5. fundur faghóps 2, 01.11.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 2

4. áfangi rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

5. fundur, 01.11.2018, kl. 09:00 – 12:00.

Fundur faghóps 2 og hagaðila ferðaþjónustu, útivistar o.fl.

í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

 

Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðmundur Jóhannesson (GJ), Guðni Guðbergsson (GG), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Sveinn Runólfsson (SR) og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) var viðstödd í fjarfundabúnaði.

Frá hagaðilum:  Páll Guðmundsson frá Ferðafélagi Íslands, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir frá Ferðamálastofu, Guðný Hrafnkelsdóttir frá Ferðamálastofu, María Reynisdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Karl Ingólfsson frá Samút, Guðrún Vaka Steingrímsdóttir frá  Bændasamtökum Íslands, Stefán Már Gunnlaugsson frá Landsambandi veiðifélaga og Árni Snæbjörnsson frá Landsambandi veiðifélaga.

Frá verkefnastjórn: Guðrún Pétursdóttir, Helgi Jóhannesson og Elín R. Líndal var viðstödd í fjarfundabúnaði.

Frá UAR: Herdís Helga Schopka

Fundarritari: SR

Glærukynning faghóps 2

 

1.      ADS bauð fundarmenn velkomna til fundarins, þar sem ætlunin var að kynna þær aðferðir sem faghópur 2 hefur notað og leita eftir athugasemdum og ábendingum hagaðila um hvað má að þeirra mati betur fara. Þátttakendur kynntu sig síðan. Sjá meðfylgjandi mætingarskrá.

2.      Kynning á aðferðafræði faghóps 2 í 3. áfanga rammaáætlunar – ADS kynnti aðferðafræði faghóps 2 við mat á áhrifum virkjana á ferðamennsku og útivist, SR kynnti aðferðafræði faghópsins við mat á áhrifum virkjana á beitarhlunnindi og GG kynnti aðferðafræði faghópsins við mat á áhrifum virkjana á veiði. Nokkrar spurningar og athugasemdir komu fram undir kynningunni og verður þeim helstu gerð skil í næsta lið.

3.      Umræður – Þær athugasemdir sem helst komu fram hjá hagaðilum við aðferðafræðina voru keimlíkar þeim sem komu fram hjá virkjunaraðilum og eru þessar helstar:

  • Áhrifasvæði virkjunarkosta eru mjög stór – Einstakar virkjanir hafa mjög stór áhrifasvæði og þar með áhrif á einstök viðföng (t.d. torfæruferðir) langt út fyrir sitt nærsvæði. Þó áhrifasvæðin séu mjög stór, eins og myndræn framsetning sýnir, þá er oft aðeins lítill hluti þeirra og einstakra ferðasvæða (t.d. aðeins gönguferðir á Arnarvatnsheiði vegna Hagavatnsvirkjunar) sem verða fyrir áhrifum af völdum virkjunar. Það kom einnig fram að myndræn framsetning, sem sýnir stór áhrifasvæði, geti verið villandi.
  • Áhrif núverandi virkjana og mannvirkja þeim tengd lítil miðað við áhrif nýrra virkjana – Það er ósamræmi þegar núverandi virkjanir og mannvirki þeim tengd hafa aðeins áhrif á nærsvæði (ferðasvæði með virkjunum) en ekki á nálæg ferðasvæði, á meðan nýjar virkjanir hafa bæði áhrif á nærsvæði og fjarsvæði. Þannig ættu núverandi virkjanir að lækka einkunnir viðfanga á næstu ferðasvæðum rétt eins og nýjar virkjanir gera.

Einnig var rætt um:

  • Gæði gagna – Hversu nákvæm þurfa gögn að vera miðað við þau gögn sem síðan liggja fyrir í umhverfismati? Bent var á að gögn um háspennulínur væru mjög misgóð og oft óljós en mjög mikilvægt er að fá betri og nákvæmari gögn um staðsetningu háspennulína þar sem sá þáttur hefur mikil áhrif á ferðaþjónustu.
  • Ýmis málefni – ADS hvatti fundarmenn til að koma með ábendingar um það sem þeir teldu að betur mætti fara við aðferðarfræði og vinnubrögð Faghóps 2. En hafa bæri í huga að ofuráhersla væri lögð á að beita sömu aðferðum jafnt við mat á öllum  virkjunarkostum. Rætt var um að það kæmi til greina að beita annarri aðferðarfræði við mat á afleiðingum jarðvarmavirkjana, vegna þess hve að sum viðföng ættu þar ekki við í sama mæli og við vatnsaflsvirkjanir og við vindgarða. Enn fremur skorti enn miklar rannsóknir á orkugetu jarðvarmasvæða og því væru þar reknar á nokkrum stöðum ósjálfbærar virkjanir.
  • „Rauð flögg“ - Ábendingar komu varðandi „galla“ í aðferðafræðinni þar sem hún virðist ekki ná að fanga þegar eitthvert eitt viðfang er alveg einstakt. Tekið var dæmi um Urriðavissvirkjun en þar er einn stærsti laxastofn landsins með 11,9% af meðalveiði villtra laxa á Íslandi síðustu 5 árin undir. Sú virkjun dæmist samt hafa minnst neikvæð áhrif með aðferðafræði faghóps 2. ADS benti á að faghópurinn hafi verið meðvitaður um þennan veikleika aðferðafræðinnar en hafi reyna að vekja athygli verkefnisstjórnar á því bæði með því að setja „rautt flagg“ á virkjunarhugmyndina sem og að fjalla um það í texta í lokaskýrslu faghópsins til verkefnisstjórnar. Rætt um hlutverk verkefnisstjórnar og ábyrgð gagnvart tillögum faghópana.
  • Ferli rammáætlunar – Tíðarandinn í störfum verkefnisstjórna og faghópa hefur breyst. Sumir virkjanakostir sem nú eru komnir í nýtingarflokk hefðu núna væntanlega farið í verndarflokk.
  • ADS kallaði eftir hvort hagaðilar hefðu í sínum fórum gögn sem gætu nýst Faghópi 2 í sínum störfum. Þá kom fram að ný ferðamálastefna eigi að taka gildi árið 2020 og þá í formi þingsályktunartillögu á Alþingi. Einnig var nefnt að mögulega geti nokkur af verkefnum Stjórnstöðvar ferðamála nýst faghópi 2. T.d. Áfangastaðaáætlanir landshlutanna (DMP) þar sem skilgreint er hvernig á að nýta svæði fyrir ferðaþjónustuna og til hvaða markhópa svæði eiga að höfða, Álagsmat landsins m.t.t. ferðamennsku og verkefni um mörkunarstefnu sem fer af stað fljótlega. Einnig var beint á Landsáætlun um innviðauppbyggingu ferðaþjónustunnar á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þá er unnið að gerð Orkustefnu. Þá væri að koma út á næstu dögum skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um veiðimál, unnin á vegum Landsambands veiðifélaga, þar  sem kæmi fram m.a. ítarlegar tölur um virði veiðiáa og greinarinnar í þjóðartekjum. Bent var á að nú væri fjöldi smávirkjana sem gætu framleitt allt að 9,9 MW í undirbúningsferli og Orkustofnun hvetti mjög til að fjölga smávirkjunum sem víðast. Ljóst er að þessar virkjana gætu haft víðtæk samlegðaráhrif.
  • Afurð fundarins – ADS lagði áherslu á að nú væri andrými til að skoða aðferðarfræðina enn betur. Sérstaklega hvað varðar framsetningu á niðurstöðum. Faghópur 2 stefnir að því að taka saman greinargerð um aðferðafræði sína þegar búið er að funda með öllum aðilum (virkjunaraðilum, náttúruverndarsamtökum og fulltrúum ferðaþjónustu og útivistar ásamt annarri nýtingu). Henni yrði skilað til verkefnastjórnar og niðurstöður kynntar í framhaldinu.

4.      Fleira ekki rætt. Fundi slitið um kl. 12:00.