3.b fundur faghóps 3, 02.11.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 3

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

2. nóvember 2018 kl. 12:30 til 15:30

Fundur faghóps 3 og virkjunaraðila

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt voru:

Úr faghópi 3: Hjalti Jóhannesson (HJ), Jón Ásgeir Kalmansson (JÁK) (formaður), Magnfríður Júlíusdóttir (MJ) og Sjöfn Vilhelmsdóttir (SV);

Gestir, fulltrúar virkjunaraðila (sátu fundinn til kl. 15:30): Jóna Bjarnadóttir (JB), Óli Grétar Sveinsson (ÓGS) og Helgi Jóhannesson (HJ) frá Landsvirkjun (Lv); Páll Erland (PE), Sigurjón Kjærnested (SK) og Sigurlilja Albertsdóttir (SA) frá Samorku; Heiða Aðalsteinsdóttir (HA) frá On og OR; Ásbjörn Blöndal (ÁB) frá HS Orku;

Frá verkefnisstjórn Rammaáætlunar: Guðrún Pétursdóttir (GP) (formaður); 

Frá UAR: Herdís Helga Schopka (HHS)


Glærukynning faghóps 3  


 1. Fundur settur kl. 12:30. 
 2. JÁK gerði í upphafi stutta grein fyrir mati á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta í fyrri áföngum rammaáætlunar, þeirri vinnu sem er í undirbúningi af hálfu faghóps 3 í 4. áfanga rammaáætlunar, og þann vanda sem við er að etja í slíku mati. 
 3. Að þessu loknu miklar og líflegar umræður um ýmsa þætti mats á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta, og um rammaáætlunarferlið í heild. Meðal þeirra atriða sem komu til umræðu er eftirfarandi:  
  1. Fram kom að einn vandinn sem við er að eiga við mat á samfélagslegum áhrifum sé skortur á upplýsingum um þá virkjunarkosti sem orkufyrirtækin leggja fram. Fulltrúar orkufyrirtækjanna bentu á hinn bóginn á að faghóparnir þyrftu að setja fram kröfur um upplýsingar sem þeir þyrftu á að halda til að fyrirtækin gætu aflað þeirra og sett þær fram.
  2. Allmiklar umræður voru um hvaða breytur væri hægt að styðjast við til að greina á milli samfélagslegra áhrifa ólíkra virkjunarkosta. Fram kom það sjónarmið að horfa ætti til þátta eins og þess hvort líklegt væri að virkjunarkostur yki orkuöryggi á nærsvæði hans, sem réðist meðal annars af því hvert orkuframboð væri á svæðinu. Því var haldið á lofti að virkjanir bættu nær undantekningalaust orkuöryggi á svæðum jafnvel þótt orkan færi til atvinnustarfsemi utan þeirra. Oft væru jafnframt einhver hliðargæði sem fylgdu virkjunum, einkum í jarðvarma, sem gætu orðið grundvöllur að nýrri atvinnustarfsemi. Einnig ætti að horfa til atvinnuástands á viðkomandi svæðum, fólksflótta og annars af því tagi.  Fram kom einnig það sjónarmið að samfélagsleg áhrif virkjana væru að jafnaði jákvæð. Það væri því mikilvægt að fá mat á slíkum áhrifum inn í rammaáætlunarvinnuna í heild því þannig myndi fást betri heildarmynd. Hingað til hefðu þau áhrif sem væru í meira mæli neikvæð, eins og áhrifin á náttúru og lífríki, eingöngu ráðið niðurstöðunni. Vísað var til reynslu Norðmanna sem höfðu byggðavídd í sínu mati, það er mátu það virkjunarkostum í vil ef þeir voru líklegir til að styrkja byggð. Fram kom að þótt ekki væri nauðsynlega hægt að raða virkjunarkostum í röð samkvæmt samfélagsáhrifum væri hægt að gefa hverjum kosti umsögn og merkja hann mögulega með rauðum, gulum eða grænum lit eftir því hve mikil áhrif hans væru á samfélagið. Þá var bent á mikilvægi þess að tala við sveitarstjórnarfólk á virkjunarsvæðum, eins og á Þeistareykjavæðinu, til að fá gleggri mynd af því hvaða þættir eða breytur skiptu mestu.
  3. Bent var á að mikilvægt væri að rannsaka reynsluna af fyrirliggjandi virkjunum. Gera þyrfti eins rannsóknir á virkjunarsvæðum og svæðum sem ekki hefðu virkjanir, og bera niðurstöður saman. Þá kom fram sú skoðun að horfa ætti til reynslunnar af þegar byggðum virkjunum fremur en að fólk reyndi að spá fyrir um hvað myndi gerast í framtíðinni ef virkjað yrði, enda væri ómögulegt að vita í hvað orkan færi eftir 10-30 ár, þegar komið væri að því að virkja viðkomandi kost.
  4. Umræður sköpuðust um  „kostnað per kílóvattsstund“ og um mikilvægi þess að meta kosti út frá því hvar væri hagkvæmast að virkja. Bent var á að kostnaðarflokkun Orkustofnunar í 3. áfanga hefði ekki gefið rétta mynd af virkjunarkostnaði og hagkvæmni.
 4. Fundi slitið kl. 15:30.