57. fundur, 19.01.2016

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

57. fundur, 19.01.2016, 13:00-17:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Ragnhildur G. Finnbjörnsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við HÍ, flutti erindi í upphafi fundar. Hún yfirgaf fundinn kl. 14:20.

  1. Fundur settur kl. 13:15.
  2. Áhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti á lýðheilsu: Ragnhildur Finnbjörnsdóttir, sem hefur rannsakað áhrif brennisteinsvetnis á lýðheilsu, kom á fund verkefnisstjórnar og flutti erindi um rannsóknir sínar.
  3. Breytingar á tilhögun virkjunarkosta: Kynnt var erindi Orkustofnunar, dags. 12. nóvember, um breytingar á nokkrum virkjunarkostum á Hengilsvæðinu. Erindinu hafði verið komið á framfæri við faghópa 17. nóv. til að tryggja að hóparnir gætu tekið mið af efni þess í störfum sínum. 
    • Um er að ræða breytingar á eftirtöldum virkjunarkostum: R3269A Meitillinn, R3270A Gráuhnúkar, R3271A Hverahlíð, R3271B Hverahlíð II. 
    • Í bréfi Orkustofnunar kemur fram að þann 2. nóv. 2015 hafi stofnunin gefið út nýtingarleyfi á jarðhita frá Gráuhnúkum R3270A og Hverahlíð 3271A og því falli þessir virkjunarkostir ekki lengur undir 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Virkjunarkostirnir voru báðir í orkunýtingarflokki í 2. áfanga og með útgáfu nýtingarleyfis lýkur því umfjöllun um þessa kosti í rammaáætlun.
    • Í bréfi Orkustofnunar kemur einnig fram að Orka náttúrunnar hafi uppfært gögn um virkjunarkostinn R3269A Meitilinn og lagt fram nýja tilhögun fyrir virkjunarkostinn R3271B Hverahlíð II. Verkefnisstjórn hefur áður, í ljósi forsögu málsins, lýst sig reiðubúna að taka þetta svæði til umfjöllunar sem nýjan virkjunarkost ef eftir því yrði leitað.
    • Hvað virkjunarkostinn R3269 Meitilinn varðar, snýst fyrrnefnd uppfærsla gagna um skilgreiningu hugtakanna nýtingarsvæði og framkvæmdasvæði. Verkefnisstjórn samþykkti 1. okt. sl.  að Meitillinn verði flokkaður í orkunýtingarflokk í endanlegri tillögu verkefnisstjórnar til ráðherra, enda hefðu forsendur ekki breyst þannig að það gæti leitt til annarrar niðurstöðu. Ekki verður séð að breytt skilgreining svæðahugtaka kalli á endurskoðun þeirrar samþykktar.
  4. Starfsreglur: Undanfarnar vikur hafa starfsreglur verkefnisstjórnar verið í endurskoðun. Breytingatillögur umhverfis- og auðlindaráðuneytisins voru kynntar fyrir verkefnisstjórn þann 11. janúar sl. og var umsögn verkefnisstjórnar afgreidd í tölvupósti og send til ráðuneytisins 15. janúar skv. beiðni þar um.
  5. Minnisblað um biðflokk: Að beiðni formanns verkefnisstjórnar hefur Áslaug Árnadóttir hdl tekið saman minnisblað um heimild verkefnisstjórnar til að flokka í biðflokk virkjunarkosti sem nægar upplýsingar liggja fyrir um að mati faghópa. Meginniðurstaða minnisblaðsins er sú að telja verði „slíka flokkun heimila annars vegar ef talið verður að það þurfi að útfæra virkjunarkostinn betur eða afla enn frekari upplýsinga um hann og hins vegar ef talið er, með tilliti til almannahagsmuna, að rétt sé að bíða með ákvörðun um virkjunarsvæði um sinn“.
  6. Aðferðafræði við lokafrágang: Málið var rætt í framhaldi af umræðu þriggja síðustu funda. Rætt var um kosti þess og galla að notast við annars vegar klasagreiningu (e. cluster analysis) til að kanna hvort einstakir virkjunarkostir skeri sig mjög úr fjöldanum hvað varðar dreifingu einkunna fyrir einstök viðföng og hins vegar að faghópar vinni lokaröðun virkjunarkosta í tveimur þrepum í nokkurs konar ítrun.  Samþykkt var að fresta ákvörðun um þessi atriði til næsta fundar.
  7. Kaflaskipting lokaskýrslu: Formaður kynnti fyrstu drög að kaflaskiptingu lokaskýrslu 3. áfanga.
  8. Umhverfismat virkjana <10 MW: Í framhaldi af umræðum innan verkefnisstjórnar og kynningu Magnúsar Jóhannssonar á 56. fundi verkefnisstjórnarinnar á skýrslu Veiðimálastofnunar um smávirkjanir og áhrif þeirra á lífríki í vatni hafði formaður tekið saman minnisblað um vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl 0,20-9,99 MW sem tilkynntar hafa verið til Skipulagsstofnunar vegna ákvörðunar um matsskyldu. Minnisblaðið var lagt fram á fundinum.
  9. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir nr. 18-25 frá faghópi 2 og fundargerð nr. 12 frá faghópi 1 voru lagðar fram á fundinum.
  10. Önnur mál: Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn.
  11. Fundi slitið kl. 16:31.

 

Herdís H. Schopka