41. fundur 06.04.2020

Fundrafrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

41. fundur 6. apríl 2020 kl. 16-18

Fjarfundur á Teams

Mætt voru:

Verkefnisstjórn: Elín Líndal, Guðrún Pétursdóttir, Guðrún Sævarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson, Magnús Guðmundsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Þórgnýr Dýrfjörð.

Formenn faghópa: Anna Dóra Sæþórsdóttir, Ása L. Aradóttir, Jón Ásgeir Kalmansson og Sigurður Jóhannesson.

UAR: Þorsteinn Sæmundsson

Dagskrá

  1. Gögn frá Orkustofnun

  1. Verkefni framundan - Nýjar virkjanahugmyndir sendar frá Orkustofnun 1. apríl 2020 og önnur verkefni

  1. Nauðsynleg gögn svo meta megi kosti um vindorkuver

  1. Gögn frá Orkustofnun

Formaður greindi frá samtali sínu við orkumálastjóra um aðgengi að gögnum OS. Niðurstaðan er að David Ostman, sem vinnur að kortagerð fyrir RÁ4, fundi með OS, þar sem farið verður yfir hvaða gögn hann þarf og hvernig OS getur best mætt þeim óskum.

  1. Verkefni framundan

Nýjar virkjanahugmyndir frá OS

Formaður fór yfir þær virkjanahugmyndir sem Orkustofnun sendi verkefnisstjórn 1. febrúar og 1. apríl 2020, en stutt samantekt hafði verið send fundarmönnum fyrir fundinn. Samtals eru virkjanahugmyndir 45 talsins: 3 jarðhitavirkjanir, 7 vatnsaflsvirkjanir, 1 sjávarfallavirkjun, og 34 vindaflsvirkjanir.

Rætt hvernig best er að taka á vindorkumálum, þar sem meðferð umsókna um vindorkuver er enn í mótun bæði hjá ráðuneytum og Skipulagsstofnun. Formaður mun kanna stöðu mála hjá þessum aðilum.

Innsend gögn um vindorkuver eru af mjög mismunandi gæðum (sjá lið 3). Meðan beðið er betri gagna verður unnið að mati á vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum og eru formenn faghópa beðnir að undirbúa það.

Formaður kannar hjá Skipulagsstofnun hvort umsóknir um stækkun núverandi virkjana þurfa að fara fyrir RÁ4, sjá 3. gr laga um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Formenn faghópa 1 og 2 hafa hug á að vinna að rannsóknum sem ekki eru bundnar ákveðnum virkjanakostum, en munu nýtast og flýta fyrir matinu í heild.

  1. Gögn sem fylgja þurfa umsóknum um vindorkuver

Frágangur umsókna um vindorkuver er misgóður og sama má segja um gögn sem þeim fylgja.

Farið var yfir hvaða upplýsingar þurfa að fylgja umsóknum um vindorkuver svo faghópar og verkefnisstjórn geti tekið þær til mats. Þau eru:

  1. nákvæm stafræn kort sem hægt er að nota í landupplýsingakerfum og sem sýna staðsetningu allra mannvirkja sem tengjast virkjunarkostinum

  1. fjöldi og hæð einstakra vindmylla, hæð spaða í hæstu stöðu

  1. tölvugerðar ásýndarmyndir (photomontage) er sýni landslag með viðkomandi vindmyllum og til samanburðar sama landslag án þeirra; frá að lágmarki fjórum sjónarhornum horft af jörðu niðri frá helstu ferðaleiðum um svæðið, útsýnisstöðum og/eða byggðakjörnum. Sjónarhornin skulu tölusett og merkt inn á sjónlínukort af svæðinu (sjá gr.4).

  1. sýnileikagreining eða sjónlínukort sem sýna hvaðan vindmyllur sjást í landslaginu og hvernig þær hverfa sjónum með fjarlægð

  1. stærð athafnasvæðis við hverja vindmyllu, þvermál undirstöðu og nýlagning vega

  1. áætlað afl og orkugeta virkjunar

  1. áform um tengingu við flutningskerfi raforku

  1. gerð skal grein fyrir lýsingu (notkun ljósa) á vindmyllunum og svæðinu í heild

  1. upplýsingar um eignarhald á framkvæmdasvæðinu, er það þjóðlenda, í eigu ríkis, sveitarfélags, eða í einkaeigu

  1. áætluð áhrif á hljóðvist

  1. samantekt á niðurstöðum fyrirliggjandi úttekta á nátturufari svæðisins, þar með talið mikilvægi þess fyrir varp og ferðaleiðir fugla.

  1. tilgreina skal þær fornleifaskráningar og rannsóknir sem hafa farið fram á svæðinu

Sumir hafa þegar sent inn þorrann af þessum upplýsingum, en víða vantar upp á það. Þættir 11 og 12 eru umfram það sem farið er fram á varðandi aðra orkukosti og því ekki tímabært að fara fram á þær upplýsingar að sinni, hvað sem síðar verður. Formanni falið að biðja OS um að kynna virkjanaaðilum þá þætti sem nú verður farið fram á, svo þeir geti sent inn nauðsynlegar viðbótarupplýsingar sem fyrst.

Einnig var farið yfir gildandi reglugerð Nr. 530 5. júní 2014 og settar fram tillögur um umbætur á henni, sem formaður mun senda UAR.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:00

GP/ÞS/MG rituðu fundargerð