42. fundur, 10.03.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

42. fundur, 10.03.2015, 12:00-15:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Guðjón Bragason (GB) varamaður ERL og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir úr faghópum: Sigrún Valbergsdóttir (SV) og Anna G. Sverrisdóttir (AGS).

Gestur: Karl Ingólfsson (KI).

Forföll: Hildur Jónsdóttir (HJ) og Elín R. Líndal (ERL) komust ekki á fundinn vegna veðurs og ófærðar.

  1. Fundur settur kl. 12:15. 
  2. Kynning um jarðstrengi: Karl Ingólfsson, fulltrúi jarðstrengjahópsins, flutti fundargestum kynningu á vinnu hópsins um kostnaðarsamanburð á jarðstrengjum og raflínum. Kynning.
  3. Guðjón Bragason yfirgaf fundinn kl. 13:50.   
  4. Endanlegur listi Orkustofnunar yfir virkjunarkosti: Þann 6. mars sl. sendi Orkustofnun verkefnisstjórn erindi þess efnis að Ölfusdalsvirkjun hefði verið dregin til baka. Þá var ljóst að endanlegur listi yfir virkjunarkosti af hálfu Orkustofnunar lægi fyrir. Enn er þó beðið gagna frá Landsvirkjun varðandi tvo vindorkukosti.    
  5. Umhverfismat áætlana (UMÁ): Formaður greindi frá fundi sínum með forstjóra Skipulagsstofnunar þar sem rætt var hvernig staðið skyldi að umhverfismati rammaáætlunar í samræmi við lög nr. 105/2006. Á fundinum kom fram hugmynd um að efna til sérstaks vinnufundar með faghópum og fulltrúum Skipulagsstofnunar, þar sem ræddar yrðu leiðir til að flétta vinnu við UMÁ inn í alla vinnu og aðferðafræði faghópanna.   
  6. Tímalína: HHS lagði fram drög að tímalínu sem hún hafði unnið í samráði við lögfræðing ráðuneytisins, en með tímalínu er hér átt við lista yfir dagsetningar einstakra áfanga í rammaáætlunarvinnunni það sem eftir er af skipunartíma verkefnisstjórnar. Fram kom að skýra þyrfti nánar hvernig staðið skyldi að einstökum verkum í ferlinu, þar sem það hefði áhrif á hversu langan tíma þyrfti að ætla þessum verkum. Þannig kemur að mati verkefnisstjórnar ekki skýrt fram í lögum hvernig svonefnt „fyrra umsagnarferli“ skuli fara fram, þ.á m. hvort almenningur geti komið með athugasemdir á því stigi eða hvort aðeins skuli leitað umsagna hjá tilteknum stofnunum. Þá var óskað eftir því að fá túlkun lögfræðingur ráðuneytisins á  lagatextan og athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum varðandi umsagnarferli sem fara þarf fram ef ráðherra ákveður að breyta tillögum verkefnisstjórnar. Samþykkt var að fela HHS að leita svara við þessum spurningum hjá lögfræðingum UAR.   
  7. Ráðstöfunarfé til rannsókna: Fram kom að afar brýnt væri að fá sem fyrst upplýsingar um það hversu mikið fé má ætla að verði til ráðstöfunar til rannsókna á árinu. Samþykkt var að senda skrifstofustjóra skrifstofu fjármála og rekstrar í UAR formlegt erindi þar sem farið er fram á að fá yfirlit yfir þetta án tafar.
  8. Fundi slitið kl. 14:55.


Herdís H. Schopka