43. fundur, 25.03.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

43. fundur, 25.03.2015, 14:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Forföll: Elín R. Líndal (ERL) komst ekki á fundinn og ekki heldur varamaður hennar.

  1. Fundur settur kl. 14:30.  
  2. Virkjunarkostir í vindorku: Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn skilgreiningar tveggja vindorkukosta að beiðni Landsvirkjunar. Samþykkt var að senda faghópum þessa virkjunarkosti til umfjöllunar.   
  3. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir 4., 5. og 6. fundar faghóps 1 og fundargerð 5. fundar faghóps 2 voru lagðar fram.   
  4. Athugasemdir við tillögur Orkustofnunar um mat á virkjunarkostum í efri hluta Þjórsár: Kynnt var  erindi frá Rétti lögmannsstofu f.h. nokkurra náttúruverndarsamtaka þar sem þess er krafist að verkefnisstjórn hafni tillögum Orkustofnunar um að tilteknir virkjunarkostir í verndarflokki verði teknir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar.   
  5. Tímalína: Rætt var um nauðsyn þess að ganga sem fyrst frá endanlegri tímaáætlun fyrir vinnuna framundan. Samþykkt var að fela HHS að ganga eftir því við UAR að eindagi á skilum tillagna verkefnisstjórnar til ráðherra verði tilgreindur nákvæmlega. Einnig var rætt hvernig og hvenær í ferlinu beri að leita umsagna stofnana um hvort fyrirliggjandi gögn nægi til mats á virkjunarkostum, þ.m.t. hvort mögulegt sé að senda gögn í nokkrum áföngum eftir því sem þau liggja fyrir. Samþykkt var að fela formanni að senda viðkomandi stofnunum erindi til undirbúnings fyrir þetta ferli.   
  6. Ráðstöfunarfé til rannsókna: Formaður greindi frá fundi sínum með skrifstofustjórum skrifstofu fjármála og rekstrar og skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrr um daginn, þar sem farið var yfir lauslega áætlun um ráðstöfunarfé til rannsókna í 3. áfanga rammaáætlunar. Þá greindi formaður frá viðræðum sínum við formenn faghópa 1 og 2 um brýnustu rannsóknir, en vinna er hafin við gerð fyrstu rannsóknaráætlana.   
  7. Faghópur 3: Undirbúningshópur undir stjórn Jóns Ásgeirs Kalmanssonar, sem fjallað hefur um mögulega aðferðafræði faghóps um félagsleg áhrif virkjunarkosta hefur skilað skýrslu sem var dreift fyrir fundinn. Samþykkt var að fresta umræðu um skýrsluna til næsta fundar og kanna hvort fulltrúi hópsins gæti þá kynnt hana fyrir verkefnisstjórn.  
  8. Önnur mál: Engin önnur mál voru tekin til umræðu á fundinum.  
  9. Fundi slitið kl. 16:00.

 

Herdís H. Schopka