15. fundur, 18.11.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

15. fundur, 18.11.2013, 14:00-17:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu


Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Orri Vigfússon (formaður NASF), Dr. Margaret J. Filardo (sérfræðingur í stíflum), Howard Schaller (sérfræðingur í ám og stíflum), Lena Valdimarsdóttir (líffræðingur, ráðgjafi NASF), Oddur Bjarnason (formaður Veiðifélags Þjórsár).

  1. Fundur settur kl. 14:15.

  2. Fundargerð fyrri fundar: Samþykkt eftir örlitlar breytingar.

  3. Umsagnir stofnana um fyrirliggjandi gögn:Síðasta umsögnin barst klukkustund fyrir fundinn. Umsagnirnar verða því teknar fyrir á næsta fundi, föstudag 22. nóvember kl. 8:00-10:00.

  4. Skipun faghópa: Rætt var áfram hvaða fræðasvið þurfi að eiga fulltrúa í faghópunum og hverjir gætu tekið sæti í þeim. Rædd var hugsanleg aðkoma þjóðfræðings til að sinna óhlutbundnum minjum (sögustöðum, álagablettum o.s.frv.), og þá aðallega hvort viðkomandi ætti að vinna með faghópi I eða II. Fram kom sú hugmynd að fá lítinn hóp til að endurskilgreina viðfangsefni og aðferðafræði faghóps III, áður en fullskipaður hópur tekur til starfa. Niðurstaða náðist um nöfn og mun SG setja sig í samband við viðkomandi. 

  5. Reglugerð um virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun: Drög að reglugerðinni eru tilbúin í UAR, en megininntak hennar snýst um hlutverk Orkustofnunar og þau gögn sem fylgja þurfa beiðni um umfjöllun um virkjunarkost. Drögin voru afhent verkefnisstjórn rétt fyrir fundinn með beiðni um umsögn (skiladagur 25. nóvember). HHS mun senda reglugerðardrögin til fulltrúa í verkefnisstjórninni og þau verða rædd á næsta fundi. Af þessu tilefni var spurt um verklagsreglur verkefnisstjórnar. Þær eru í smíðum í ráðuneytinu en eru ekki jafnlangt komnar og reglugerðin.

  6. Orri Vigfússon (OV) frá NASF og föruneyti hans kom á fundinn kl. 16:00. Farinn var hringur um borðið þar sem allir kynntu sig. Þessi hluti fundarins fór mestmegnis fram á ensku.

    1. OV gerði örstutta grein fyrir hagsmunum tengdum laxfiskum í ánni og aðkomu NASF að undirbúningi virkjana í neðri hluta Þjórsár. Einnig lagði hann fram tvö skjöl, annars vegar skýrslu frá Fish Passage Center (FPC) í Portland, Oregon, og hins vegar bréf frá Hans-Petter Fjeldstad hjá SINTEF Energy í Noregi. Bæði skjölin fjalla um skýrslu Skúla Skúlasonar og Haraldar Rafns Ingvarssonar (SSk og HRI) um laxfiska í Þjórsá, sem skrifuð var fyrir verkefnisstjórnina í október síðastliðnum.

    2. Dr. Margaret Filardo (MF) tók til máls og gerði grein fyrir skýrslu FPC um verk SSk og HRI. Hér á eftir verður tæpt á helstu atriðum sem komu fram í máli MF:

      1. MF telur skýrslu SSk og HRI mjög vel unna og benti sérstaklega á þá niðurstöðu sem þeir félagar lýsa að mótvægisaðgerðir við virkjanir til verndar fiskstofnum virka ekki alltaf sem skyldi og eru dýrar í rekstri.

      2. Virkjanir hafa nú þegar breytt rennsli Þjórsár mikið.

      3. Svokallaður water particle transit time (WTT), eða meðalferðatími vatnsdropa niður ána, er oft notaður sem staðgengilsstærð fyrir ferðatíma fiska. Í skýrslu MF kemur fram að við „eðlilegar“ aðstæður sé WTT 0,14 dagar en við breytt rennsli eftir virkjun verður WTT 2-50 dagar – þ.e. tíu til hundrað sinnum lengri en áður. Þessar tölur eru einfaldlega önnur birtingarmynd rennslishraða, sem oftast er gefinn sem rúmmetrar á sekúndu, og lýsir hraðanum út frá sjónarhóli fiska í ánni. Eins og lýst er í skýrslu SSk og HRI minnka lífslíkur seiða mikið með lengri viðverutíma seiða í ám og lónum.

      4. MF færði rök fyrir því að mat Landsvirkjunar/Veiðimálastofnunar á lífslíkum seiða og fullorðinna fiska sé alltof bjartsýnt og að reynsla frá Columbia-ánni gefi ekki tilefni til slíkrar bjartsýni.

      5. Hvað frekari rannsóknir snertir lagði MF áherslu á að síðbúin afföllum (e. delayed mortality), sem er um 78% af dánartölu (e. total mortality), verði gerð skil í greinargerðum virkjunaraðila. Einnig væri mikilvægt að taka tillit til afkomu ungfiska (e. juvenile survival rates).

      6. MP lagði einnig mikla áherslu á að mat á lífvænleika stofnsins (e. population viability assessment) fari fram og að í þeirri vinnu verði notast við allt rófið af aðstæðum sem búast má við í ánni eftir virkjun. Aðferðin notar ákveðið líkan sem metur lifun við mismunandi aðstæður og reiknar út hve stór stofninn sé á mismunandi tímum í framtíðinni (eftir 10, 20, 30, 40 ár o.s.frv.). Stærsti vandinn er skortur á gögnum og þess vegna afar mikilvægt að afkoma ungfiska verði könnuð.

      7. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á aðra (lax-)fiska, og ál, eru ekki nægilega vel þekkt og ekki er góð reynsla af virkni mótvægisaðgerða sem hannaðar eru með laxfiska í huga fyrir aðrar fisktegundir.

      8. Fyrirhugaðar stíflur í neðri Þjórsá eru frábrugðnar stíflum í Columbia-ánni að því leyti að þar rennur vatnið beint út í farveginn fyrir neðan stíflurnar í stað þess að vera veitt gegnum skurði talsverða vegalengd áður en það kemur aftur inn í farveginn, eins og gert er ráð fyrir í Þjórsá. Áhrif þessa á fiskstofna eru óþekkt og líklega neikvæð.

      9. Litarefnistilraunir á seiðafleytum gefa ekki endilega góða mynd af hegðun seiða í seiðafleytum.

      10. MF lýsti áhyggjum af stærð framkvæmdanna og því að stíflurnar myndu hindra göngu fullorðinna fiska.

      11. Stofnstærð laxa og laxfiska í íslenskum ám er frekar lítil og fiskarnir lifa hér við nyrðri mörk útbreiðslusvæðis síns í ótryggu umhverfi. MF telur mikla áhættu fólgna í því að virkja við slíkar aðstæður.

    3. OV benti á að fiskistiginn við Búða sé ekki mótvægisaðgerð fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem hann hefði verið byggður löngu áður en umræddar framkvæmdir komu til tals.

    4. Spurt var hvort samanburður milli Þjórsár og Columbia-árinnar væri raunhæfur, þar sem Þjórsá er jökulá. Dr. Filardo benti á að til væru rannsóknir frá ám í Alaska og þar væru niðurstöður svipaðar og fyrir Columbia-ána.

    5. Einnig var spurt hve miklu rafmagni raforkufyrirtækin „fórni“ til að búa til meiri rennsli fyrir fiska í Columbia-ánni. MF svaraði því til að upp undir helmingi af vatnsflæðinu sé iðulega veitt frá virkjuninni í þessum tilgangi.

    6. Spurt var um Kaplan-túrbínur og hlut þeirra í mótvægisaðgerðum. MF benti á að þær gagnist laxfiskum frekar en öðrum fisktegundum, vegna þess að seiðafleyturnar halda fisknum frá túrbínunum með því að fleyta efstu lögum vatnsins ofan af lóninu og það séu laxfiskar sem leita helst upp í efstu lög vatnsins.  

    7. Lena Valdimarsdóttir benti á að engin viðbragðsáætlun hafi verið þróuð til að bregðast við fari svo að mótvægisaðgerðir bregðist.

    8. Oddur Bjarnason (OV) benti á að laxinn sé í einkaeigu og sá eignarréttur sé stjórnarskrárvarinn. Landsvirkjun hafi ekki séð sér fært að sitja fund með Veiðifélagi Þjórsár í rúman áratug þótt eftir því væri leitað, þrátt fyrir ítrekaðar viljayfirlýsingar fyrirtækisins í þá átt.  

  7. Önnur mál: Frestað til næsta fundar.

  8. Fundi slitið kl. 17:00.


Herdís H. Schopka