17. fundur verkefnisstjórnar,

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

17. fundur 07.05.2018 13:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS) (mætti kl. 13:30), Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) og Herdís Helga Schopka (HHS).

  1. Fundur settur kl. 13:00.
  2. Framhald vinnu við 4. áfanga. 
    • GP og ÞEÞ skýrðu frá fundi sínum með umhverfisráðherra þann 5. maí 2018 þar sem rætt var um  framhald vinnu við 4. áfanga og svör ráðuneytisins við bréfi verkefnisstjórnar frá 27. mars 2018. Svar við bréfinu er í vinnslu í ráðuneytinu, en ráðherra staðfesti að verkefnisstjórn getur hafist handa við rannsóknir og mat á virkjunarkostum sem eru í biðflokki gildandi rammaáætlunar (þ.e. RÁ2); einnig væri verkefnisstjórn beðin um að vinna að þróun aðferðafræði rammaáætlunar, bæði faghópa og verkefnisstjórnar, og að rita greinargerð þar um. Ráðherra var sammála GP og ÞEÞ um nauðsyn þess að faghópar komi að þessari vinnu og að miðað verði við að henni ljúki á þessu ári.
    • Umræður spunnust um gerð orkustefnu, en GAS hefur verið skipuð formaður starfshóps orkumálaráðherra þar að lútandi. 
    • Fram hefur komið að margir  virkjunarkosti 10 MW og minni eru nú til umfjöllunar hjá Orkustofnun.  Umræður spunnust um lagaramma þeirra og markmið þeirra laga, í ljósi álits Orkustofnunar sem fram kom á 14. fundi verkefnisstjórnar, að endurtekið mætti stækka slíkar virkjanir, án þess að þær lytu mati rammaáætlunar.
  3. Virkjunarkostir í biðflokki núverandi rammaáætlunar – ÞEÞ kynnti. 
    • Þar sem rannsóknir eiga að geta hafist í sumar á  virkjanakostum í biðflokki gildandi rammaáætlunar, fól formaður ÞEÞ fyrir fundinn að taka saman yfirlit yfir þá kosti. 
    • ÞEÞ fjallaði um hvern virkjunarkost í biðflokki gildandi rammaáætlunar. Eftir ítarlega umfjöllun um hvern og einn kost var ákveðið að fela faghópum að skoða eftirfarandi virkjunarkosti: Hvítá í Árnessýslu og Ölfusá (34 Búðartunguvirkjun, 35 Haukholtsvirkjun, 36 Vörðufellsvirkjun, 37 Hestvatnsvirkjun og 38 Selfossvirkjun), Hvítá í Borgarfirði (1 Kljáfossvirkjun) og Hverfisfljót (15 Hverfisfljótsvirkjun). 
    • Skipulagðar verða skoðunarferðir um þessi svæði í júní og ágúst. 
  4. Faghópar, skipun þeirra og aðferðir. Samkvæmt ákvörðun verkefnisstjórnar hefur formaður þegar haft samband við þau sem leiða munu starf faghópa RÁ4, þau Ásu Aradóttur fyrir faghóp 1 (náttúruverðmæti og menningarminjar) og Jón Ásgeir Kalmansson fyrir faghóp 3 (samfélagsleg áhrif virkjana), og hafa þau tekið verkið að sér frá 1. mars 2018. Formanni var nú falið að leita til Önnu Dóru Sæþórsdóttur um að taka að sér formennsku í faghópi 2 (um aðra nýtingu landsvæða). Frekari skipun faghópa verður viðfangsefni næstu funda verkefnisstjórnar.
  5. Fundargerðir: Brýnt er að verkefnisstjórn afgreiði fundargerðir án tafar þegar þær berast. Verklagsreglur verkefnisstjórnar kveða á um að allir þurfa að senda inn samþykki fyrir öllum fundargerðum, ekki er hægt að taka þögn sem samþykki.
  6. Aðferðafræði verkefnisstjórnar: Rætt hvernig niðurstöður faghópa 3 og 4 hafa verið nýttar  af verkefnisstjórn og hvernig stuðla má að því að þær nýtist til röðunar og flokkunar virkjunarkosta.
  7. Frekari þekkingaröflun verkefnisstjórnar: Ljóst er að áhugi á vindorkuverum fer vaxandi og brýnt að verkefnisstjórn búi yfir góðri þekkingu á þeim virkjunarháttum. Ákveðið að fá sérfræðinga til að funda með verkefnisstjórninni um þennan málaflokk. HHS kemur með tillögur. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur skipulagt málþing um vindorku þann 8. júní 2018 sem verkefnisstjórn mun reyna að sækja. Einnig skal stefna að fræðslufundi um sjálfbærni jarðhitanýtingar og að bjóða í haust orkufyrirtækjum að kynna áform sín og  framtíðarsýn.
  8. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00.

HHS ritaði fundargerð.