferðafræði faghópa kom fram vilji orkufyrirtækja til að taka þátt í sambærilegum fundum með verkefnisstjórn um aðferðafræði hennar við samþættingu mats á niðurstöðum faghópa.
  4. Umræður um atriði sem fram komu hjá fulltrúum náttúruverndarsamtaka og ferðaþjónustunnar:
    1. Náttúruverndarsamtök höfðu vakið máls á því hvort eðlilegra væri að flokka og meta vatnsafl og jarðvarma sitt í hvoru lagi, þar sem þessir mismunandi virkjunarkostir séu metnir á mjög ólíkum forsendum (t.d. er ekkert rennandi vatn á flestum jarðhitasvæðum). KJ taldi að faghópur 1 ætti að geta skoðað mismunandi tegundir orkukosta sitt í hvoru lagi og það henti í raun mun betur aðferðafræðinni, sem byggist á samanburði milli svæða. Sömuleiðis telur MJ þessa nálgun geta hentað betur fyrir faghóp 3. ADS telur hins vegar að það henti aðferðafræði faghóps 2 betur að meta alla virkjunarkosti samtímis. TGG benti á að það hvernig faghóparnir raði geti haft áhrif á vinnu verkefnisstjórnar og mögulega sé röðunin á endanum frekar pólitískt mál en vísindalegt. Þetta atriði þaf að ræða nánar.
    2. Línulagnir skipta miklu fyrir ferðaþjónustuna. Virkjunarkostir eru ekki komnir langt í hönnun þegar þeir eru lagðir fram í rammaáætlun og þá er yfirleitt ekki vitað hvernig línur frá virkjunum muni liggja eða líta út. Að mati faghópanna og ferðaþjónustunnar er hins vegar nauðsynlegt að vita það til að geta metið framkvæmdina. Einnig verður að vera ljóst að endanleg lega og gerð línulagna verður að vera að mestu eins og lagt var upp með í þeirri útfærslu sem metin var í RÁ. Bent var á Hvalárvirkjun sem dæmi en þar virðist nú ólíklegt að línulagnir verði eins og reiknað var með þegar framkvæmdin var sett í orkunýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar. Vstj telur að ástæða sé til að skerpa á orðalagi í reglugerð varðandi gögn um fyrirhugaðar línulagnir vegna virkjunarkosta.
    3. Rauð flögg hafa hingað til verið notuð til að vekja athygli á því þegar aðferðafræði faghópanna nær ekki að gefa virkjunarkosti á svæði sem er einstakt á einhvern hátt viðhlítandi vægi. Rætt hvort hægt væri að nota aðra aðferð til að vekja athygli á þessum svæðum. Best væri ef aðferðafræðin næði utan um það þegar eitthvað er einstakt svo svæði eins og t.d. Geysir séu metin að verðleikum. Aðferðafræðin má ekki læsa slíka virkjunarkosti inni. ERL bendir á að þetta sé mjög vandmeðfarin umræða og ef rauð flögg séu sett upp þurfi að gæta þess vel að það sé gert á  málefnalegum grunni. ÞEÞ tekur undir með ERL og bendir á að ef flöggin séu nýtt mikið núlli það út heildaraðferðafræðina. Mjög erfitt að hanna aðferðafræði sem er rekjanleg, gegnsæ og sjálfri sér samkvæm fyrir svæði sem eru með mjög hátt verðmæti í einum eða fáum viðföngum, fjölþáttagreiningin virki hins vegar vel fyrri svæði sem eru með mörg há verðmæti í mörgum viðföngum. GP veltir upp spurningu hvort náttúruverndarlög krefjist þess að svæði hafi mikil verðmæti á mörgum sviðum til að þau verðskuldi vernd.
    4. Breytingar í útfærslu virkjunar frá mati að framkvæmd: Rætt var um hvort og þá hvernig sé hægt að taka á því þegar útfærsla virkjunar breytist verulega frá því virkjunarkostur er flokkaður í nýtingarflokk í rammaáætlun og þar til hún er byggð. Sem dæmi var nefnd Hvalárvirkjun en hönnun hennar og línulagnir hafa breyst töluvert frá því sem metið var í 2. áfanga rammaáætlunar.
  5. Umræður um atriði sem fram komu hjá verkefnisstjórn:
    1. HJ benti á þann möguleika að svæði fengi meira aðdráttarafl fyrir einhverja markhópa eftir virkjun og það þyrfti að skoða. ADS benti á að slík aðferðafræði væri umturnun á því sem hingað til hefur verið gert. Hingað til hefur faghópur 2 miðað sínar rannsóknir við áhrif virkjunarkosta á núverandi markhóp ferðaþjónustunnar.  Hins vegar er nákvæm markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu ekki til og mikil vinna þyrfti að fara fram áður en hægt væri að gera slíkar rannsóknir.
    2. Einkunnakvarði; er nauðsynlegt að faghópar 1 og 2 hafi eins einkunnakvarða eða mega þeir vera mismunandi? ÞEÞ telur að ekki sé nauðsynlegt að faghóparnir hafi eins einkunnarkvarða, þar sem það er ekki sjálf einkunnin, heldur röðunin sem skiptir máli. 
  6. Rannsóknir framundan: Miðað við að Alþingi afgreiði 3. áfanga rammaáætlunar á vorþingi 2019, gæti verkefnisstjórn fengið virkjanakosti til umfjöllunar í fyrsta lagi í lok sumars 2019. Brýnt er að nota tímann vel og þar er undirbúningur mats á vindorkukostum efstur á blaði. Einnig er unnið að rannsóknum á landslagi og víðernum innan faghóps 1, og unnið að rannsóknum á ákveðnum virkjunarkostum í faghópi 2. Faghópur 3 hyggst rannsaka áhrif starfandi virkjana á samfélög. Allir faghópar og verkefnisstjórn vinna að endurbótum á aðferðum sínum – og hafa fundir með haghöfum verið þáttur í þeirri vinnu.
  7. Samantekt:
    1. Faghópur 1: Áhrifasvæði, skoða áhrif stærðar áhrifasvæða. Umræða um gæði gagna og ítarleika þarf að halda áfram, sérstaklega umræðan um mannvirki sem fylgja virkjunum. Áhrif þess að skoða mismunandi virkjunarkosti í sitt hvoru lagi.
    2. Faghópur 2: Áhrifasvæði, skoða áhrif stærðar þeirra, skýrari framsetning á kortum sem sýni dvínandi áhrif með fjarlægð frá virkjunarkosti. Skoða áhrif þess að meta virkjunarkosti eftir tegund orkuframleiðslu. Vogtölur fyrir yfirviðföng (ferðaþjónusta, beit og veiðar) – væri hægt að skilgreina þau öðruvísi og þá hvernig?
    3. Faghópur 3: Ekki mikið nýtt kom fram sem gagnast hópnum. Hópurinn vinnur þessa dagana að öflun gagna um sveitarfélög, tekjur þeirra af virkjunarmannvirkjum o.s.frv. Helsta gagnrýnin sem kom fram hjá hagaðilum er einfaldlega að það vanti alveg þennan þátt. Skoðuð verða svæði þar sem virkjanir eru þegar starfræktar m.t.t. langtímaáhrifa þeirra.
  8. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:30

HHS ritaði fundargerð.