8. fundur, 25.09.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

8. fundur, 25.09.2013, 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.

Gestur: Dr. Skúli Skúlason (SS).

  1. Fundur settur kl. 09:14.
  2. Þjórsá: Dr. Skúli Skúlason (SS), prófessor við Hólaskóla–Háskólann á Hólum, var ráðinn í byrjun júlí 2013 af verkefnisstjórn til að vinna verkefnið „Laxastofninn í Þjórsá – greining á fyrirliggjandi rannsóknum“. Skúli kom á fundinn til að gera grein fyrir helstu niðurstöðum sínum fram að þessu.  
    1. Í vinnu sinni beindi SS athyglinni ekki einungis að laxi heldur einnig eins og kostur var að öllum laxfiskum (lax, bleikja, sjóbirtingur).
    2. Fram komu ýmsar spurningar og athugasemdir um fyrirliggjandi gögn, efni kynningarinnar og þær tillögur sem SS lagði fram.
    3. Framhald málsins mun verða á þá leið að SS og samverkamaður munu taka tillit til spurninga og athugasemda meðlima verkefnisstjórnar og fella umfjöllun um þær inn í skýrslu sína. Skýrslan, sem rituð er á ensku, mun verða send til eins erlends og eins íslensks sérfræðings til yfirlestrar og vísindalegrar jafningjaritrýni. SS og samverkamaður munu bregðast við jafningjarýninni og SS kemur endanlegu skjali til verkefnisstjórnar, ásamt með athugasemdum jafningjarýnanna.
    4. Frekara framhald málsins var rætt ítarlega. Ljóst er að ýmsar spurningar, sem æskilegt væri að Landsvirkjun brygðist við, hafa vaknað í vinnu SS. SG leiddi umræðu um hvernig mætti standa að því að leita eftir þessum upplýsingum og hvernig sú upplýsingaleit samræmdist tímaramma verkefnisstjórnar. Einnig var aðkoma Orkustofnunar að þeirri gagnaöflun rædd. Miðað við að fyrra umsagnarferlið (3 vikur) hefjist 7. október eru sjö heilir virkir dagar  til stefnu eftir þennan fund. Ákveðið var að SS myndi taka saman lista yfir spurningar og athugasemdir fyrir Landsvirkjun sem æskilegt er að fyrirtækið geri grein fyrir. Einnig var ákveðið að SS myndi skila af sér skýrslu sinni til verkefnisstjórnar föstudaginn 4. október. Eins og að ofan segir eru sjö heilir virkir dagar  til stefnu eftir þennan fund, miðað við að fyrra umsagnarferlið (3 vikur) hefjist 7. október.
    5. Faghópar – eins og áður hefur komið fram (fundargerð 4. fundar þann 21.06.2013 og hér að ofan) var einum sérfræðingi falið að gera úttekt á rannsóknum um laxfiska í Þjórsá. Var brugðið á þetta ráð vegna afar knapps tímaramma sem vinnu verkefnisstjórnar með virkjunarkosti í neðri Þjórsá er settur og sem leyfði ekki að faghópar í anda 2. áfanga væru myndaður. Þessi skipan mála er talin samrýmast ákvæðum laga nr. 48/2011, (9.gr., 1.mgr.) Á fundinum var ákveðið að leitað verði til valins hóps óháðra sérfræðinga í umsagnarferlinu sem stendur fyrir dyrum. Vonir standa til að þannig náist svipaður árangur og með faghópavinnu.
    6. Seinna umsagnarferlið (12 vikur) þarf að hefjast ekki seinna en 8. nóvember 2013 svo að verkefnisstjórn hafi tvær vikur til að bregðast við þeim athugasemdum og nái að skila 15. febrúar 2014.
    7. SS yfirgaf fundinn kl. 11:55, ÞEÞ skömmu síðar.
  3. Fjármál faghópa: Þar sem umræðan um kynningu SS tók nærri allan fundartímann var þessum dagskrárlið frestað til næsta fundar.
  4. Umsagnaraðilar. SG barst skrifleg beiðni frá Orra Vigfússyni, formanni NASF, um að fá að koma með erlenda sérfræðinga með sér á fund hjá verkefnisstjórn vegna matsvinnu við virkjunarkostina þrjá í neðri Þjórsá. Stuttar umræður spunnust um þessa beiðni Orra og upp kom sú spurning hvort verkefnisstjórn ætti að bjóða þeim sem senda inn athugasemdir og umsagnir á sinn fund til að gera grein fyrir máli sínu. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að verkefnisstjórn gæti þess að viðhafa jafnræði í öllum sínum störfum. Því væri eðlilegt að allir sem vilja koma sínum sjónarmiðum á framfæri við verkefnisstjórn hafi jafnan aðgang að slíkum fundum. Málið var ekki rætt frekar.
  5. Fundi slitið kl. 12:05.

Herdís H. Schopka