Fréttasafn

Faghópur um hagræna þætti stofnaður

12.10.2015

Í dag, 12. október, skipaði verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar faghóp um hagræna þætti. Í lögum um rammaáætlun segir að markmið laganna sé „að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“ Í samræmi við þessi markmið hefur verkefnisstjórn skipað faghópa til að skoða virkjunarkosti og landsvæði út frá þeim þáttum sem taldir eru upp hér að ofan. Faghópur 1 fjallar um verndargildi náttúru og menningarsögulegra minja, faghópur 2 fjallar um ferðamennsku og aðra nýtingu og faghópur 3 fjallar um samfélagsleg áhrif virkjana.

Hinn nýskipaði  faghópur 4 mun fjalla um hagræna þætti. Skv. skipunarbréfi hópsins er verkefni hans að: „…fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta eða hópa virkjunarkosta á þjóðarhag.“  Líkt og faghópur 3, sem nýverið tók til starfa, mun faghópur 4 þurfa að skilgreina verksvið sitt og aðferðafræði, þar sem sambærilegum faghópum tókst ekki með fullnægjandi hætti að gera það í 2. áfanga.

 Rétt er að benda á að verksvið faghópa 3 og 4 í 3. áfanga rammaáætlunar eru ekki alveg sambærileg við verksvið faghópa 3 og 4 í 2. áfanga.  Hvað hinn nýja faghóp 4 snertir er meginbreytingin sú að mat á líklegum orkukostnaði einstakra virkjunarkosta og forgangsröðun þeirra eftir hagkvæmni, sem féll í hlut faghóps 4 í 2. áfanga, var unnið af Orkustofnun í 3. áfanga. Orkustofnun hefur lokið verkinu og birt niðurstöður í skýrslu sem afhent var verkefnisstjórn 21. ágúst 2015.

Hvað faghóp 3 snertir sinnti sá hópur í tíð 2. áfanga umfjöllun um áhrif virkjunarkosta á þjóðfélagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun. Núverandi faghópur 3 hefur nokkuð aðrar áherslur og munu faghópar 3 og 4 hafa virkt samráð til að forðast óþarfa skörun í viðfangsefnum faghópanna.

Formaður faghópsins er Dr. Daði Már Kristófersson, hagfræðingur og forseti Félagsvísindasviðs HÍ. Aðrir meðlimir faghópsins eru Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ og Dr. Sigurður Jóhannesson, sérfræðingur í alþjóðahagfræði við HÍ.