Niðurstöður 3. áfanga

Drög að lokaskýrslu kynnt 31. mars 2016

Þann 31. mars 2016, að afloknum kynningarfundi um drög að tillögu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar að flokkun virkjunarkosta, sendi verkefnisstjórnin frá sér fréttatilkynningu þar sem farið er yfir drögin. Ítarlegar upplýsingar og greinargerðir faghópa má finna í drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnar hér fyrir neðan. 

Dagana 31.3.2016-20.04.2016 verða drögin kynnt á opnum kynningarfundum og mun verkefnisstjórn hafa samráð við stofnanir, fyrirtæki, hagsmunaaðila og almenning. 

Hinn 11. maí 2016 mun verkefnisstjórnin leggja fram tillögu að flokkun virkjunarkosta og hefst þá almennt umsagnarferli sem mun standa í 12 vikur og lýkur 3. ágúst. Verkefnisstjórn mun þá fara gegnum innkomnar umsagnir og leggja endanlega tillögu að flokkun virkjunarkosta fyrir ráðherra þann 1. september 2016.


Endurskoðuð drög að lokaskýrslu kynnt 11. maí 2016

Verkefnisstjórn lagði þann 11. maí fram endurskoðaða lokaskýrslu þar sem gerðar eru tillögur um flokkun 26 virkjunarkosta og landsvæða.

Verkefnisstjórn leggur til að eftirfarandi kostir fari í orkunýtingarflokk:  Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Í verndarflokk fari fjögur svæði með eftirtöldum virkjunarkostum:  Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun) og Þjórsá vestur (Kjalölduveita). Í biðflokk fari tveir virkjunarkostir í Hólmsá (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun, Stóra-Laxá, Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun, Fremrinámar og Búrfellslundur.

Um leið og verkefnisstjórnin lagði fram tillögur sínar hófst lögbundið 12 vikna umsagnarferli þar sem almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Umsagnarferlið stendur dagana 11. maí – 3. ágúst 2016.

Í umsagnarferlinu er jafnframt kallað eftir umsögnum um umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 106/2005 um umhverfismat áætlana, en umhverfisskýrslan er hluti af skýrslu verkefnisstjórnar.


Lokaskýrsla verkefnisstjórnar afhent ráðherra 26. september 2016

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar afhenti umhverfis- og auðlindaráðherra tillögur sínar að flokkun virkjunarkosta þann 26. september 2016. Tillögurnar voru afhentar ráðherra við athöfn í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Verkefnisstjórn lagði til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk áætlunarinnar, þ.e. Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Um er að ræða fjórar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl upp á alls 277 MW, þrjár jarðhitavirkjanir með uppsett afl allt að 280 MW og einn vindlund með uppsett afl allt að 100 MW. Ekki voru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í orkunýtingarflokki en þeir eru alls tíu talsins. Samtals var því lagt til að átján virkjunarkostir verði flokkaðir í orkunýtingarflokk og hafa þeir samtals 1421 MW uppsett afl. 

Í verndarflokk bættust við fjögur landsvæði með tíu virkjunarkostum, þ.e. Skatastaðavirkjunum C og D, Villinganesvirkjun, Blöndu – veitu úr Vestari Jökulsá, Fljótshnjúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjunum A, B og C, Búlandsvirkjun og Kjalölduveitu. Allir nýir virkjunarkostir á landsvæðum í verndarflokki eru vatnsaflsvirkjanir. Ekki voru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í verndarflokki en þeir eru sextán talsins. Samtals var því lagt til að 26 virkjunarkostir verði flokkaðir í verndarflokk. Kort yfir þau svæði sem verkefnisstjórn lagði til að færu í verndarflokk er að finna hér á vefnum.

Þrjátíu og átta virkjunarkostir eru í biðflokki og hafa tíu bæst við þann flokk frá fyrri áfanga. Þar af eru fjórir virkjunarkostir í jarðvarma (Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun og Fremrinámar), fimm í vatnsafli (Hólmsárvirkjun án miðlunar, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun og Stóra-Laxá) og einn í vindorku (Búrfellslundur).