12. fundur faghóps 1, 13.11.2019

Fundarfrásögn

Faghópur 1

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

12. fundur 13. nóvember. 2019 kl. 10:30

Fjarfundur, Teams ( og zoom að hluta)

FUNDARGERÐ

Mætt: Tómas Grétar Gunnarsson (TGG), Kristján Jónasson (KJ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Þorvarður Árnason (ÞÁ), Jón S. Ólafsson (JSÓ) og Ása L. Aradóttir (ÁLA) er ritaði fundargerð. Guðrún Pétursdóttir (GP) formaður verkefnisstjórnar 4-RÁ kom inn á fundinn milli kl. 11:00 og 11:50.

Dagskrá:

1. Ýmis mál er snúa að starfi faghóps

  • Þetta er fyrsti fundur faghópsins sem haldinn er með Teams hugbúnaðinum. Gæði á mynd og hljóði voru góð og almennt reyndist búnaðurinn vel fyrir utan það að einn fundarmaður komst ekki inn á fundinn vegna „eldveggja.“ Hann þurfti því að tengjast í gegnum Zoom. Vonandi næst að leysa þessi mál fyrir næsta fund.

  • Rætt um leiðir til að leysa vinnuþörf vegna almennrar GIS vinnslu, ýmsa gagnagrunnsvinnslu og utanumhald þegar matsvinnan hefst.

2. Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar kom inn á fundinn til að ræða matsferlið framundan og aðra þætti er snúa að starfi rammaáætlunar og faghópsins.

  • Nýir orkukostir koma til umfjöllunar í vetur og vor. Mikilvægt er að hefja vinnu við matið eins fljótt og hægt er, og nýta tímann vel. Eitt af því sem faghóparnir geta byrjað á er að skoða hvaða gögn eru til staðar fyrir þau svæði sem líklegt er að verði til umfjöllunar, sbr. svæði undir vindorkuver á Vesturlandi sem skoðuð voru í vettvangsferð verkefnisstjórnar, faghópa og hagsmunaaðila sl. sumar.

  • Faghópurinn kynnti fyrir GP hvaða sérfræðiþekkingu þau telja einkum að þurfi til að styrkja matsvinnuna. Þetta er hægt að nálgast bæði með því að stækka faghópinn (sem er ekki fullskipaður) og/eða með því að sækja til utanaðkomandi sérfræðinga um ákveðna þætti. Getur farið eftir aðstæðum hvor leiðin er heppilegri. Tekið verður á þessu þegar matsvinnan hefst og fyrir liggur hvaða virkjunarkostir verða til umfjöllunar.

  • GP sagði frá þróun mála varðandi viðfangsefni vindorku. Skipaður hefur verið starfshópur þriggja ráðuneyta um tillögur að meðhöndlun vindorkukosta í rammaáætlun. Hlutverk starfshópsins er meðal annars að útfæra og leggja fram tillögur að aðferðafræði, málsmeðferð og leyfisveitingarferli vindorkukosta innan rammaáætlunar. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir árslok þannig að hægt verði að leggja breytingar á lögum, ef með þarf, fram á vorþingi. Gert er ráð fyrir að faghópar hefji mat á vindorkukostum sem lagðir verða fram í 4. áfanga RÁ samkvæmt núverandi aðferðafræði, þangað til komin er niðurstaða í þetta mál.

  • GP greindi frá stöðu vinnu sem verkefnisstjórn RÁ hefur verið falið í tengslum við mörk svæða sem friðlýst eru á grundvelli flokkunar í verndarflokk.

  • Ræddar voru rannsóknir og rannsóknaþörf á næsta ári, sem munu væntanlega snúa f.o.fr. að þeim orkukostum sem verða til umfjöllunar. Einnig var rætt um mögulegt áframhald vinnu við að taka saman og bæta aðgengi að gögnum sem eru þegar til staðar, þannig að þau nýtist betur við mat á einstökum viðföngum (á einkum við um viðfangið lífverur).

3. Rædd fyrstu drög að skriflegum viðbrögðum faghóps við spurningum og athugasemdum haghafa.

Ekki voru tekin fyrir fleiri mál. Ákveðið var að halda næsta fund faghópsins seint í nóvember eða byrjun desember.

Fundi slitið kl. 12:15.