44. fundur, 07.04.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

44. fundur, 07.04.2015, 13:00-17:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Jón Ásgeir Kalmansson (JÁK) og Helga Ögmundardóttir (HÖ).

  1. Fundur settur kl. 13:05.  
  2. Skýrsla undirbúningshóps um mögulega aðferðafræði faghóps um samfélagsleg áhrif virkjunarkosta: JÁK og HÖ gerðu grein fyrir vinnu undirbúningshóps um aðferðafræði til að meta samfélagsleg áhrif virkjunarkosta. Í umræðum kom fram áhugi af hálfu verkefnisstjórnar á að beina sjónum sérstaklega að hugsanlegri skiptingu nærsamfélags í andstæðar fylkingar, en leggja síður áherslu á þjóðhagsleg áhrif, enda myndi skoðun á því síðarnefnda ekki auðvelda verkefnisstjórn að greina á milli virkjunarkosta. Ljóst þótti að afmarka þyrfti viðfangsefnið umfram það sem gert er í skýrslunni. Samþykkt var að fela formanni að taka saman uppkast að minnisblaði um þær áherslur sem fram komu á fundinum og senda það út til fulltrúa í verkefnisstjórn og skýrsluhöfunda innan þriggja daga, þannig að hægt verði að taka málið aftur fyrir á næsta fundi verkefnisstjórnar 15. apríl nk. Í framhaldinu verði stefnt að því að skipa formlegan faghóp um samfélagsleg áhrif, sem fái m.a. það verkefni að þróa aðferðafræðina áfram. Að lokinni umræðu yfirgáfu gestirnir fundinn kl. 14:30.   
  3. Önnur mál:  
    1. Vinnufundur faghópa og Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats áætlana: Stefnt er að vinnufundi í byrjun maí. Samþykkt var að fulltrúum í verkefnisstjórn verði gefinn kostur á að sitja fundinn.  
    2. Fundaráætlun verkefnisstjórnar næstu mánuði: HHS var falið að útbúa doodle-könnun vegna funda verkefnisstjórnar fram að sumarfríum.  
    3. Umsagnir stofnana í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011: Fram kom að í framhaldi af umræðum á síðasta fundi hefði formaður sent forstöðumönnum viðkomandi stofnana tölvupóst með fyrirspurn um verklag vegna umsagna þeirra um það hvort fyrirliggjandi gögn nægi til mats. Verkefnisstjórn var sammála um nauðsyn þess að listi faghópa yfir tiltæk gögn liggi fyrir sem allra fyrst til að flýta fyrir umsagnarvinnunni.   
    4. Gagnabrunnur: Verkefnisstjórn leggur mikla áherslu á að skráningu gagna í gagnabrunn rammaáætlunar verði lokið sem fyrst.  
  4. Fundi slitið kl. 15:20.

 

Herdís H. Schopka