54. fundur, 12.11.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

54. fundur, 12.11.2015, 13:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Gestir: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS) og Daði Már Kristófersson (DMK), formenn faghópa 2 og 4, heimsóttu fundinn kl. 14:00-15:20.

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.


  1. Fundur settur kl. 13:09.
  2. Kynningarfundur verkefnisstjórnar 4. nóvember: Fram kom að fundurinn hefði þótt takast vel og að þar hefðu skapast málefnalegar og gagnlegar umræður. Ástæða kann þó að vera til að boða fundi sem þennan með lengri fyrirvara.
  3. Skipun nýs fulltrúa í faghóp 2: Jóhannes Sveinbjörnsson hefur látið af störfum í faghópi 2 vegna annríkis. Samþykkt var að Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, yrði skipaður í hópinn í hans stað.
  4. Athugasemdir Landsvirkjunar við umfjöllun verkefnisstjórnar um átta virkjunarkosti: Borist hafði bréf frá Landsvirkjun, dags. 28. október 2015, þar sem fram koma athugasemdir við umfjöllun verkefnisstjórnar um átta virkjunarkosti sem verkefnisstjórn hefur tilkynnt að verði í orkunýtingar- eða verndarflokki í væntanlegri tillögu verkefnisstjórnar til ráðherra. Athugasemdirnar varða einkum málsmeðferð verkefnisstjórnar í aðdraganda umræddrar ákvörðunar. Formaður lagði fram drög að svarbréfi, þar sem meginniðurstaðan er sú að verkefnisstjórn hafi gætt ákvæða stjórnsýslulaga, þar sem allra nauðsynlegra upplýsinga og sjónarmiða hafi verið leitað áður en ákvörðun var tekin um endurmat á virkjunarkostum. Í drögunum kemur einnig fram að verkefnisstjórn muni ekki breyta ákvörðun sinni um forgangsröðun umræddra virkjunarkosta. Samþykkt var að fela formanni að ganga frá svarbréfinu.
  5. Vinnulag verkefnisstjórnar við úrvinnslu á niðurstöðum faghópa: ADS og DMK, formenn faghópa 2 og 4, komu á fundinn og kynntu niðurstöður meginþáttagreiningar og annarra greininga DMK á niðurstöðum úr vinnu faghóps 2 í 2. áfanga og hvernig nota megi niðurstöður þessara greininga til að einfalda aðferðafræði faghópa í 3. áfanga. Í kjölfar kynningarinnar var aðferðafræðin rædd, bæði m.t.t. þeirrar einföldunar sem lögð er til og þeirrar vinnu sem bíður verkefnisstjórnar við að vinna úr niðurstöðum faghópanna. Verkefnisstjórnin telur einsýnt að umræddar greiningar muni nýtast vel í þeirri vinnu.
  6. Fundaáætlun næstu vikna: 
    • Ákveðið var að fresta 55. fundi verkefnisstjórnar, þannig að hann verði haldinn miðvikudaginn 2. desember kl. 10-16, í stað mánudagsins 23. nóvember
    • 56. fundur verður haldinn miðvikudaginn 16. des. kl. 13-16.
  7. Aukaverkefni verkefnisstjórnar samkvæmt erindisbréfi: Unnið er að því að fá aðila á fund verkefnisstjórnar til að kynna einstök viðfangsefni. M.a. mun Magnús Jóhannsson kynna skýrslu um umhverfisáhrif smávirkjana (<10 MW) á 56. fundi þann 16. des.
  8. Samtök orkusveitarfélaga: Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga hefur óskað eftir fundi með verkefnisstjórn rammaáætlunar. Fulltrúar samtakanna verða boðaðir á annan hvorn tveggja næstu funda.
  9. Fundargerðir faghópa: Fundargerð nr. 11 frá faghópi 1 og fundargerð nr. 13 frá faghópi 2 voru lagðar fram. Fundargerðirnar liggja fyrir á vefsvæði rammaáætlunar.
  10. Önnur mál:
    1. Fram kom að ensk útgáfa vefsíðu rammaáætlunar hefði verið sett í loftið fyrr í vikunni.
  11. Fundi slitið kl. 15:58.

 

Herdís H. Schopka