5. fundur faghóps 4, 02.09.2020

Fundarfrásögn

Faghópur 4 

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

5. fundur , 2. september 2020, haldinn í fundarherbergi Hagfræðistofnunar, klukkan 2 eftir hádegi.

Á fundinum voru úr faghópi. Brynhildur Davíðsdóttir, Daði Már Kristófersson og Sigurður Jóhannesson, sem ritaði fundargerð.

Dagskrá: Virkjunarhugmyndir sem Orkustofnun lagði fyrir Rammaáætlun í vor.


Umræður og niðurstöður : Á fundinum kom fram að afstaða hópsins til einstakra hugmynda mundi byggjast á 1) kostnaðarmati Orkustofnunar, 2) hagrænu mati á umhverfisáhrifum virkjana og 3) mati á þjóðhagslegum áhrifum þeirra. Í hagrænu mati yrðu upplýsingar, sem hinir faghóparnir þrír taka saman um áhrif framkvæmda á umhverfi og annað atvinnulíf, notaðar sem grunnur að könnun á skoðunum almennings. Meta má þjóðhagsleg áhrif framkvæmdanna í haglíkani á grunni upplýsinga um innlendan og erlendan kostnað og framkvæmdatíma. Hagfræðistofnun vinnur þessa dagana að mati á einni hugmynd, Urriðafossvirkjun, og er það hugsað sem fyrirmynd að mati á öðrum virkjunarhugmyndum. Mjög erfitt er að gera slíkt mat nema byggja það á upplýsingum af þessu tagi, það er að segja ef eitthvert vit á að vera í matinu. Ef þess er ekki krafist verður matið að sjálfsögðu einfaldara.

Sigurður rifjaði upp að á fundi með stjórn rammaáætlunar fyrir skömmu hefði hann sagt  að ef aðeins ætti að stækka aflvélar Þjórsárvirkjana, en lón stækkuðu ekki, væri auðveldara að afgreiða hagrænt mat á umhverfisáhrifum þar en annars staðar. Hann benti líka á að skoða mætti athuganir sem þegar hefðu verið gerðar. Til dæmis hefði nýlega verið gert skilyrt verðmætamat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Ekki komu fram athugasemdir við þetta.