Vettvangsferð verkefnisstjórnar 3. áfanga, 8.-10. júlí 2013

Skýrsla

Inngangur

Í byrjun sumars 2013 fól umhverfisráðherra verkefnisstjórn 3. áfanga Rammaáætlunar að setja vinnu við mat og röðun á átta af þeim 30 virkjunarhugmyndum sem eru í biðflokki í forgang og skila tillögum að flokkun snemma árs 2014. Verkefnisstjórn RÁ3 fór því í vettvangsferð 8.-10. júlí það sumar á slóðir þessara átta virkjanakosta. Þar er um að ræða eftirfarandi virkjanahugmyndir, allar á Suðurlandi eða sunnan vatnaskila á hálendinu:

Vatnsaflsvirkjanir
Vatnasvið Virkjunarkostur
Hólmsá 21 Hólmsárvirkjun neðri við Atley
Kaldakvísl 26 Skrokkölduvirkjun
Þjórsá 29 Hvammsvirkjun
Þjórsá 30 Holtavirkjun
Þjórsá 31 Urriðafossvirkjun
Farið við Hagavatn 39 Hagavatnsvirkjun
 
Jarðhitavirkjanir
Háhitasvæði Virkjunarkostur
Hágöngusvæði 91 Hágönguvirkjun, 1. áfangi
Hágöngusvæði 104 Hágönguvirkjun, 2. áfangi

Fyrri dag ferðarinnar voru allir núverandi meðlimir verkefnisstjórnarinnar með nema Ólafur Örn Haraldsson. Hann slóst í hópinn seinni daginn. Vert er að benda á að verkefnisstjórnin er ekki fullmönnuð þar sem fulltrúa vantar frá forsætisráðuneytinu (þ.e., því ráðuneyti sem fer með málefni menningarminja). Verkefnisstjórnin kynnti sér virkjunarhugmyndir í Skaftártungu og á Sprengisandi fyrri daginn og í neðri Þjórsá og við Hagavatn seinni daginn.

Leiðarlýsing

Mánudagur 8. júlí 2013

Lagt var af stað frá Reykjavík kl. 18:15 í 14 manna 4x4 rútu frá Teiti Jónassyni. Bílstjóri var Birgir Mikaelsson. Keyrt sem leið lá í gistingu á Þykkvabæjarklaustri. Komið í náttstað um kl. 23. Á Þykkvabæjarklaustri bættist í hópinn Helgi Jóhannesson frá Landsvirkjun, sem sagði hópnum frá fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum við Hólmsá.

Þriðjudagur 9. júlí 2013

Lagt var af stað kl. 7:40. Í Hrífunesi bættust í hópinn Árni Jón Elíasson frá Landsneti, sem fylgdi hópnum alla leið til Reykjavíkur, og Snorri Páll Snorrason frá verkfræðistofunni Verkís, sem leiðsagði hópinn ásamt Helga Jóhannessyni um áhrifasvæði fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda við Hólmsá.

Ekið var frá Hrífunesi um kl. 9 og farin Öldufellsleið sem leið lá að Hólmsárfossi og stoppað á nokkrum stöðum á leiðinni. Á leiðinni til baka upp á þjóðveg var farinn afleggjari að fyrirhuguðu stíflustæði þar sem gott útsýni er yfir fyrirhugað lónstæði og þá 44 hektara af birkikjarri sem munu fara undir lónið komi til framkvæmda. Að lokum var keyrt að Fauskalæk, þar sem frárennslisgöng virkjunarinnar munu enda og vatninu vera veitt í farveg Kúðafljóts. Þar skildu Helgi og Snorri við hópinn, um kl. 13:30.

Nú lá leiðin í Hálendismiðstöðina í Hrauneyjum, með stuttum stoppum á leiðinni til að fræðast um fyrirhugaðar línulagnir og virkjunarkostinn Búlandsvirkjun.  Í Hrauneyjum bættust tveir starfsmenn Landsvirkjunar, þeir Hákon Aðalsteinsson og Bjarni Pálsson, í hópinn til að kynna virkjunarhugmyndir við Skrokköldu og Hágöngur. Brunað var upp að Hágöngulóni eftir Sprengisandsleið, lónstæðið skoðað undir leiðsögn Hákons og Bjarna og svo keyrt aftur ofan í byggð eftir Kvíslaveituvegi. Á leiðinni var mikið rætt um fyrirhugaðar línulagnir yfir Sprengisand, staðsetningu línunnar og mögulega aðra valkosti. Í Hrauneyjum skildu Hákon og Bjarni við hópinn. Komið var í náttstað um kl. 21:30 í súldarrigningu sem hafði tekið við af sólinni sem annars hafði skinið á hópinn allan daginn.

Miðvikudagur 10. júlí 2013

Haldið var af stað um kl. 8:30 í fylgd Helga Bjarnasonar frá Landsvirkjun til að skoða fyrirhugaða virkjunarkosti í neðri Þjórsá, þ.e. Urriðafoss-, Holts- og Hvammsvirkjanir. Mikil þoka var og súldarrigning. Fyrst var væntanlegt stíflustæði  Urriðafossvirkjunar skoðað austan frá og svo ekið að Urriðafossi. Þar á eftir var ekið upp með Þjórsá og stíflustæði og lónstæði hinna virkjananna tveggja skoðuð svo sem auðið var, miðað við veður og útsýni. Helgi yfirgaf hópinn eftir þetta.

Ekið var að Gullfossi, þar sem bættust í hópinn fulltrúar Íslenskrar vatnsorku (ÍV), sem hyggja á virkjunarframkvæmdir við Hagavatn, þeir Eyþór Arnalds stjórnarformaður, Eiríkur Bragason framkvæmdastjóri og Ómar Örn Ingólfsson, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannvit. Ekið var í súld og þoku upp að skála Ferðafélags Íslands við Hagavatn og numið staðar við Jarlhettukvíslina því rútan komst ekki lengra. Eftir stutt stopp og kynningu á virkjunarhugmyndunum þarna á áraurunum létti nægilega til svo sjá mætti upp að fossinum sem myndar útfall Hagavatns, þar sem væntanleg stífla er fyrirhuguð. Svo var ekið til baka á Gullfoss og fulltrúar ÍV kvaddir. Ferðinni lauk svo um kl. 18 í Reykjavík.

Herdís H. Schopka