Innsend umsögn

Nafn: Ólafur Björnsson hrl
Númer umsagnar: 44
Landsvæði: Suðurland - Farið við Hagavatn (Vatnasvið)
Virkjunarhugmynd: Hagavatnsvirkjun (39)
Umsögn: Umsögn
landeigenda Úthlíðartorfu, Bláskógabyggð vegna fyrirhugaðrar Hagavatnsvirkjunar.

Til margra ára hefur það verið mikið hagsmunamál hjá landeigendum Úthlíðartorfu, í Biskupstungum, nú innan sveitarfélagsins Bláskógabyggðar, að endurheimta fyrri hámarksstærð Hagavatns með stíflugerð til að hefta sandfok og endurheimta gróðurþekju á nærliggjandi svæðum. Samhliða því hafa landeigendur haft hug á því að nýta þá framkvæmd og vatn Hagavatns til orkuframleiðslu með það að markmiði að auka hagkvæmni þeirrar framkvæmdar.
Landgræðsla ríkisins hefur einnig verið áhugasöm um þetta verkefni og unnið að rannsóknum þar að lútandi.
Landeigendur gerðu árið 2007 samning við Orkuveitu Reykjavíkur, Landgræðsluna og Bláskógabyggð, um uppbyggingu á svæðinu, en OR var handhafi rannsóknarleyfis á mögulegri nýtingu Hagavatns og Farsins til raforkuframleiðslu frá 2006. Í samningi þessum lýstu þessir aðilar því yfir að þeir myndu hafa samstarf og samráð um könnun þess möguleika að endurheimta fyrri hámarksstærð Hagavatns.
Landeigendur Úthlíðartorfunnar lýstu þar yfir að þeir myndu standa að verkefninu m.a. með sölu/leigu á landi og/eða vatnsréttindum til virkjanaaðila. Nú liggur fyrir leigusamningur milli landeigenda og virkjanaaðila um land og vatnsréttindi á svæðinu.
Stefnt var að því að í ársbyrjun 2008 myndi liggja fyrir mat á hagkvæmni hugsanlegra framkvæmda. Aðilar voru sammála um að leiddu niðurstöður mats til þess að frekari rannsókna yrði þörf, myndu aðilar ákveða tilhögun áframhaldandi samstarfs og samráðs. Nú hefir Hlutafélagið Íslensk Vatnsorka ehf., kt. 410908-0930, Suðurlandsbraut 52, 108 Reykjavík gengið til liðs við verkefnið með samningum við Landeigendur og Orkuveitu Reykjavíkur.
Hið mikla jarðvegsfok frá svæðinu ætti flestum að vera alkunna, en oft á tíðum er þetta einna stærsti valdur að svifryksmengun á suðvesturhluta landsins, s.s. í Reykjavík. Því til stuðnings eru til margar loftmyndir.
Með tilliti til allra þeirra rannsókna sem hafa átt sér stað um umhverfisþætti svæðisins, eru landeigendur algerlega ósammála þeim rökstuðningi sem fram kemur í tillögu um þingsályktun, það sem lýtur að Hagavatnsvirkjun.
Fyrir liggja í dag hugmyndir um virkjun Hagavatns, sem hefur tekið umtalsverðum breytingum frá fyrri hugmyndum. Um er að ræða mun umhverfisvænni útfærslu. Virkjunin verði m.a. útfærð sem rennslisvirkjun sem mun tryggja mun stöðugra vatnsyfirborð ofan stíflu. Rafmagnstengingar verði að mestu leyti í jarðstrengjum. Vegslóðar og reiðleiðir verði samræmdar til að stemma stigu við utanvegaakstur m.a. við Jarlhettur.
Við framkvæmd virkjunarinnar opnast ýmsir möguleika á frekari tengingu við starfsemi ferðaþjónustu á svæðinu, en í Úthlíð er rekinn umfangsmikil ferðaþjónusta.
Landeigendur leggja áherslu á, að með þessari framkvæmd er verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, hefta jarðvegsfok, auka möguleika á landgræðslu og bæta lífsgæði íbúa á áhrifasvæði uppfoksins. Þá telja landeigendur að framkvæmdin sé jákvæði fyrir ferðaþjónusu á svæðinu.
Landeigendur Úthlíðartorfu fara þess eindregið á leit við iðnaðarráðuneytið og frummælendur fyrirliggjandi þingsályktunartillögu að Hagavatnsvirkjun verði færð til um flokk, þ.e. úr biðflokki í orkuvinnsluflokk. Önnur niðurstaða yrði óásættanleg skerðing á eignarréttindum landeigenda, og áskilja landeigendur sér allan rétt í því sambandi.
Landeigendur telja að mikill stuðningur sé við verkefnið í heimabyggð og benda á að ársþing SASS, haldið í Vík 28. og 29. október 2011 ályktaði um stuðning við hugmyndir um að vatnsyfirborð Hagavatns verði fært til upprunalegs horfs með stíflu í Farinu.
Selfossi 7. nóv. 2011.
f.h. landeigenda Úthlíðartorfu

________________________
Ólafur Björnsson hrl
Fylgigögn: