2. fundur faghóps 1, 27.06.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 1 

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

2. fundur 27. júní 2018 kl. 14-16

UAR, Skúti


Mætt: Ása L. Aradóttir (ÁLA), Tómas G. Gunnarsson (TGG). Í fjarfundi: Sólborg Una Pétursdóttir (SUP) og Þorvarður Árnason (ÞÁ).

Forföll boðuðu: Kristján Jónasson (KJ) og Jón S. Ólafsson (JSÓ)

Gestir: Guðrún Pétursdóttir (GP), Herdís Helga Schopka (HHS)


 1. GP fór yfir stöðuna sem nú er uppi og þau verkefni sem framundan eru:  Ekki er ljóst hvaða virkjunarkostir verða skoðaðir í 4. áfanga þar sem tillaga verkefnisstjórnar 3. áfanga hefur ekki verið afgreidd af Alþingi. GP leggur áherslu á að tækið rammaáætlun og trúverðugleiki þess verði styrkt. Við umræður kom fram áhugi á að nota tímann meðan á óvissunni stendur til að styrkja aðferðafræðina enn frekar. Þá var talað um að halda áfram vinnu úr RÁ-3 við að rannsaka frekar áhrif virkjana. ÁLA bendir á nýlega skýrslu um Hellisheiðarvirkjun – sendir á faghóp og aðra fundarmenn. 
 2. HHS kynnti virkjunarkosti sem eru í biðflokki gildandi áætlunar og mögulegt er að rannsaka í sumar: Kljáfossvirkjun, Hverfisfljótsvirkjun, Haukholtsvirkjun, Vörðufellsvirkjun, Hestvirkjun og Selfossvirkjanir. Rætt um hvort skynsamlegt sé að fara í rannsóknir á þessum virkjunum eða nota tímann frekar í að þróa aðferðafræðina. GP taldi auðsýnt að vindgarðar muni koma til mats í RÁ-4 og rætt var um vinna þurfi sérstaklega í þeirri aðferðafræði, t.d. áhrif vindmylla á landslag. Skipulagsstofnun og fleiri eru að vinna í því líka. GP nefnir að fyrirhugað sé að hafa vinnufund í haust (líklega f.hl. október) fyrir vstj og faghópa um þróun á mati á vindgörðum. ÞÁ bendir á að engar grunnrannsóknir á landslagi og víðernum séu til hérlendis umfram þær sem RÁ hefur fjármagnað, þess vegna er mikilvægt að þeim rannsóknum sé haldið áfram. Þær rannsóknir hafi jafnframt gildi fyrir önnur stjórnsýsluverkefni, s.s. friðlýsingar á grundvelli landslags eða víðerna og skipulagsvinnu á miðhálendinu.
 3. HHS fór í gengum fyrirkomulag þóknana samkvæmt minnisblaði frá UAR 8/6/2018 (sent út með fundargögnum).   GP fór af fundi af afloknum umræðum um þennan þátt.
 4. Rannsóknir framundan: 
  1. ÞÁ kynni tillögur um þrjú verkefni sem hægt væri að vinna fram að áramótum;
   1. Ljúka rannsóknum er hófust í RÁ-3 á þróun aðferðafræði til að meta huglægt gildi landslags en engin viðurkennd aðferðafræði er fyrir hendi hér á landi. Fyrir liggja viðamikil gögn er safnað var 2015 en eftir er að ljúka úrvinnslu. Þessi rannsókn er að hluta til svar við gagnrýni á fyrri rammaáætlanir fyrir að taka ekki nægjanlegt tillit til huglægra þátta landslags í matsferlinu.
   2. Framhald af kortlagningarvinnu á víðernum á Íslandi þar sem prófaðar eru og bornar saman mismunandi aðferðir við mat á víðernum: mat utan frá (hefðbundið) þar sem f.o.fr. er byggt á að meta hvar áhrif mannvirkja á víðerni stoppa; og ný nálgun sem byggir á því að meta víðernin innanfrá (hvernig er náttúran sjálf, hvaða ferlar eru í gangi, og hvernig upplifum við víðernin). Þessi vinna er líka mikilvæg varðandi t.d. friðlýsingu víðerna skv. nýju náttúruverndarlögunum.
   3. Fornleifafræði; byggir á korti á öllum þekktum menningarminjum á miðhálendinu sem gert var í framhaldi af verkefni sem hófst í RÁ-3. Birna Lárusdóttir var byrjuð á að rannsaka þessar minjar m.t.t. hlutverks þeirra og sambands við landslag og víðerni; mikilvægt að klára m.a. vegna kortlagningar á víðernum.
  2. Fundarmenn tóku vel í þessar rannsóknarhugmyndir en ákveðið var að gefa fjarverandi faghópsmeðlimum tækifæri til að kynna sér þær og segja álit sitt á þeim. (Eftir fundinn fól ÁLA ÞÁ að taka saman stutt yfirlit og kostnaðaráætlun fyrir hvert verkefni til að senda á faghópinn).
  3. SUP lagði áherslu á að halda þyrfti áfram að skoða áhrifamat virkjana. 
  4. TGG stakk upp á vinnufundi í haust til að ræða gæði gagna og fleiri aðkallandi mál.
 5. Rætt um að hafa næsta fund faghópsins í byrjun ágúst. ÁLA sendir út Doodl til að kanna mögulega fundartíma.