1. áfangi rammaáætlunar

1999-2003

Maður - nýting - náttúra

Samþykkt ríkisstjórnarinnar frá árinu 1997 komst til framkvæmda á árinu 1999 en í mars það ár kynnti hún framkvæmdaáætlun undir kjörorðinu „Maður - nýting - náttúra; Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma“. Þar sagði m.a.:

Markmið Rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfar þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Markmið rammaáætlunar var þannig að meta helstu virkjunarkosti samtímis og fjalla um áhrif þeirra á náttúru og minjar, umhverfi, hlunnindi og þróun byggðar áður en einstakir virkjunarkostir kæmust á undirbúningsstig, þ.e. áður en of miklu væri til kostað og á meðan nægur tími væri til að velja á milli hugmynda. Slíkt frummat á umhverfisáhrifum myndi aðstoða orkufyrirtæki við að velja virkjunarkosti og væri vegvísir um hönnun er sneiddi hjá skaðlegum umhverfisáhrifum og lágmarkaði fórnarkostnað. Einnig gæti slíkt mat leitt í ljós hvar verndargildi væri svo mikið að stjórnvöld vildu vernda einstök landsvæði með lögum. Loks myndi matið gagnast skipulagsyfirvöldum við að skipuleggja landnotkun.

Þessar hugmyndir fólu ávallt í sér að frummat sem þetta kæmi aldrei í stað ítarlegra mats sem lög um umhverfisáhrif kveða á um. Frummatið ætti aftur á móti að draga úr líkum þess að hið endanlega mat komi í veg fyrir virkjunaráform. Því væri frummatið til þess fallið að minnka áhættu og kostnað orkufyrirtækja á undirbúningsstigi.

Ríkisstjórnin ýtti rammaáætlun úr vör vorið 1999. Auk markmiða áætlunarinnar voru línur lagðar um skipulag starfsins. Í verkefnisstjórn voru skipaðir 11 manns, auk formanns, Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands. Undir verkefnisstjórninni voru skilgreindir fjórir faghópar en formenn þeirra tóku einnig sæti í verkefnisstjórn.

Rammaáætlun kemst á skrið

Upphaflegt markmið framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar 1997 var að rammaáætlun yrði lokið fyrir árið 2000 en sú ætlan náði ekki fram að ganga, m.a. vegna þess að verkið hófst ekki fyrr en vorið 1999. Fyrsti hluti áætlunarinnar spannaði árin 1999-2003 og lauk honum með skýrslu er tók til 19 virkjunarkosta  í 10 jökulám og 24 virkjunarkosta á 11 háhitasvæðum. Hins vegar var ljóst að viðameiri rannsókna var þörf og bæta þurfti þekkingargrunn og matsaðferðir til að hægt væri að leiða áætlunina til lykta.