11. fundur verkefnisstjórnar, 20.11.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

11. fundur 20.11.2017 12:30-15:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) (mætti kl. 13:00) og Herdís Helga Schopka (HHS). Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) sótti fundinn símleiðis.

Forföll: Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS) var erlendis.


 1. Fundur settur kl. 12:40.
 2. Samfélagsleg áhrif: Meginefni fundarins var félagsleg áhrif virkjunarkosta og mögulegar aðferðir til að meta þau. Rætt um vinnu, aðferðafræði og niðurstöður faghópa og annarra sérfræðinga um samfélagsleg áhrif í fyrri áföngum.
  • Fram kom að ekki er talið líklegt að hægt verði að nota niðurstöður faghóps um samfélagsleg áhrif til að raða virkjunarkostum,  en engu að síður er starf slíks faghóps  mikilvægt – ekki síst í  þeim tilfellum þar sem telja má líklegt að átök skapist um virkjunarkosti.
  • Faghópur 3 í 3. áfanga RÁ hefur unnið mjög vel að skilgreiningu og prófun aðferða til að efla samráð og varpa ljósi á hvaða þætti fólk leggur megináherslu á þegar það metur virkjanakosti í umhverfi sínu. Þetta er vandmeðfarið og brýnt að nota reynslu faghópanna sem best til að þróa áfram aðferðirnar.
  • Brýnt er að standa vel og snemma að kynningu á þeim virkjanakostum sem verkefnisstjórn fær til umfjöllunar, ekki síst með því að funda með heimamönnum á svæðum sem verða fyrir áhrifum af virkjununum.
  • Lagt er til að kynningar og samráð verði skilgreind sem fyrsta skref í mati á samfélagslegum áhrifum. Að slíkum kynningum og samráði kæmu auk verkefnisstjórnar og faghópa, sveitarfélög, orkufyrirtæki og hugsanlega aðrir haghafar.
  • Það kann að reynast snúið að  skilgreina í upphafi hvernig best verður að nota niðurstöður rannsókna á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta – eða hvort það fer eftir niðurstöðum á hverjum stað.  Allavega á að vera hægt að skilgreina að mestu aðferðir faghóps 3 frá upphafi.
  • Líklegt að niðurstöður faghóps 3 séu háðar niðurstöðum faghópa 1 og 2 á hverju svæði, - og mögulega væri skynsamlegt að tengja starf faghópa 3 og 4 (um mat á hagrænum áhrifum virkjunarkosta).
  • Ákveðið var að bjóða faghópi 3 úr 3. áfanga RÁ á næsta fund verkefnisstjórnar til að ræða þeirra sýn á næstu skref.
 3. Biðflokkur í 3. áfanga: Rætt um virkjunarkosti sem verkefnisstjórn 3. áfanga flokkaði í biðflokk og hvernig það verkefni yrði nálgast í 4. áfanga. Nauðsyn á góðu samráði við haghafa til að nýta tíma og fjármuni sem best.
 4. Þjóðgarður á miðhálendinu: Rætt var stuttlega hvaða áhrif skoðun á forsendum fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs kann að hafa á vinnu við rammaáætlun. Enn hefur sú vinna engin áhrif haft á vinnu verkefnisstjórnar eða faghópa RÁ.
 5. Skipan faghópa: Rætt um faghóp 1.
 6. Erindi frá Skúla Skúlasyni: Fyrir liggur ósk um fjárstuðning frá formanni faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar vegna starfa vísindamanna úr hópnum að kynningu á starfi RÁ og ósk um fjármögnum frekari rannsókna. Erindi Skúla rætt og niðurstaða að slíkt erindi eigi ekki heima hjá verkefnisstjórn 4.RÁ.
 7. Fundargerð 10. fundar: Bent á atriði sem gleymdist að setja í fundargerð 10.fundar. Endurbætt fundargerð verður send fundarmönnum til samþykkis.
 8. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00.


HHS ritaði fundargerð.