Skýringar á hugtökum

Virkjunarkostur

Áætluð og skilgreind framkvæmd til að virkja ákveðinn orkugjafa (vatnsafl, jarðhita, vind) á ákveðnum stað. Sumir vilja frekar nota orðið virkjunarhugmynd í þessu samhengi, þar sem það sé minna gildishlaðið orð. Í lögum um rammaáætlun er orðið virkjunarkostur notað og fylgja verkefnisstjórn og faghópar því fordæmi.

Verndarflokkur

Virkjunarkostir sem ekki þykir rétt að ráðast í eru settir í verndarflokk. Ástæða þess að ákveðið er að flokka virkjunarkosti á þennan hátt getur verið sú að landsvæðið hafi hátt náttúruverndargildi (þ.e., að náttúra svæðisins sé þess eðlis að hana beri að vernda fyrir orkuvinnslu) eða að á svæðinu séu mannvistarleifar með hátt verndargildi. 

Þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um rammaáætlun ber stjórnvöldum að hefja undirbúning að friðlýsingu svæða í verndarflokki. Þau svæði sem lentu í verndarflokki vegna náttúruverndargildis eiga að vera friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum en þau svæði sem lentu þar vegna fornminja eiga að vera friðlýst samkvæmt lögum um minjavernd.

Orkurannsóknir á svæðum í verndarflokki eru óheimilar upp að því marki að yfirvöldum er ekki heimilt að gefa út leyfi til orkurannsókna á svæðunum, jafnvel þó ekki sé búið að friðlýsa þau. Hins vegar er heimilt að stunda yfirborðsrannsóknir sem ekki eru leyfisskildar. Yfirvöldum er einnig óheimilt að gefa út orkuvinnslu- eða orkunýtingarleyfi á svæðum í verndarflokki.

Biðflokkur

Virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum eru settir í biðflokk. Stjórnvöldum er ekki heimilt að veita leyfi tengd orkuvinnslu vegna orkukosta sem eru í biðflokki. Á þessum svæðum má stunda orkurannsóknir svo framarlega sem framkvæmdir vegna rannsóknanna þurfa ekki að fara í umhverfismat. Þetta þýðir að stjórnvöldum er heimilt að veita leyfi til orkurannsókna á þessum svæðum og einnig má stunda þar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskildar. 

Virkjunarkostir sem eru sendir til mats í rammaáætlun og ekki var tekin afstaða til í fyrri áfanga áætlunarinnar (þ.e., þeirri rammaáætlun sem er í gildi á hverjum tíma) hafa sömu stöðu og kostir í biðflokki.


Orkunýtingarflokkur

Í þennan flokk eru settir virkjunarkostir sem talið er að ráðast megi í. Stjórnvöldum er heimilt að leyfa orkurannsóknir og orkuvinnslu vegna þessara kosta. Einnig eru orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskildar heimilar.


Spurningar?

Er þörf á að útskýra fleiri hugtök hér? Vinsamlegast hafið samband.