10. fundur verkefnisstjórnar, 06.11.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

10. fundur 06.11.2017 12:30-15:30

haldinn á Lex lögmannastofu

 

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) og Herdís Helga Schopka (HHS).

Gestir: Birna Björk Árnadóttir (BBA) frá Skipulagsstofnun og Kjartan Ólafsson (KÓ) frá Háskólanum á Akureyri sátu fundinn kl. 12:30-14:30.

 1. Fundur settur kl 12:35.
 2. Samfélagsleg áhrif: Megin efni þessa fundar var samfélagsleg áhrif virkjunarkosta og mögulegar aðferðir  til að meta þau.  Gestir fundarins fengnir til að miðla af sérfræðiþekkingu sinni á málefninu. 
  1. Fyrst var farið stuttlega yfir vinnu faghópa um samfélagsleg áhrif í 2. og 3. áfanga rammaáætlunar með hiðsjón af niðurstöðum vinnuhóps sem verkefnisstjórn 3. áfanga skipaði til að vinna drög að aðferðafræði, og þriggja kannana sem faghópur 3 í 3. áfanga lét vinna. Rædd álitaefni sem faghópar um samfélagsleg áhrif hafa rekist á í vinnu sinni, t.d. hvar eigi að draga landfræðileg mörk mats á samfélagslegum áhrifum og hve álitaefni um samfélagsleg áhrif eru háð tíma, þ.e. mat fólks á áhrifum virkjana breytist með tíma.
   1. KÓ, sem sat í faghópi um samfélagsleg áhrif í 2. áfanga, gerði grein fyrir því að sá faghópur hefði leitað aðferða til að meta samfélagsleg áhrif óháð því hvernig vindar blása í samfélaginu á hverjum tíma, og bent á að samfélagsleg áhrif eru ekki bara bundin við nærsamfélagið. Hann minnti á að þótt íslenskt nátturufar sé einstakt, þá sé íslenskt samfélag ekki síður. Faghópurinn lagði áherslu á það á sínum tíma, að þótt hægt sé að meta samfélagsleg áhrif sé ekki hægt að nota samfélagsleg áhrif til þess að raða virkjanakostum. KÓ sagði að sínu mati stæði sú niðurstaða óhögguð.
   2. Það kemur heim og saman við álit sérfræðings hjá NordRegio, sem GP ráðfærði sig við í vikunni.
   3. Bent á að það er allt annað mál að meta samfélagsleg áhrif framkvæmdar  sem þegar er orðin (d. Kárahnjúkar) eða framkvæmdar sem er á hugmyndastigi (d. neðri Þjórsá). Mikilvægt að setja í framkvæmdaleyfi skilyrði um vöktun á skilgreindum þáttum (sem má breyta með tímanum), svo menn öðlist skilning á samfélagslegum áhrifum stórframkvæmda.
  2. Mikilvægt að tala ekki bara um vatnsaflsvirkjanir. Meira vinnuafl til frambúðar í jarðvarmavirkjunum, þar sem þær kalla á meira og flóknara viðhald og rekstur. Einnig eru umhverfisáhrifin afar ólík milli þessara tveggja virkjunartegunda.
  3. Rætt um hlutverk „samfélagssáttmála“ milli virkjanaaðila og nærsamfélags, til að tryggja að nærsamfélagið njóti góðs af framkvæmdunum.
  4. Ein helsta niðurstaða samtals verkefnisstjórnar, BBA og KÓ á fundinum var að nauðsynlegt er að skilgreina vel rannsóknaspurningu faghóps um samfélagsáhrif og ákveða hvernig verkefnisstjórn hyggst nota  niðurstöður hópsins.
  5. Ákveðið að verkefnisstjórn vinni áfram að þessu máli á næsta fundi, HHS sendir upplýsingar um skýrslur og annað ítarefni til undirbúnings.
 3. Framhald vinnu verkefnisstjórnar: Næg verkefni eru framundan þótt Alþingi hafi enn ekki afgreitt þingsályktun um rammaáætlun úr 3. áfanga.
  1. Skipan faghópa. GP lagði til að fenginn yrði sérstakur aðili til að sjá um rekstur faghópanna, tímaskráningar, launagreiðslur o.þ.h., svo sérfræðingar/formenn faghópa þurfi ekki að sjá um slíkt. Starfsmanni verkefnisstjórnar var falið að koma þeirri ósk á framfæri í UAR.
 4. Kortasjá á OS: MG greindi frá því að enn hefur ekki fengist aðgangur að kortasjá Orkustofnunar, sem orkumálastjóri bauð verkefnisstjórn á 5. fundi verkefnisstjórnarinnar 30. ágúst sl. Málið er í vinnslu og vonast er eftir skjótri lausn.
 5. Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15:10.      


HHS ritaði fundargerð.