19. fundur, 18.12.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

19. fundur, 18.12.2013, 13:00-16:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

  1. Fundur settur kl. 13:10.
  2. Umsagnir við drög að tillögu verkefnisstjórnar. Drög að tillögu verkefnisstjórnar um flokkun virkjunarkostanna þriggja í Þjórsá voru kynnt 6. desember með umsagnarfresti til 13. desember. Verkefnisstjórn bárust sex umsagnir um drögin, auk þess sem formleg athugasemd barst frá Landvernd vegna hins skamma frests sem gefinn var til að koma athugasemdum á framfæri. Verkefnisstjórn tekur undir aðfinnslur Landverndar, en bendir á að aðeins sé um að ræða fyrra umsagnarferli af tveimur skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011. Rætt var um hvort fyrra umsagnarferlið væri  nauðsynlegt eða hvort því væri hugsanlega ofaukið. Allar umsagnir voru ræddar efnislega. Í umsögn Orkustofnunar voru valdmörk laga um vernd og orkunýtingu landsvæða annars vegar og laga um raforku hins vegar gerð að umtalsefni, m.t.t. meðferðar á línulögnum í vinnu verkefnisstjórnar. Þá kom fram í nokkrum umsögnum að gagnakrafa sem verkefnisstjórn gerði í vinnu sinni við mat á virkjunarkostum í þessum hluta rammaáætlunar væri óhófleg og gengi nærri gagnakröfu fyrir mat á umhverfisáhrifum (MÁU). Verkefnisstjórnin var sammála um að þessar ábendingar væru mikilvægar fyrir áframhaldandi vinnu og að þær bæri að hafa í huga við gerð starfsreglna fyrir verkefnisstjórnina. Hvað gagnakröfu varðar hefur hún hingað til ráðist af því að verkefnisstjórn var fengið það hlutverk að fjalla um einstaka fáa virkjunarkosti í stað þess að vinna með fjölda kosta samtímis og leggja höfuðáherslu á innbyrðis röðun þeirra. Þá kom fram að útilokað væri að taka virkjunarkosti til umfjöllunar án þess að skoða samlegðaráhrif þeirra og flutningskerfis raforku. Þá var rætt hvort taka ætti tillit til mótvægisaðgerða í vinnu verkefnisstjórnar. Bent var á að í áformum um mótvægisaðgerðir sem kynnt eru sem hluti af umsókn um umfjöllun í rammaáætlun, sé ekki falin nein skuldbinding af hálfu framkvæmdaaðila að hrinda þessum mótvægisaðgerðum í framkvæmd.  Ein leið til að komast hjá þessu væri að meta svæðin eingöngu eftir verðmætum en ekki út frá áhrifum virkjunarkosta.Einnig var rætt um mikilvægi þess að tekið væri tillit til mótvægisaðgerða í vinnu verkefnisstjórnar.
  3. Endanleg tillaga um flokkun: Engin umsagnanna þótti gefa tilefni til verulegra breytinga á tillögu verkefnisstjórnarinnar Verkefnisstjórn fól SG og HHS að vinna endanlega tillögu um flokkun og koma henni án tafar í lögbundið 12 vikna umsagnarferli. ERL ýtrekaði fyrri beiðni um að fram kæmi í tillögu verkefnisstjórnar að ekki væri einhugur um þá niðurstöðu verkefnisstjórnar að gera ekki tillögu um frekari breytingar á þessu stigi.
  4. Vefmál: Tilboð barst frá Hugsmiðjunni um endurhönnun vefs rammaáætlunar. Á fundinum var samþykkt að fela Hugsmiðjunni að endurhanna vefinn og endurnýta umsagnarvefinn frá 2011. HHS var falið að koma því máli áleiðis.
  5. Faghópar: Enn er unnið að undirbúningi að skipun faghópa. Skipun faghóps II er nánast tilbúinn, en formsatriði ófrágengin. Farið var yfir hugsanlega samsetningu faghóps I. Faghópur III bíður til næsta fundar.
  6. Fundi slitið kl. 16:10. 


Herdís H. Schopka