2. fundur verkefnisstjórnar, 18.05.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

2. fundur, 18.05.2017, 09:00-12 :00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt, aðalmenn: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD), 

mætt, varamenn: Guðjón Bragason (GB) (kom kl. 10), Jórunn Harðardóttir (JH), Laufey Jóhannsdóttir (LJ), Magnús Guðmundsson (MG), Ragnheiður H. Þórarinsdóttir (RHÞ) 

og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Daði Már Kristófersson (DMK) (fór af fundi kl. 11:10), Jón Ásgeir Kalmansson (JÁK) og Skúli Skúlason (SSk), formenn faghópa í 3. áfanga rammaáætlunar.


  1. Fundur settur kl. 09:15.
  2. Kynning Skúla Skúlasonar á starfi faghóps 1 í 3. áfanga: SSk kynnti starf, aðferðafræði og hugmyndafræði faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar. Meðal annars fór SSk yfir skilgreiningar á áhrifasvæðum virkjunarkosta hvað viðföng hópsins varðar og minnti á 8. gr. náttúruverndarlaga um vísindalegan grundvöll ákvörðunartöku. Spunnust nokkrar umræður um aðferðir faghóps 1 og fleira sem verkefnastjórn þykir óljóst í lagaramma starfsins í heild, m.a. um möguleika til að taka aftur upp virkjunarkosti sem búið er að meta. Einnig var rætt um mótvægisaðgerðir og hvort rétt væri að taka tillit til þeirra við flokkun virkjunarkosta. Fram kom að faghópur 1 hélt starfi sínu áfram eftir að lokaniðurstöðum hans var skilað til verkefnisstjórnar m.a. með greinarskrifum, kynningum á fundum, og þátttöku í ráðstefnum. Glærur með kynningu SSk .
  3. Kynning Daða Más Kristóferssonar á starfi faghóps 4 í 3. áfanga: DMK kynnti starf faghóps 4 á 3. áfanga og ástæður þess að faghópurinn skilaði í raun ekki niðurstöðum (sjá kafla 8 í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga). Hann benti á að hagfræði sé í eðli sínu mannhverft fag og hafi því þrengri sjónarhorn en t.d. náttúruvísindin. DMK telur að hópurinn hefði átt að framkvæma þjóðhagslegt ábatamat (CBA). Slíkt er algengt erlendis en hefur afar lítið verið notað hérlendis. DMK tók fram að CBA aðferðafræðin henti illa fyrir stóran hóp virkjunarkosta. Eins sé aðferðafræðin mjög viðkvæm fyrir ytri aðstæðum, þannig að væri CBA framkvæmt í dag myndi það líta allt öðru vísi út en CBA framkvæmt fyrir tíu árum. Einnig þarf að hafa í huga að afdrif virkjunarkosta og vatnasvæða hafa áhrif á virði þeirra kosta sem eftir standa – þess vegna er erfitt að meta alla kostina í einu. Aðspurður segir DMK að hópurinn hefði getað skilað bitastæðari vinnu hefði hann metið mun færri kosti, fengið mun lengri tíma til að vinna og mun meira fé. Rannsóknin á virði Heiðmerkur er dæmi um hvernig meta má virði náttúrunnar og DMK tilbúinn til að kynna verkefnisstjórn þá rannsókn.
  4. Kynning Önnu Dóru Sæþórsdóttur á starfi faghóps 2 í 3. áfanga: ADS kynnti starf, aðferðafræði og niðurstöður faghóps 2 í 3. áfanga rammaáætlunar og skýrði ítarlega hvernig áhrifasvæði voru afmörkuð, viðföng skilgreind, metin, vegin og raðað, þannig að niðurstaða fengist á sem gegnsæjastan hátt. Hún lagði áherslu á að ferðamennska fjallar um ferðalag – fólk fer frá einum stað til annars og verður fyrir áhrifum á þeirri leið allri. Þannig geta hughrif sem vakna á einum stað haft áhrif á heildarupplifun langrar ferðar. Því var tekið mið af algengum ferðaleiðum þegar áhrif virkjunarkosta voru metin. Þetta skýrir m.a. niðurstöðu faghópsins um vindorkuver í Búrfellslundi. Langt var liðið á fundartímann og gafst því lítill tími til umræðna. Glærur með kynningu ADS .
  5. Kynning Jóns Ásgeirs Kalmanssonar á starfi faghóps 3 í 3. áfanga: Frestað til næsta fundar.
  6. Önnur mál: Fleira var ekki rætt.
  7. Fundi slitið kl. 12:00.

 

Herdís H. Schopka