4. fundur faghóps 2, 08.10.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 2

4. áfangi rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

4. fundur, 08.10.2018, 12:30 – 15:00. 

Fundur faghóps 2 og virkjunaraðila

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðmundur Jóhannesson (GJ), Guðni Guðbergsson (GG), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) og Sveinn Runólfsson (SR).

Frá virkjunaraðilum: Ásbjörn Blöndal (HS Orka); Heiða Aðalsteinsdóttir (Orkuveita Reykjavíkur); Páll Erland, Baldur Dýrfjörð og Sigurjón Kærnested (Samorka); Helgi Jóhannesson, Óli Grétar Blöndal Sveinsson og Jóna Bjarnadóttir (Landsvirkjun).

Frá verkefnastjórn: Guðrún Pétursdóttir, Helgi Jóhannesson og Elín R. Líndal.

Frá UAR: Herdís Helga Schopka

Fundarritari: SSJ

Glærukynning faghóps 2

 

 1. GP bauð fundarmenn velkomna til fundarins, þar sem ætlunin er að kynna þær aðferðir sem faghópur 2 hefur notað og leita eftir athugasemdum og ábendingum orkufyrirtækjanna um hvað má að þeirra mati betur fara.   Þátttakendur kynntu sig síðan.
 2. Kynning á aðferðafræði faghóps 2 í 3. áfanga rammaáætlunar – ADS kynnti aðferðafræði faghóps 2 við mat á áhrifum virkjana á ferðamennsku og útivist, SR kynnti aðferðafræði faghópsins við mat á áhrifum virkjana á beitarhlunnindi og GG kynnti aðferðafræði faghópsins við mat á áhrifum virkjana á veiði. Nokkrar spurningar og athugasemdir komu fram undir kynningunni og verður þeim helstu gerð skil í næsta lið.
 3. Umræður – Þær athugasemdir sem helst komu fram hjá virkjunaraðilum við aðferðafræðina voru þessar:

 • Áhrifasvæði virkjunarkosta eru mjög stór – Einstakar virkjanir hafa mjög stór áhrifasvæði og þar með áhrif á einstök viðföng (t.d. torfæruferðir) langt út fyrir sitt nærsvæði. Þó áhrifasvæðin séu mjög stór, eins og myndræn framsetning sýnir, þá er oft aðeins lítill hluti þeirra og einstakra ferðasvæða (t.d. aðeins gönguferðir á Arnarvatnsheiði vegna Hagavatnsvirkjunar) sem verða fyrir áhrifum af völdum virkjunar. Það er mögulegt að myndræn framsetning, sem sýnir stór áhrifasvæði, geti verið villandi.
 • Stór hluti afleiðingarstuðuls kemur frá öðrum ferðasvæðum en nærsvæði virkjunar – Óeðlilegt að stór hluti afleiðingarstuðuls komi frá öðrum ferðasvæðum en nærsvæði virkjunar. Eðlilegra væri að stærstur hluti afleiðingarstuðuls (t.d. 50%) kæmi frá nærsvæði en vægi áhrifa virkjunar væru metin hlutfallslega minni eftir því sem fjær dregur virkjun.
 • Áhrif núverandi virkjana og mannvirkja þeim tengd lítil miðað við áhrif nýrra virkjana – Það er ósamræmi þegar núverandi virkjanir og mannvirki þeim tengd hafa aðeins áhrif á nærsvæði (ferðasvæði með virkjunum) en ekki á nálæg ferðasvæði, á meðan nýjar virkjanir hafa bæði áhrif á nærsvæði og fjarsvæði. Þannig ættu núverandi virkjanir að lækka einkunnir viðfanga á næstu ferðasvæðum rétt eins og nýjar virkjanir gera.
 • Vægi ferðaþjónustu mikið miðað við vægi beitar og veiði – Vægi ferðaþjónustu, beitar og veiði er fundið út frá landsframleiðslu. Vægi ferðaþjónustu er það sama alls staðar á landinu hvort sem ferðaþjónusta er lítil eða mikil á viðkomandi landsvæði. Væri hægt að hafa mismunandi vægi þessara þátta eftir landshlutum?

Einnig var rætt um:

 • Mótvægisaðgerðir – Mótvægisaðgerðir eru ekki metnar í rammaáætlun, en það er mjög mismunandi hversu nákvæmar lýsingar eru á þeim í þeim gögnum sem liggja fyrir. Einnig skortir eftirfylgni með mótvægisáhrifum, svo ekki er tryggt að þær virki í raun eins og áformað er.
 • Gæði gagna – Hversu nákvæm þurfa gögn að vera miðað við þau gögn sem síðan liggja fyrir í umhverfismati? Orkustofnun hefur sett staðla/reglugerð um hvaða gögn þurfi að vera til staðar þegar virkjunarkostir eru lagðir fram í rammaáætlun. Því meiri og betri gögn sem lögð eru fram, því betra, einnig gögn sem ekki eru tiltekin í reglugerð. Bent var á að gögn um háspennulínur væru mjög misgóð og oft óljós en mjög mikilvægt er að fá betri og nákvæmari gögn um staðsetningu háspennulína þar sem sá þáttur hefur mikil áhrif á ferðaþjónustu.
 • Ferli rammáætlunar – Það kom fram sú skoðun að núverandi ferli rammaáætlunar sé meira að meta til verndunar en nýtingar. Aðeins sé verið að meta virkjunarkost miðað við aðra virkjunarkosti í stað þess að allt landið væri undir. Tekið dæmi frá Noregi þar sem fyrst var farið í að metið hvaða landsvæði bæri að vernda og síðan metin innbyrðis þau svæði sem komu til greina fyrir virkjanir. Þannig mætti til dæmis meta hvar á landinu vindorkuver gætu risið með tilliti til umhverfisáhrifa áður en farið er að meta einstaka framkvæmdir.
 • Afurð fundarins – Spurt var hver yrði niðurstaða fundarins og möguleg endurskoðun á aðferðafræði í kjölfarið. Faghópur 2 stefnir að því að taka saman greinargerð um aðferðafræði sína þegar búið er að funda með öllum aðilum (virkjunaraðilum, náttúruverndarsamtökum og fulltrúum ferðaþjónustu, útivistar ásamt annarri nýtingu og). Því yrði skilað til verkefnastjórnar og niðurstöður kynntar í framhaldinu.

4. Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl. 15:00.