Fréttasafn

Vettvangsferðir faghópa og verkefnisstjórnar sumarið 2015

23.9.2015

Faghópar rammaáætlunar sinna því mikilvæga hlutverki að leggja faglegt mat á náttúrugæði og menningarminjar á svæðum í rammaáætlun og væntanlegum áhrifum virkjunarframkvæmda á þessa þætti. Faghóparnir skoða einnig samfélagsleg áhrif virkjana og áhrif þeirra á hagræna þætti. Til að geta sinnt þessu starfi sem best er mikilvægt að meðlimir faghópanna hafi sem allra besta þekkingu á og yfirsýn yfir þau svæði sem unnið er með. Vettvangsferðir eru því snar þáttur í starfi faghópanna. Sama er að segja um verkefnisstjórn rammaáætlunar.

Faghópar 3. áfanga rammaáætlunar hafa farið í þrjár vettvangsferðir í sumar. Miðvikudaginn 3. júní fóru þeir í dagsferð á Reykjanes að kynna sér virkjunarhugmyndir á vegum HS Orku þar. Helgina 25.-26. júlí var svo haldið í tveggja daga ferð um Norðurland og Kjöl og virkjunarkostir á vegum Landsvirkjunar, Hrafnabjarga ehf., Héraðsvatna ehf. og Íslenskrar vatnsorku ehf. skoðaðir. Síðasta ferð sumarsins var svo farin helgina 5.-6. september á Suðurland og Sprengisand, þegar virkjunarkostir á vegum Landsvirkjunar, Orkusölunnar og Suðurorku ehf. voru skoðaðir.

Sérfræðingar í faghópunum tóku virkan þátt í leiðsögn um svæðin og greindu frá nýjustu þekkingu á sérsviðum sínum. Stefnt er að því að faghóparnir fari í eina vettvangsferð enn í haust, til að kynna sér virkjunarkosti á Hengilssvæðinu.

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar fór í eina vettvangsferð í sumar. Fimmtudaginn 13. ágúst heimsótti verkefnisstjórnin virkjunarkosti í Stóru-Laxá, á vegum Landsvirkjunar, og við Búðartungu, á vegum Íslenskrar vatnsorku.

Í öllum þessum ferðum áttu bæði náttúruverndarsamtök og Orkustofnun fulltrúa og einnig slógust fulltrúar sveitarfélaga á svæðunum í för um þau svæði sem þeim tilheyra. Landsnet átti fulltrúa í ferð verkefnisstjórnar. Faghóparnir og verkefnisstjórnin hafa þannig haft samráð við mikinn fjölda aðila í þessum ferðum, eða tæplega 60 manns.

Skýrslur um ferðirnar með nánari upplýsingum má nálgast undir flipum fyrir vettvangsferðir faghópa og vettvangsferðir verkefnisstjórnar



* Síðast breytt 09.11.2015 kl. 10:45. Ástæða: Leiðrétting á þátttöku Landsnets í ferðum.