1. fundur faghóps 3, 17.08.2015
Fundargerð
Faghópur 3 um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta
í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
17. ágúst 2015
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1
Fundinn sátu: Jón Ásgeir Kalmansson, Magnfríður Júlíusdóttir og Páll Jakob Líndal. Ásgeir Brynjar Torfason var í símasambandi frá Svíþjóð. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir forfallaðist.
- Fundarmenn kynntu sig og gerðu stuttlega grein fyrir faglegum bakgrunni sínum.
- Jón fór yfir skipunarbréf faghópsins og viðfangsefni hans.
-
Fundarmenn ræddu um viðfangsefnið meðal annars frá sjónarhóli eigin fræðasviðis. Meðal atriða sem fram komu í umræðunni voru:
- Meta þarf bæði bein og óbein áhrif framkvæmdanna; meðal óbeinna áhrifa eru til dæmis áhrif á líðan fólks af því að vita af því að tiltekið svæði sé lagt undir virkjunarframkvæmdir hvort sem það þekkir svæðið eða ekki.
- Flokka þarf virkjunarkostina eftir því hvort þeir eru í byggð eða fjarri byggð.
- Það hvernig upplýsingar um virkjunarframkvæmdir eru settar fram getur haft áhrif.
- Ákvarða þarf hvaða ólíku hópar fólks eru skoðaðir þegar áhrifin eru metin. T.d. er mikilvægt að afstaða heimafólks sé tekin með í reikninginn. Umræða um kosti og vandkvæði við lýðræðislega ákvarðanatöku.
- Hafa þarf í huga hvernig virkjunarframkvæmdir hafa mjög ólík og mismikil áhrif á karla og konur á viðkomandi svæðum.
- Atriði til skoðunar er hvernig framkvæmdir geta vakið átök og óvissu í samfélögum, til dæmis varðandi ruðningsáhrif þegar stórir aðilar ryðja smærri fyrirtækjum í heimabyggð til hliðar.
- Ólík samfélagsleg áhrif mismunandi tegunda orkuframkvæmda; vatnsafl, vindorka, jarðvarmi.
- Athuga þarf að hve miklu leyti verkefni hópsins gæti skarast við vinnu hinna faghópanna.
- Ákveðið var að Jón athugaði fyrir næsta fund (a) hvaða rannsóknir eru í gangi hjá hinum faghópunum sem mögulega gætu skarast við vinnu hópsins og (b) leitaði eftir frekari upplýsingum um einstaka virkjunarkosti. Einnig munu meðlimir faghópsins kynna sér upplýsingar á heimasíðu Rammaáætlunar.
- Næsti fundur var áætlaður fimmtudaginn 3. september kl. 9 á sama stað, með fyrirvara um að allir geti mætt á þeim tíma.