Innsend umsögn

Nafn: Einar Sindri Ólafsson
Númer umsagnar: 274
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Almennt
Umsögn: Almenn umsögn varðandi drög að 3.áfanga verkefnisstjórnar

Ég lýsi yfir almennri ánægju með störfum verkefnisstjórnar. Rammaáætlun er nauðsynlegt verkfæri til að koma á sátt í samfélaginu um hvað eigi að nýta og hvað eigi að vernda. Ég tek undir með verkefnisstjórn að líta eigi á svæði sem eina heild og fagna því að vatnasvið Skjálfandafljóts, Héraðsvatna, Skaftár og efri hluti Þjórsár hafi farið í verndarflokk. Einnig tel ég að vatnasvið Hólmsár ætti einnig heima í verndarflokki.
En það er einnig nauðsynlegt að taka af allan vafa varðandi virkjunarkosti í biðflokki. Rök fyrir flokkun Hagavatnsvirkjunar í biðflokk eru t.d. engin, skv. Rökum verkefnisstjórnar á kosturinn heima í verndarflokki. Eins má segja um Hágönguvirkjun og Hvítá ásamt jarðhitakostum í Innstadal og Trölladyngju.
Ég er í meira lagi hissa á að Skrokkölduvirkjun sé látin í orkunýtingarflokk þar sem kosturinn á klárlega heima í verndarflokki. Það sama má segja um Urriðafossvirkjun og Austurengjar.
Ég tel líka að skoða hefði mátt Eldvörp og Hvalárvirkjun í 3.áfanga. Taka þurfti tillit til áhrif á ferðamennsku, landslags og víðernis á þeim kostum. Bjarnarflag hefði einnig mátt skoða aftur þar sem áhrif á Mývatn eru óviss og m.v. fréttir af hnignun lífríkis í Mývatni síðustu ár tel ég það afar brýnt mál að fara að öllu með gát í þeim efnum.
Virðingafyllst
Einar Sindri Ólafsson
Selfossi
19.apríl 2016
Fylgigögn: