Fréttasafn

Gagnaafhending vegna virkjunarkosta í 3. áfanga

22.1.2015

Í gær, 21. janúar 2015, fékk verkefnisstjórn rammaáætlunar formlega afhent drög Orkustofnunar að skilgreiningu á 50 virkjunarkostum af þeim 88 sem stofnunin mun væntanlega leggja fyrir verkefnisstjórn. Af þessum 50 virkjunarkostum hafa virkjunaraðilar óskað eftir umfjöllun um 25, en hinum 25 kostunum hefur Orkustofnun bætt á listann. Samtals er um að ræða 34 kosti í vatnsafli og 16 kosti í jarðvarma. 

Lista yfir þessa kosti er að finna á heimasíðu Orkustofnunar, svo og drög að skilgreiningu á þeim 50 kostum sem voru afhentir verkefnisstjórn í gær. Gögn fyrir þá 38 kosti sem eftir standa munu að öllum líkindum verða afhent í lok febrúar 2015. 

Verkefnisstjórn mun fjalla um listann á næsta fundi sínum 29. janúar nk. og í framhaldi af því munu faghópar hefjast handa við skoðun á einstökum virkjunarkostum. Stefnt er að því að verkefnisstjórn afhendi umhverfisráðherra tillögur sínar um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða á útmánuðum 2016 og að tillaga til þingsályktunar um nýja verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð fram á Alþingi veturinn 2016-2017.