26. fundur verkefnisstjórnar, 24.01.2019

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

26. fundur 24.01.2019 10:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Guðrún Pétursdóttir (GP) formaður, Helgi Jóhannesson (HJ) (til 11:30), Herdís Helga Schopka (HHS), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) (á fjarfundi).

 1. Fundur settur kl. 10:00.
 2. Starf verkefnisstjórnar frá áramótum: GP fór yfir það sem hefur verið á döfinni hjá verkefnisstjórn að undanförnu:
  1. Málþing um vindorku 9. janúar 2019 tókst mjög vel og var afar vel sótt, auk þess sem um 600 manns fylgdust með streymi á netinu.
  2. Í kjölfar fundarins 9.janúar hafa aðilar sem koma að áformum um vindorkuver haft samband við GP og sveitarstjóri Dalabyggðar óskaði sérstaklega eftir fundi til segja frá umsóknum um vindorkuver þar og átta sig á aðkomu RÁ4 í því sambandi.  GP, MG, ÞEÞ og HHS hittu Kristján Sturluson sveitarstjóra, Hörð Hjartarson formann umhverfis- og skipulagsnefndar og Ragnheiði Pálsdóttur varaoddvita á fundi í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þann 22. janúar 2019.
  3. Fulltrúar verkefnisstjórnar (GP, MG og ÞEÞ) hittu umhverfis- og auðlindaráðherra og starfsfólk ráðuneytisins 23. janúar 2019. Á fundinum greindi verkefnisstjórnin frá því sem hún hefur hug á að vinna að á næstu mánuðum:  þróun aðferða við mat á vindorku og rannsóknir á samfélagslegum og hagrænum áhrifum virkjunarframkvæmda.
 3. Umræður um vinnu verkefnisstjórnar að þróun aðferðafræði við mat á vindorku.   Einhugur er um mikilvægi þess að geta nýtt tímann sem best, meðan beðið er afgreiðslu Alþingis á RÁ3 og nýrra orkukosta til mats. Verkefnisstjórn vill því fá að vinna að þróun aðferðafræði fyrir mat á vindorkuverum, sem allar líkur eru á að komi á hennar borð þegar nýir orkukostir verða lagði fyrir RÁ4. Svars ráðherra við því er að vænta.
 4. Umræður um framhald vinnu við þróun aðferðafræði um samfélagsleg áhrif virkjunarframkvæmda:
  1. Faghópur 3 hefur hafið undirbúning rannsóknarverkefna á samfélagslegum áhrifum virkjana sem þegar eru starfandi, skv ábendingum haghafa á fundum fyrir jól. Með því má greina hvaða þættir reynsla sýnir að skipti miklu fyrir samfélög. Það getur leiðbeint um rannsóknir á væntanlegum kostum, þegar þeir verða lagðir fyrir RÁ4. Til stendur að skoða áhrif Blönduvirkjunar og virkjana í Þingeyjarsýslum. Formaður kynnti drög að verk- og fjáhagsáætlun verkefnanna og samþykkir verkefnisstjórn þau.  Rætt að fleiri kostir gætu verið áhugaverðir í þessu sambandi t.d. á Reykjanesi.
  2. Sú hugmynd hefur komið fram að boða til málþings um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarframkvæmda, sambærilegt við málþingið um vindorku fyrr í mánuðinum. Verkefnisstjórn líst vel á það og ákveðið að miða við að slíkt málþing verði haldið í mars 2019.
 5. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:45.


HHS ritaði fundargerð.