Fréttasafn

Breytingar á virkjunarkostum til meðferðar í 3. áfanga rammaáætlunar

27.11.2015

Breytingar hafa orðið á virkjunarkostum Orku náttúrunnar (ON) sem eru til meðferðar í 3. áfanga rammaáætlunar.  Verkefnisstjórn barst erindi Orkustofnunar þessa efnis, dagsett 12. nóvember 2015

Í erindi til Orkustofnunar dagsett 10. nóvember 2015 benti ON á ýmsa vankanta á orðanotkun og skilgreiningum hugtaka í tengslum við ákveðna virkjunarkosti sem félagið hefur á sínum snærum. OR og ON uppfærðu í ljósi þessa afmarkanir svæða fyrir orkukostinn R3269B Meitillinn, auk þess að leggja til nýja tilhögun fyrir virkjunarkostinn R3271B Hverahlíð II í stað R3271A Hverahlíð. 

Nýtingarleyfi fyrir orkukostina R3270A Gráuhnúka og R3271A Hverahlíð, sem flokkaðir voru í orkunýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar, var gefið út af Orkustofnun þann 2. nóvember 2015. Þeir kostir falla því hvorugur lengur undir 3. áfanga rammaáætlunar og hafa verið teknir úr faglegri umfjöllun hjá faghópum.

Orkustofnun hefur þannig farið fram á að verkefnisstjórn taki uppfærð gögn um virkjunarkostina R3269B Meitillinn og R3271B Hverahlíð II til umfjöllunar í stað fyrri tilhögunar. Þá falla út virkjunarkostirnir R3270A Gráuhnúkar og R3271A Hverahlíð.

Í framhaldi þessara breytinga gaf Orkustofnun út endanlega útgáfu skýrslu sinnar um virkjunarkosti í 3. áfanga rammaáætlunar. Ekki er búist við að ráðast þurfi í frekari breytingar á skýrslunni.