13. fundur faghóps 1, 2.12.2019

Fundarfrásögn

Faghópur 1 

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

13. fundur, 2. desember 2019 kl. 10:30 

Fjarfundur, Teams

FUNDARGERÐ

Mætt: Jón S. Ólafsson (JSÓ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Þorvarður Árnason (ÞÁ), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Ása L. Aradóttir (ÁLA) er ritaði fundargerð. Kristján Jónasson tilkynnti forföll.

Dagskrá:

 1. Meðferð vindorkukosta í verndar- og orkunýtingaráætlun.

Eins og kom fram á síðasta fundi hefur verið settur á fót starfshópur þriggja ráðuneyta um tillögur að meðhöndlun vindorkukosta í rammaáætlun. Af því tilefni var rætt um aðferðafræði við mat á vindorkukostum með hliðsjón af þeim viðföngum sem faghópur 1 metur og teknir saman nokkrir áherslupunktar sem sendir verða á formann verkefnisstjórnar.

 1. Rædd voru önnur drög að skriflegum viðbrögðum faghóps við spurningum og athugasemdum haghafa. ÁLA vinnur skjalið áfram með hliðsjón af ábendingum er komu fram á fundinum og sendir næstu útgáfu til faghópsins öðru hvoru megin við næstu helgi.

 1. Rannsóknir og önnur verkefni framundan

 • Á næstu mánuðum, þegar skýrist hvaða virkjunarkostir verða til umfjöllunar í fjórða áfanga RÁ, verður væntanlega mest áhersla á öflun og úrvinnslu gagna er snúa að þeim svæðum. Ákveðið að JSO, TGG og ÁLA, ásamt KJ, óski eftir fundi með sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar fljótlega um gögn fyrir mismunandi viðföng lífvera, vistgerða og jarðfræði.

 • Jafnframt er mikilvægt að halda áfram vinnu við að taka saman og vinna frekar úr gögnum sem þegar eru til staðar, þannig að þau nýtist betur við mat á einstökum viðföngum, svo sem fuglum.

 • Í framhaldi af þróunarvinnu við að meta sýnileika vindorkukosta væri æskilegt að vinna „pilot“ verkefni um mat á sýnileika jarðvarmavirkjana og bera saman við niðurstöður viðnámsmælinga sem notaðar hafa verið til að skilgreina áhrifasvæðin.

 1. Önnur mál

 • Faghópurinn telur æskilegt að halda áfram samráði og samtali faghópa frá fundi fulltrúa faghópa 1-3 og formanni verkefnisstjórnar í febrúar 2019. Viðfangsefni slíks samráðs væri einkum aðferðafræðilegir og praktískir snertifletir, til dæmis við mat á vindorku og mögulega samnýtingu á gögnum og starfskröftum. ÁLA falið að fylgja málinu eftir við formenn annarra faghópa og formann verkefnisstjórnar.

 • Rætt um möguleika á að halda opinn fund í febrúar, þar sem kynntar verða niðurstöður rannsókna á vegum faghópsins.

Næsti fundur faghópsins ákveðinn um miðjan desember þar sem meðal annars verða kynnt GIS gögn sem David Ostman hefur tekið saman vegna rannsókna á náttúrlegum einkennum víðerna, svo og vegna landslagsrannsókna. Þar mun David einnig kynna nýtt landhæðarlíkan fyrir Ísland (ArcticDEM) sem bráðum verður hægt að taka í notkun.

Fundi slitið kl. 12:25.

Punktar um vindorkuver

Í tilefni af því að settur hefur verið á fót starfshópur þriggja ráðuneyta um tillögur að meðhöndlun vindorkukosta í rammaáætlun, ræddi faghópur 1 á fundi 2. des. 2019 um aðferðafræði við mat á vindorkukostum. Hér á eftir eru nokkrir áherslupunktar er snúa að þeim viðföngum sem faghópurinn metur:

 • Áhrif á landslag eða sýnileiki er ráðandi þáttur í áhrifum vindorkuvera og sá þáttur sem nær alla jafna lengst frá þeim. Áhrifin eru þó mismikil eftir fjarlægð. Mikilvægt er að nýta niðurstöður úr yfirstandandi rannsóknum og þróunarvinnu á sýnileika vindorkuvera við afmörkun matssvæða.

 • Áhrif á fugla eru ekki aðeins vegna árekstra og truflunar á farleiðum, heldur eru sterk fælingaráhrif af vindmyllum á varp fugla. Vindorkuver geta því haft umtalsverð neikvæð áhrif á stærð og þéttleika fuglastofna. Æskilegt er að láglendissvæði með háum þéttleika fugla verði undanskilin nýtingarsvæðum fyrir vindorku. Gera má ráð fyrir að áhrif af vindorkuverum verði sérstaklega mikil í dölum þar sem pláss fyrir farleiðir er takmarkað og fuglar eiga erfiðara með að forðast vindmyllurnar.

 • Áhrif vindorkuvera á menningarminjar, jarðminjar, vistkerfi og aðrar lífverur en fugla eru, eðli málsins samkvæmt, mest á mannvirkjasvæðunum sjálfum. Mannvirki og annað rask geta hins vegar rýrt heildir og samfellu menningarminja, jarðminja, vistkerfa og lífverustofna, talsvert út fyrir mannvirkjasvæðin.

 • Almennt má gera ráð fyrir að áhrif vindorkuvera á náttúrufar og menningarminjar verði meiri eftir því sem mannvirkin (vindmyllurnar) eru dreifð yfir stærra svæði.

Mikilvægt er að vindorkukostir séu metnir miðað við fulla útfærslu en ekki í smærri bútum sem byrja jafnvel á tilraunavindmyllum.