1. fundur verkefnisstjórnar, 04.05.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

1. fundur, 04.05.2017, 09:00-12 :00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt, aðalmenn:  Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD),

Mætt, varamenn: Ágúst Sigurðsson (ÁS), Guðjón Bragason (GB), Jórunn Harðardóttir (JH), Laufey Jóhannsdóttir (LJ), Magnús Guðmundsson (MG), Ragnheiður H. Þórarinsdóttir

og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Forföll boðaði: Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ).


 1. Fundur settur kl. 09:00. 
 2. Kynningar: Fundarmenn kynntu sig stuttlega, og sögðu frá menntun sinni og störfum. 
 3. Inngangsorð formanns: Formaður lýsti stuttlega sýn sinni á verkefnið sem stendur fyrir dyrum og hlutverki verkefnisstjórnar í að leiða það farsællega til lykta. Höfuðatriði er að styrkja það mikilvæga stjórntæki sem rammaáætlun er og afla því trausts.
 4. Kynning á rammaáætlun: HHS flutti kynningu um stjórntækið rammaáætlun. Fyrst var litið á hvað rammaáætlun væri og hvert markmið stjórnvalda með áætluninni væri, auk þess að saga og forsaga rammaáætlunar hérlendis var rakin. Lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun voru kynnt stuttlega og einnig reglugerð og starfsreglur sem settar hafa verið með stoð í lögunum. Farið var í gegnum heildarferli rammaáætlunar (þ.e. frá því að orkufyrirtæki senda til Orkustofnunar beiðnir um að virkjunarkostir verði teknir til umfjöllunar í rammaáætlun og til þess að Alþingi fjallar um þingsályktunartillögu um flokkun virkjunarkosta og landsvæða) bæði út frá fyrirmælum laganna og út frá atburðarás í 3. áfanga rammaáætlunar, en þá var unnið í fyrsta sinn eftir lögunum. Skipan og hlutverk verkefnisstjórnar var kynnt og hvernig starf hennar hefur þróast í gegnum tíðina. Einnig var sagt frá faghópum rammaáætlunar, hvert verksvið þeirra er og hvernig þeir hafa unnið í gegnum tíðina. Umræður spunnust um mikilvægi þess að tryggja að starf faghópa endurspegli þá  fjölþættu hagsmundi sem rammaáætlun þarf að taka tillit til. Að lokum var farið yfir praktísk atriði varðandi vinnuna – aðkomu UAR og Rekstrarfélags stjórnarráðsins að starfi verkefnisstjórnar og faghópa, vefinn www.ramma.is, gagnabrunn rammaáætlunar, aðgengi að rafrænu vinnusvæði, gagnaöryggi og varðveislu skjala í samræmi við upplýsingalög. Ákveðið að HSH myndi senda glærur sínar vegna kynningar á aðal- og varamenn með tölvupósti.
 5. Önnur mál:
  1. Varamenn voru boðaðir á þennan fyrsta fund verkefnisstjórnar. Rætt var hvort þeir ættu að sitja alla fundi. Ákveðið var að þeir taki þátt í fyrstu 3 fundum,  þar sem starf verkefnisstjórnar er kynnt (á næstu tvo fundi mæta formenn faghópa og formaður verkefnisstjórnar RÁ3). Margs er að gæta við ákvörðun þessa, m.a. kostnaðar og jafnræðis í fjölda fulltrúa skipenda. Fram kom hugmynd um að verkefnisstjórn héldi n.k. uppfærslufundi með reglulegu millibili þar sem varamönnum væri boðið og farið væri yfir stöðuna með þeim. Ákvörðun verður tekin á fundi 3.
  2. Nauðsynlegt er að uppfæra vef rammaáætlunar nú þegar 4. áfangi er hafinn. HHS gerði örstutta grein fyrir því í hverju slík uppfærsla felst og að áætlaður kostnaður sé um 100 þús.kr. Verkefnisstjórnin samþykkti að vefurinn yrði uppfærður og fól HHS að fylgja því máli eftir.
  3. Fjármál rammaáætlunar voru rædd, þ. á m. fjárheimildir verkefnisins, laun verkefnisstjórnar og fulltrúa í faghópum, utanumhald um fjárreiður og tenging við ráðuneytið. HHS hefur beðið fjármálastjóra UAR um sundurgreint yfirlit yfir fjármál 3. áfanga rammaáætlunar svo ný verkefnisstjórn geti haft þann kostnað til hliðsjónar í sinni vinnu. Yfirlitsins er að vænta fyrir næsta fund verkefnisstjórnar.
  4. Elín R. Líndal óskaði eftir að minnisblað (ódagsett) verkefnisstjórnar Rammáætlunar 3 um reynslu af framfylgd laga nr. 48/2011 yrði sent með tölvupósti á aðal- og varamenn í nýrri verkefnisstjórn í Rammaáætlun 4 til upplýsingar.
 6. Næstu fundir: Næsti fundur hefur þegar verið boðaður þann 18. maí 2017. Formenn faghópa í 3. áfanga munu koma á fundinn til að kynna aðferðafræði og starf faghópanna. Ákveðið var að bjóða formanni verkefnisstjórnar 3. áfanga RÁ á þriðja fundinn.. Ákveðið að boða þann fund að morgni 12. júní nk. ef sá tími hentar gestinum. Fundarmenn voru sammála um að fastsetja fundartíma hálft eða jafnvel heilt ár fram í tímann. Það verkefni bíður hins vegar næstu funda.
 7. Fundi slitið kl. 12:00.

 

Herdís H. Schopka