Fréttasafn

Gagnabrunnur rammaáætlunar opnaður

8.5.2015

Mikið magn gagna fylgir starfi við rammaáætlun. Annars vegar er um að ræða gögn um svæðin og virkjunarhugmyndirnar sem eru til skoðunar - þar er gerð grein fyrir náttúrufari og landnýtingu á svæðunum og útfærslu virkjunarkostanna. Hins vegar er um að ræða gögn sem verða til í starfi faghópa og verkefnisstjórnar, t.d. kynningar á aðferðafræði, röksemdir fyrir mati og niðurstöðuskýrslur.  

Nú hafa þessi gögn verið skrá í nýjan gagnabrunn rammaáætlunar, frá og með 2. áfanga. Í flestum tilfellum er hægt að nálgast gögnin rafrænt með hlekkjum sem gefnir eru upp í brunninum. Í þeim tilfellum þegar gögnin eru ekki til á rafrænu formi eru veittar leiðbeiningar um hvar og hvernig sé hægt að nálgast þau.  Enn er unnið að skráningu gagna úr 2. áfanga í brunninn og nýjum gögnum verður bætt í brunninn eftir því sem við á.

Gagnabrunnurinn mun fyrst og fremst gagnast meðlimum í faghópum og verkefnisstjórn rammaáætlunar í störfum sínum. Vonir standa hins vegar einnig til að gagnabrunnurinn, sem er hýstur á vefsvæði rammaáætlunar og öllum opinn til leitar, muni auðvelda aðkomu almennings að rammaáætlun til mikilla muna.