Fréttasafn

Fyrra samráðsferli vegna tillagna verkefnisstjórnar um flokkun virkjunarkosta lokið

25.4.2016

Þann 31. mars sl. kynnti verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar drög sín að tillögu að flokkun virkjunarkosta á fundi í Hörpu. Þá hófst þriggja vikna samráðsferli þar sem verkefnisstjórn hélt fundi víðs vegar um landið og tók við umsögnum varðandi drögin. Þessu samráðsferli lauk miðvikudaginn 20. apríl sl.

Sérstakt svæði á vef rammaáætlunar var sett upp þar sem kynningargögn voru gerð aðgengileg og öllum gert kleift að senda inn umsagnir sínar rafrænt. Alls bárust 16 umsagnir frá 14 aðilum. Umsagnirnar má nálgast á áðurgreindu vefsvæði.

Nú mun verkefnisstjórn kynna sér efni umsagnanna og fullvinna skýrslu sína og tillögur um flokkun virkjunarkosta. Sú skýrsla mun liggja fyrir þann 11. maí nk. og hefst þá seinna samráðsferlið sem stendur í 12 vikur eða til 3. ágúst 2016. Meðan á því samráðsferli stendur mun öllum gefast kostur á að senda inn frekari umsagnir.