48. fundur, 30.06.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

48. fundur, 30.06.2015, 10:00-14:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þ. Auður Ævarr Sveinsdóttir (ÞAÆS). ÞAÆS skrifaði fundargerð.

 

  1. Fundur settur kl. 10:15.  
  2. Rannsóknaráætlun: Mikil vinna hefur verið lögð í að koma á samningum milli rannsóknaraðila og UAR fyrir hönd rammaáætlunar, en talsverð seinkun hefur orðið á samningagerðinni. Farið var yfir forsögu málsins á fundinum og rætt um hvað betur mætti fara í samstarfi verkefnisstjórnar og UAR. Reiknað er með að allir samningar verði undirritaðir í vikunni eða þeirri næstu. Fram kom að óheppilegt sé að fulltrúar í faghópum leiði jafnframt rannsóknir eins og gert mun vera ráð fyrir í fyrirliggjandi drögum að samningum.  Fram kom að þörf væri á að endurskoða skipun faghópa með tilliti til þessa og var formanni falið að leita leiða til þess.    
  3. Ákvörðun varðandi umfjöllun um virkjunarkosti í verndarflokki: Lögfræðingar UAR hafa í framhaldi af umræðum á tveimur síðustu fundum skoðað hvernig rétt sé að standa að ákvörðun um það hvort taka skuli tiltekna virkjunarkosti í verndarflokki til umfjöllunar. Minnisblað UAR um þetta lá fyrir fundinum. Í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar og með vísan til fyrirliggjandi minnisblaðs umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um virkjunarkosti í verndarflokki og endurmat og málsmeðferð verkefnisstjórnar, samþykkir verkefnisstjórn að senda Orkustofnun tilkynningu um fyrirhugaða ákvörðun verkefnisstjórnar um að taka ekki til endurskoðunar tiltekna virkjunarkosti sem þegar hafa verið flokkaðir í verndarflokk eða orkunýtingarflokk og óska eftir að stofnunin upplýsi viðkomandi virkjunaraðila um fyrirhugaða ákvörðun með tilteknum fresti til að skila inn andmælum og frekari gögnum.  Í tengslum við þetta var einnig lagt fram bréf frá Landsvirkjun dags. 26.06.2015 varðandi athugasemdir við ákvörðun og málsmeðferð verkefnisstjórnar.    
  4. Ákvörðun varðandi umfjöllun um Kjalölduveitu: Samþykkt var á síðasta fundi að óska eftir nákvæmari afstöðumyndum sem sýni afmörkun landsvæðisins sem sett var í verndarflokk í 2. áfanga og staðsetningu Norðlingaölduveitu og Kjalölduveitu innan þess og taka málið til afgreiðslu þegar þessi gögn lægju fyrir. Umræddar afstöðumyndir lágu fyrir fundinum. Verkefnisstjórn samþykkti að afgreiða Kjalölduveitu með sama hætti og virkjunarkosti í verndarflokki, sbr. dagskrárlið nr. 3.   
  5. Skipun faghóps 3: Jón Ásgeir Kalmansson hefur unnið að mönnun faghóps 3 síðan 21. maí 2015. Eftirtaldir verða skipaðir í hópinn auk hans: Ásgeir Brynjar Torfason, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, Magnfríður Júlíusdóttir og Páll Jakob Líndal.   
  6. Starfsreglur verkefnisstjórnar: Fram kom að starfsreglur verkefnisstjórnar hefðu verið undirritaðar af ráðherra 22. maí 2015 og birst í B-deild Stjórnartíðinda 12. júní sama ár. 
  7. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir nr. 8 frá faghópi 1 og fundargerðir nr. 10 og 11 frá faghópi 2 voru kynntar. Fundargerðirnar liggja fyrir á vefsvæði rammaáætlunar.  
  8. Vettvangsferð: Ákveðið var að fara í vettvangsferð 13.-15. ágúst og skoða fyrirhuguð virkjunarsvæði við Stóru Laxá, Búðartunguvirkjun og Austurgilsvirkjun. Einnig voru lögð drög að dagskrá ferðarinnar. Að auki var ákveðið að farið yrði í dagsferð á Reykjanes.   
  9. Önnur mál: Engin önnur mál komu fram.   
  10. Fundi slitið kl. 13:35

 

Þ. Auður Ævarr Sveinsdóttir