1. fundur faghóps 1, 07.06.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 1 

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

1. fundur 7. júní 2018 kl. 10-11

Fjarfundur (Zoom)

 

Mætt: Ása L. Aradóttir (ÁLA) formaður, Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristján Jónasson (KJ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Þorvarður Árnason (ÞÁ)

Fundarritari: ÁLA

 

 1. Fundur settur kl. 10.
 2. Meðlimir faghópsins kynntu sig, gerðu grein fyrir sérsviðum sínum og fyrri aðkomu að rammaáætlun eftir því sem við átti.
 3. Staðan í RÁ-4 og virkjunarkostir til skoðunar 2018: ÁLA fór stuttlega yfir stöðuna í RÁ-4 og virkjunarkosti sem verkefnisstjórn leggur áherslu á að skoða til að byrja með. Listi yfir mögulega virkjunarkosti úr biðflokki RÁ-2 sem ekki var fjallað um í RÁ-3 var sendur út fyrir fundinn en faghópnum verður gert viðvart þegar ákvörðun liggur fyrir um hvaða virkjunarkosti eigi að skoða.
 4. Staða þekkingar fyrir ofangreinda virkjunarkosti og möguleg gagnaöflun í ár: Fundarmenn fóru stuttlega yfir stöðu þekkingar á sínum sérsviðum varðandi virkjanakosti sem eru á ofangreindum lista. Staðan er nokkuð góð fyrir sum viðföng sem faghópur 1 metur á meðan upplýsingar fyrir önnur viðföng eru takmarkaðar. Ljóst er að ekki er mögulegt að fylla í allar þekkingargloppur með rannsóknum í sumar; bæði vegna takmarkaðs tíma og aðgengis að mannskap. Þá er of langt liðið á sumarið til að ná marktækum gögnum um mikilvæga þætti, eins og t.d. um fugla. Einnig var rætt um almennar rannsóknir sem styðja við vinnu faghópsins. Dæmi um slík verkefni er að ljúka landslagsrannsóknum er hófust í RÁ-3 og áframhaldandi þróunarvinna um mat á víðernum.
 5. Vinnulag faghóps 1 og starfið fram undan: 
  • Faghópurinn mun nota netfundi eftir því sem kostur er, einkum fyrir styttri fundi, en hittast á lengri vinnufundum. Faghópsmeðlimir voru hvattir til að mæta í ferðir með stjórn Rammaáætlunar í ágúst. Þar sem ÞÁ er erlendis í allt sumar og kemst ekki með í ferðirnar bað hann um að sérfræðingi á sviði landslags yrði boðið með í hans stað.
  • Undir þessum lið var minnst á nokkur atriði sem kom í ljós við lok vinnunar í RÁ-3 að þyrfti að skoða betur, bæði varðandi vinnulag en einnig áhrif þátta eins og t.d. rasks. Einnig voru rædd þau fagsvið sem þarf að styrkja þegar faghópurinn er fullskipaður og var í því sambandi einkum minnst á fornleifafræði, ákveðin undirsvið jarðfræðinnar og landslag.
  • Að lokum var rætt um nauðsyn meiri samskipta og upplýsingaflæðis á milli mismunandi faghópa rammaáætlunar, enda eru mikilvægir snertifletir á milli faghópanna.
Fundi var slitið kl. 11.