9. fundur, 01.10.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

9. fundur, 01.10.2013, 10:00-13:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.

Gestur: Jón Geir Pétursson (JGP), skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, kom á fundinn kl. 12:00.

  1. Fundur settur kl. 10:27.
  2. Fundargerð síðasta fundar: Nokkrar breytingar voru gerðar eftir umræðu og fundargerðin svo samþykkt.  
  3. Væntanleg skýrsla verkefnisstjórnar: Rætt var í smáatriðum hvernig vinnu verkefnisstjórnar fram að væntanlegum skiladegi í október skyldi háttað. Meðal annars var rætt um aðferðafræði við röðun, fyrir hvaða kosti nægileg gögn séu fyrir hendi til að taka endanlega ákvörðun og hvernig skuli unnið áfram með niðurstöður sérfræðivinnu Skúla Skúlasonar. Einnig var rætt um hugsanlegt fordæmisgildi væntanlegrar skýrslu og hugsanleg áhrif hennar á framhald vinnu við rammaáætlun.
    1. Hverju á að raða? Aðferðafræði við röðum virkjunarkostanna átta sem nú eru til umræðu var rædd. Meðal annars var rætt hvort raða bæri virkjunarkostunum átta sem sjálfstæðri heild eða hvort fella bæri þá inn í röðun 2. áfanga rammaáætlunar. Í 2. áfanga rammaáætlunar misfórust gögn tengd Búlandsvirkjun og náðu ekki til verkefnisstjórnar í tæka tíð fyrir röðun. Því þurfti að bæta þeim virkjunarkosti inn í röðunarfylkið síðar. Fram kom að sú leið væri fær, en hefði verulega galla í för með sér. ÞEÞ taldi í ljósi fenginnar reynslu að ef þessi leið yrði engu að síður valin vegna umræddra átta virkjunarkosta,gæti sú vinna tekið 2-3 daga. 
    2. Rætt var um hugsanlega aðkomu faghópa úr 2. áfanga að mati á gögnum um Þjórsá. Málið verður rætt á næsta fundi. 
    3. Lagt var til að verkefnisstjórn biðji ráðherra um frest á skilum í u.þ.b. mánuð. Aðalástæðan fyrir því er að verkefnisstjórn telur sig ekki geta metið virkjunarkostina í neðri Þjórsá fyrr en svör við spurningum og athugasemdum Skúla Skúlasonar hafa borist frá Landsvirkjun. SG var falið að biðja um frestinn.
  4. Umhverfismat áætlana: SG hafði rætt umhverfismatið við Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar. Hún taldi ráðlegt að verkefnisstjórn sendi erindi til stofnunarinnar með bón um álit stofnunarinnar á því hvort tillögur verkefnisstjórnar þurfi að fara í umhverfismat áætlana.
  5. Fjármál faghópa. JGP mætti á fundinn kl. 12:00 til að ræða fjárhagsmódel fyrir faghópa. JGP ræddi að gagnlegt væri að horfa á þetta mál í stærra samhengi, þ.e. sem hluta af umgjörð um fjárstreymi vegna rammaáætlunar og starfsemi verkefnisstjórnar. Æskilegast væri að sem mest af þeirri starfsemi væri á formi verkkaupa og verksölu.
    1. Almennt fá starfsmenn ráðuneyta eða stofnana þeirra ekki laun við nefndarstörf, enda geti þeir sinnt þeim á venjulegum vinnutíma með samþykki yfirmanna sinna. Vinna sem fylgir setu í faghópum rammaáætlunar getur hins vegar kallað á miklu meira vinnuframlag en gengur og gerist í almennri nefndarvinnu fyrir hið opinbera. Til að koma til móts við þetta mikla vinnuframlag mætti greiða sérstaklega fyrir vinnumagn umfram það sem algengt má teljast.
    2. Ýmsar útfærslur á þessu módeli voru ræddar, t.d. var dregið upp dæmi af ímynduðum faghópi með fulltrúum stofnana, háskóla og einkafyrirtækja og rætt hvernig greiðslum til þessara mismunandi aðila gæti verið háttað. Miklar umræður spunnust um efnið og kom m.a. fram að í 2. áfanga hafi fulltrúi NÍ fengið sína vinnu í verkefnisstjórn metna sem hluta af vinnu sinni, en fólk úr HÍ, sem sótti um slíkt, hafi ekki notið sama skilnings vinnuveitanda síns. Hugsanlega mætti gera samning beint við stofnunina/vinnuveitanda, sem myndi þá sjá um að greiða starfsmanninum. Slík tilhögun myndi tryggja að viðkomandi sérfræðingur fengi svigrúm til að sinna verkinu á venjulegum vinnutíma.
    3. Ákveðið var að SG og HHS setji saman einfalda formúlu að greiðsluformi samkvæmt þessu módeli til skoðunar í verkefnisstjórninni.
  6. Fundi slitið kl. 12:50.

Herdís H. Schopka