9. fundur faghóps 1, 11.05.2015

Fundarfrásögn

Faghópur 1 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

9. fundur, 11.05.2015, 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Skúli Skúlason (SSk) formaður hópsins, Ása Lovísa Aradóttir (ÁLA), Birna Lárusdóttir (BL), Gísli Már Gíslason (GMG), Kristján Jónasson (KJ) (mætti kl. 11), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Sólveig K. Pétursdóttir (SKP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Þorvarður Árnason (ÞÁ). Þorvaldur Þórðarson (ÞÞ) tók þátt í fundinum símleiðis kl. 9-12.

Fundarritari: Herdís Helga Schopka.

  1. Fundur settur kl. 09:05.
  2. Gagnabrunnur rammaáætlunar: HHS sýndi vefviðmót gagnabrunns rammaáætlunar og útskýrði virknina.
  3. Umræður og tillögur um rannsóknir faghóps 1 fyrir 3. áfanga: SSk fór yfir tillögur um rannsóknir faghóps 1. Á miðvikudaginn munu Anna Dóra Sæþórsdóttir, Stefán Gíslason og SSk funda vegna rannsóknanna en þau mynda ákveðinn stýrihóp.
    1. SSk fjallaði um fjölbreytileikahugtakið í líffræði og jarðfræði. Þróun fjölbreytileikans, svipgerðir skipta meira máli fyrir fúnksjón lífvera í vistkerfi en arfgerð.
    2. TGG fjallaði um aðferðafræði fyrir rannsóknir á fuglum fyrir rammaáætlun. Fyrir rammann þarf gögn um tiltekna virkjunarkosti og samanburðargögn. Grunngögn fyrir þessa vinnu eru: Tegundafjölbreytni á grófum mælikvarða, vistgerðaflokkun og nýleg nemendaverkefni. Einnig er talsvert til af stopulum athugunum, t.d. vegna umhverfismats eða talningar á einstökum vötnum. Rætt var hvernig megi breyta þessum fræðilegu niðurstöðum í nothæfar upplýsingar fyrir rammann.
      1. Rannsóknir á fuglalífi – samantekt:
        1. Handavinnu þarf í að taka saman gögn til að bæta kortlagningu sem nýtist a.m.k. innan svæða.
        2. Liggur beint við að tengja slíkar þekjur við gróðurfar, landslag, jarðfræði o.fl. þætti.
        3. Væri hægt að fara út í greiningar (líkön um dreifingu t.d.) en meiri vinna.
        4. Væri gagnlegt að taka saman rannsóknir á stóra skalanum en eru fáar og líklega betra að gera yfir vítt svið fjölbreytni.
    3. ÁLA fjallaði um þá mælikvarða sem notaðir eru til að meta verðmæti gróðurs og fleiri þátta og hvaða gögn liggja þar að baki.
    4. KJ ræddi stöðu þekkingar á jarðfræðilegum fjölbreytileika á Íslandi. Ekki er til kort yfir landmótun eða bergtegundir á Íslandi í heild, nema af mjög afmörkuðum svæðum. Að hans mati er nauðsynlegt að koma á fót jarðminjaskrá hérlendis svo hægt sé að standa almennilega að verndun jarðfræðilegrar fjölbreytni og mati á verðmætum hennar. Mat á jarðminjum til verndar í dag byggist á þekkingu einstaka jarðfræðinga. Ákveðið var að KJ, ÞÞ og ÞÁ ræði frekar þessi mál, hvað varðar sérstöðu og fjölbreytni jarðminja og tengsl við landslag.
    5. BL fjallaði um stöðu þekkingar á menningarminjum og fjölbreytileikahugtakið. Vinna við fornminjaskráningu á Íslandi er stutt komin og mikil grunnvinna er enn óunnin. Talið er að búið sé að skrá um 30% af minjum á landinu. Vinnan hefur verið í gangi undanfarin 20 ár en hefur oftast verið illa fjármögnuð. Hvergi er til heildaryfirlit yfir allar fornminjar á landinu en slíkt er í vinnslu. Ekki er bein hefð fyrir að nota fjölbreytnihugtakið  í fornleifafræðinni. Löng búsetusaga gæti flokkast sem tegund fjölbreytni. Fjölbreyttar tegundir fornleifa (fjárhús, sel o.s.frv.) og klasar (bóndabýli, verbúð o.þ.h.) geta flokkast undir fjölbreytni en ekki er þó hægt að nota hugtakið „tegundir“ á sama hátt og t.d. í jarðfræði – býli frá 18. öld á Vestfjörðum er ekki sama og býli frá 18. öld á Austurlandi. Samantekt á fjölbreytileika fornminja er hugsanleg afurð vinnu framundan á vegum rammaáætlunar. Hvað áhrif virkjana á fornminjar snertir hefur nánast engin vöktun verið á þeim.
    6. SSk lagði til að skilgreind yrðu ítarlega markmið skoðunar á fjölbreytileika líffræði, jarðfræði, landslags, víðerna og menningarminja. Afurðin ætti að vera skynsamleg samantekt á þeim gögnum sem liggja fyrir um fjölbreytileika sem mun nýtast hópnum í samanburði og mati á viðfangsefnum sínum. Slík samantekt ætti einnig að  vera eldsneyti fyrir þverfaglegu nálgunina sem hópurinn stefnir að því að beita.
    7. Fjölbreytileika-undirhópur (ÞÁ, TGG, SKP, ÞÞ, SUP) mun funda kl. 10 á þriðjudaginn 19.5. Áhrifamatshópurinn (GMG, BL, ÁLA, KJ) mun funda kl. 8:30 á miðvikudaginn 13.5.
  4. ÞÁ minnti á að vindorka sé komin á borð faghópanna. Varðandi aðferðafræði við mat á þeim benti hann á að yfirstandandi COST-verkefnið RELY gæti verið faghópnum gagnlegt. Um er að ræða evrópskt verkefni um endurnýjanlega orkugjafa og landslag, fulltrúar Íslands eru Karl Benediktsson og Edda Waage.
  5. Rökstuðningur fyrir einkunnagjöf: Hópurinn fór yfir röksemdir fyrir einkunnagjöf fyrir einstaka viðmið. Rökstuðningur er ekki til fyrir hverja einkunn frá RÁ2 nema helst í tilfelli menningarminja. SSk lagði til að þetta yrði skoðað nánar á næstu fundum.
  6. Önnur mál: Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn.
  7. Fundi slitið kl. 12:00.

 

HHS