5. fundur faghóps 1, 19.12.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 1

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

5. fundur 19. desember 2018 kl. 15-16:30

Fjarfundur (Zoom)

Mætt: Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristján Jónasson (KJ), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Ása L. Aradóttir (ÁLA). Þorvarður Árnason (ÞÁ) boðaði forföll á síðustu stundu en sendi skriflegar hugleiðingar eftir fundinn. Stytt útgáfa þeirra fylgir í lok fundargerðarinnar.


  1. Fundargerðir fyrri funda. Búið er að ganga frá og samþykkja fundargerðir fyrstu fjögurra funda faghópsins, þar sem fjórði fundurinn var samráðsfundur með virkjunaraðilum (15/10/2018). Samráðsfundurinn með náttúruverndarsamökunum 5/11/2018 var með öllum faghópum ásamt stjórn og því ekki á okkar forræði. Sama á við um samráðsfund stjórnar og faghópa rammaáætlunar 19/11/2018. Þetta er því 5. fundur faghópsins.
  2. Fara yfir helstu atriði er komu fram á samráðsfundum með virkjunaraðilum, náttúruverndarsamtökum og á samráðsfundi verkefnisstjórnar og faghópanna og ræða viðbrögð faghópsins við þeim. Helstu atriði sem voru rædd:
    • Jákvætt og afar gagnlegt að hafa samráð.
    • Afmörkun áhrifasvæða, faglegar forsendur? Er enn í mótun varðandi vindorkuver; upplýsingar oft gloppóttar varðandi jarðhitann. Möguleg áhrif af stærð svæða?
    • Áhrif mismunandi viðfanga og undirviðfanga í matinu? Æskilegt að vinna fjölbreytugreiningar uppúr niðurstöðum RÁ-3 (og RÁ-2). Gæti hugsanlega leitt til einföldunar á einhverjum viðföngum (sbr. aðferðafræði faghóps 2).
    • Vandamál við að bera saman mismunandi gerðir virkjana: Vatnafls, vindafls- og jarðhita.
    • Munur á verðmætamati annars vegar og áhrifamati hins vegar. Þarf að skerpa á í lýsingu á aðferðafræði.
    • Hvað á að kalla þau svæði sem eru skoðuð í tengslum við verðmætamatið? Áhrifasvæði (núverandi orðalag), athugunarsvæði, rannsóknasvæði, verðmætasvæði. Hverjar eru mögulegar afleiðingar þess að breyta orðalagi?
    • Sameina þarf vatn undir eitt viðfang: Vatnafar. Kallar á endurskoðun á vægi og vogtölum undir jarðfræði.
    • Áhrif flagga á röðun og mikilvægi einstakra staka (t.d. fossar og önnur sérstök náttúruverðmæti). Möguleg vandamál vegna ofnotkunar á flöggum.
    • Áhyggjur af því að sömu verðmætin séu „tvítalin“ í mismunandi viðföngum. Þarf að skoða hvort þetta sé raunin og síðan möguleg áhrif þess, ef svo reynist vera.
    • Kröfur um gæði gagna og áhrif á jafnræði við mati á virkjanakostum. Staða almennra gagna varðandi einstök viðföng. Mikilvægi góðra gagna varðandi sátt um niðurstöðu.
    • Skortur á upplýsingum um mannvirki í tengslum við virkjunarkosti, t.a.m. vegi og línulagnir, takmarkar möguleika á að meta áhrif þeirra.
  3. Rannsóknaþörf? Hvað þarf að gera 2019?  Faghópurinn hefur rætt rannsóknaþörf á fyrri fundum, en samráðsfundirnir hafa skerpt þá umræðu. Rætt um hvaða rannsóknir þarf/væri æskilegt að gera til að undirbyggja frekari þróun aðferðafræði og vinnu faghópsins þegar kemur að umfjöllun um einstaka virkunarkosti. Meðal annars komu fram hugmyndir um:
    • Frekari greiningu á gögnum úr RÁ-3 (og mögulega RÁ-2), m.a. til að skoða áhrif einstakra viðfanga, tengingu mismunandi viðfanga og áhrif annarra þátta, eins og t.d. stærðar áhrifasvæða, á niðurstöðurnar.  Í framhaldi af þessu þyrfti að taka saman yfirlit um tengsl á milli mismunandi fagsviða (skoða hversu langt slík vinna komst í RÁ-3) og hvort hægt sé að nota upplýsingar um eitt viðfang til að spá fyrir um stöðu annara viðfanga, t.d. búsvæði – mannvist – veiðisvæði – landslag (skoða hversu langt slík vinna komst í RÁ-3). TGG sendi fyrstu drög að tengslagrafi á faghópinn meðan á fundinum stóð. Mætti hugsanlega halda sérstakan vinnufund um þetta viðfangsefni.
    • Áhrif virkjana sem þegar er búið að byggja. Spurning hvernig sé best að nálgast þetta viðfangsefni. Helst að upplýsingar liggi fyrir í rannsóknum sem virkjunaraðilarnir sjálfir hafa gert og eru aðeins tiltækar fyrir tiltölulega fáar virkjunar.
    • Skipta upp vatnasviðum fyrir einstaka virkjunarkosti eins og var gert í RÁ-3.
    • Skortur á góðum jarðfræðikortum og jarðminjaskráningu. Samningur um slíka vinnu er í burðarliðnum. Ekki Rammaáætlunar að kosta hana en getur hugsanlega hvatt til og haft áhrif á forgangsröðun svæða.
    • Ekki beint rannsóknartengt, en vegna áherslu á ferla í matinu þyrfti sérfræðing á sviði landmótunarfræða inn í faghópinn.
    • Mikið til af gögnum um vatnavistkerfi er bjóða upp á frekari úrvinnslu en gerð hefur verið. Þarf að skoða hvort hægt sé að ná betur utan um þessi gögn og hvort ástæða sé til vinna betur úr þeim á þessu stigi eða láta nægja að gera það þegar kemur að umfjöllun um einstaka virkjunarkosti.
  4. Endurskoðun lýsinga á aðferðafræði. Faghóparnir þurfa að skila inn lýsingu á aðferðafræði áður en kallað er eftir orkukostum í RÁ-4. Við byggjum að grunni til á þeirri aðferðafræði sem þróuð var í RÁ 1-3, þó að einhverjir þættir séu endurskoðaðir. Hins vegar þarf faghópurinn að ræða betur nokkur atriði og byggja á greiningavinnu sem fjallað er um í 2. og 3. lið hér að ofan, áður en hægt er að ljúka þessu verki.
  5. Verkaskipting í vinnunni framundan
    • TGG kanni stöðu gagna úr RÁ-3 með hliðsjón af frekari greiningum, sbr. lið 2 og 3, og geri tillögur um greiningar. ÁLA getur aðstoðað við tölfræði. Þegar vinnan er komin af stað og frumniðurstöður liggja fyrir verður kallaður saman fundur faghópsins til að ræða framhaldið, þannig að þetta nýtist sem best öllum faghópum. Þurfum einnig að spá í hvort ástæða sé til að fá fleiri með inn í þessa vinnu, t.d. aðila úr RÁ-3.
    • ÁLA taki frumkvæði að því að endurskoða almenna lýsingu úr skýrslu um RÁ-3 og sendi ásamt textum er varða einstök viðföng en sérfræðingar á hverju sviði sjái um endurskoðun á textum er varða „þeirra“ viðföng. Sumum þáttum verður þó ekki hægt að ganga frá fyrr en greiningarvinna (sbr. liði 2 og 3) og umræða um afmörkun svæða eru lengra á veg komin.
    • KJ geri tillögur að sameiningu vatns undir einu undirviðfangi, vatnafar, og samhliða breytingum á vægi og vogtölum innan viðfangsins Jarðminjar og vatnafar.
    • Haldnir verða vinnufundir um afmörkuð málefni, sbr. liði 2 og 3. Einstakir faghópsmenn verða beðnir um að undirbúa sig sérstaklega fyrir þá vinnu eftir því sem við á. Faghópsmenn hafi samband við formann ef þeir telja ástæðu til að undirbúa aðrar rannsóknir/greiningarvinnu.
    • Mikilvægt er að fá áætlun um alla vinnu til að hægt sé að senda þjónustubeiðnir til ráðuneytisins í tíma.
  6. Næstu fundir. Ákveðið að hafa frekar styttri og afmarkaða fundi en langa og yfirgripsmikla, sérstaklega þegar við erum með fjarfundi og þurfum ekki að verja tíma í ferðir:
    • Vinnufundur um afmörkun svæða um miðjan janúar
    • Vinnufundur um niðurstöður greiningar seint í janúar eða byrjun febrúar
    • Tímasetning vinnufundar um frágang á aðferðalýsingu (ef með þarf) verður ákveðin síðar.
  7. Önnur mál    Minnt á kynningarfund um vindorku 9. jan.  Fleira ekki á dagskrá og fundi slitið kl. 16:30.
Tucson 19/12/2018
Ása L. Aradóttir

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Strax eftir fundinn voru drög að fundargerð send til ÞÁ, sem sendi nokkuð ítarlegar hugleiðingar til baka. Stytt útgáfa þeirra fer hér á eftir:

A) Möguleg „tvítalning“ ákveðinna þátta í mismunandi viðföngum og hugsanleg áhrif þess.

Á samráðsfundunum komu fram áhyggjur af mögulegri „tvítalningu“ landslagsþátta, en einnig víðerna að hluta. Bæði faghópar 1 og 2 skoðuðu þessi viðföng í fyrri áföngum RÁ; faghópur 1 út frá náttúrulegu gildi þeirra og faghópur 2 út frá gildi þeirra fyrir aðra nýtingu en orkuvinnslu; einkum þá ferðamennsku en einnig útivist. Nú þegar ný og ítarlegri aðferðafræði er í þróun hjá faghópi 3 má ætla að landslag komi einnig til skoðunar hjá þeim faghópi - og þá væntanlega út frá samfélagslegu gildi þess.

Rótin að þessu er sú að landslag hefur fjölþætt gildi. Það er mikilvægt náttúrlegt fyrirbæri (og verndað sem slíkt í náttúruverndarlögum) en hefur einnig hagrænt og félagslegt gildi; vegna aðdráttarafls þess fyrir erlenda ferðamenn og í gegnum upplifun útivistarfólks og íbúa í nærsamfélögum. Svipað gildir um víðerni. Því er óhjákvæmilegt að allir þrír faghópar fjalli að einhverju leyti um landslag. Þetta kallar jafnframt á að þeir „stilli saman“ matsaðferðir sínar, m.a. þannig að tryggt verði að ekki sé verið að meta sama gildið í fleiri en einum faghópi. Jafnframt þarf að skoða hvort ástæða sé til að endurskoða vogtölur einstakra undirviðfanga. Rétt er að hafa hugfast að ætla má að landslag hafi mikið vægi í mati á vindorku, sem er tiltölulega nýtt svið innan RÁ og aðferðafræði mats þvi enn á þróunarstigi hjá einstökum faghópum.

Ég legg til að fulltrúar frá faghópum 1, 2 og 3 hittist á sameiginlegum vinnufundi til þess að ræða mat á landslagi og, eftir atvikum, víðernum. Í kjölfarið þrói hver faghópur sína nálgun á landslag og svo hittist fulltrúarnir - eða jafnvel allir í faghópunum - aftur til að ræða þessi mál í sameiningu.

B) Rannsóknaþörf? Hvað þarf að gera 2019?

Þær rannsóknir sem nú er í gangi á landslagi og víðernum miðast a.v. við að ljúka verkefnum sem hófust í RÁ3 og h.v. við að taka fyrstu skref í prófun nýrra aðferða og nálgana.

Samhliða umræðu um samræmt mat á landslagi hjá faghópum í RÁ (sbr. A hér að ofan) tel ég mikilvægt að aðlaga fyrirliggjandi rannsóknaraðferðir og/eða hanna nýjar til þess að mæta þörfum faghópanna fyrir aðgang að nauðsynlegum upplýsingum svo hægt sé að meta mismunandi undirviðföng hjáfaghópunum, t.d. hvað varðar sjónrænt gildi, fagurfræði, upplifun eða tilfinningagildi - gildi sem m.a. eru varin í náttúruverndarlögum nr. 60/2013. Þetta kallar jafnframt á þróun aðferðafræði til að búa kvalitatíf gögn í kvantitífan búning þannig að unnt sé að vinna með þau á samræmdan, magnbundinn hátt. Margvíslegar aðferðir af þessum toga hafa verið reyndar erlendis en hér á landi hefur ekki enn verið tækifæri til að láta reyna á þetta fyrir alvöru. Þróunarvinna varðandi landslag og víðerni sem að stórum hluta hefur verið unnin fyrir RÁ er ekki aðeins mikilvæg fyrir RÁ heldur líka fyrir framkvæmd náttúruverndarlaga. Þörf verður á áframhaldandi rannsóknum á landslagi og víðernum á næsta og mögulega þarnæsta ári, en rétt að bíða með nánari útfærslu á þeim þar til yfirstandandi rannsóknaverkefnum lýkur.

/ÞÁ