Um verkefnisstjórn

Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að veita ráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt lögum um rammaáætlun ber umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði og samvinnu við ráðherra þann sem fer með orkumál, að leggja fram á Alþingi tillögu um flokkun virkjunarkosta eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Verkefnisstjórn rammaáætlunar lagar vinnu sína að þessum tímamörkum.

Verkefnisstjórnin telur sex manns og er skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra eftir tilnefningum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (tveir fulltrúar), forsætisráðuneyti (einn fulltrúi), Sambandi íslenskra sveitarfélaga (einn fulltrúi) og án tilnefningar (tveir fulltrúar, þ. á m. formaður). Verkefnisstjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn.

Samkvæmt lögunum um rammaáætlun ber verkefnisstjórninni að sjá til þess að „… nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati … með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“ Verkefnisstjórnin hefur tvö verkfæri til að sinna þessari skyldu sinni.

1.       Verkefnisstjórnin sækir ráðgjöf til svokallaðra faghópa sem skipaðir eru sérfræðingum á ýmsum sviðum. Verkefnisstjórn ákveður fjölda og viðfangsefni faghópanna og velur fulltrúa í þá. Faghóparnir veita verkefnisstjórninni þá ráðgjöf sem hún þarf til að geta útbúið tillögur til ráðherra um vernd og nýtingu orkusvæða eins og lögin segja fyrir um.

2.       Verkefnisstjórnin leitar samráðs við hagsmunaaðila, stofnanir hins opinbera, almenning og frjáls félagasamtök á ýmsum stigum vinnunnar við rammaáætlun, eins og mælt er fyrir um í lögunum. Gerð er grein fyrir þessu samráði á tímalínunni.


Fulltrúar í verkefnisstjórn 2021-2025

Verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar var skipuð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í apríl 2021. 

Í verkefnisstjórninni sitja: 

  • Jón Geir Pétursson, dósent við Háskóla Íslands, formaður, skipaður án tilnefningar 
  • Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, skipuð án tilnefningar 
  • Guðrún A. Sævarsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
  • Ólafur Adolfsson, lyfjafræðingur, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
  • Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti 
  • Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Varamenn þeirra eru, í sömu röð,

  • Jórunn Harðardóttir, framkvæmda- og rannsóknastjóri hjá Veðurstofu Íslands, varamaður formanns, skipuð án tilnefningar 
  • Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, skipaður án tilnefningar 
  • Andrea Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
  • Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 
  • Þór Hjaltalín, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Valgerður Rún Benediktsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga

 

Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar er Katrín Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun (tók við af Herdísi Helgu Schopka í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti frá 1. september 2023).

 

Erindisbréf verkefnisstjórnar

Hér fer á eftir texti erindisbréfs verkefnisstjórnar, dagsett hinn 20. apríl 2021:

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar þig hér með aðalfulltrúa í verkefnisstjórn rammaáætlunar, sbr. 8. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun, til næstu fjögurra ára.
Verkefnisstjórnin er þannig skipuð:

Jón Geir Pétursson, dósent við Háskóla Íslands, formaður,
skipaður án tilnefningar,
Jórunn Harðardóttir, framkvæmda- og rannsóknastjóri hjá Veðurstofu Íslands, varamaður formanns, skipuð án tilnefningar.

Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, aðalfulltrúi,
skipuð án tilnefningar,
Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, til vara,
skipaður án tilnefningar.

Tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:
Aðalfulltrúar:
Guðrún A. Sævarsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík og Ólafur Adolfsson, lyfjafræðingur.
Varafulltrúar:
Andrea Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur og Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur.

Tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti:
Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, aðalfulltrúi og
Þór Hjaltalín sviðsstjóri hjá Minjastofnun, til vara.

Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, aðalfulltrúi og
Valgerður Rún Benediktsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, til vara.

Verkefnastjórn starfar samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun og hefur það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna fyrir verndar- og orkunýtingaráætlun, sbr. 8.-11. gr. laganna. Markmið laganna er að tryggja að nýting landsvæða þar sem möguleikar eru á orkuvinnslu byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Verkefnisstjórnin fjallar um virkjunarhugmyndir og landsvæði í samræmi við beiðnir þar um og getur einnig endurmetið virkjunarhugmyndir og landsvæði gildandi áætlunar.

Samkvæmt lögum nr. 48/2011 ber verkefnisstjórn að skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum til að fara yfir virkjunaráform og skal hún að fengnum niðurstöðum faghópa vinna drög að tillögum um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða. Að loknu samráðs- og kynningarferli og umhverfismati í samræmi við lög nr. 105/2006 ber verkefnisstjórn að leggja fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun landsvæða.

Ráðuneytið leggur ríka áherslu á að verkefnisstjórnin starfi með þeim hætti að tryggt sé að almenningur hafi virka aðkomu og félagasamtök taki virkan þátt í öllu starfi við rammaáætlun.

Tillögum um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun landsvæða skal skilað til ráðherra innan fjögurra ára frá skipun verkefnisstjórnar.

Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar er Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ráðuneytin bera sjálf kostnað af sínum fulltrúum í verkefnisstjórninni, en laun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga eru ákvörðuð af ráðherra.

Verkefnisstjórnin tekur þegar til starfa.

Undirritað: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Sigríður Auður Arnardóttir

Starfsreglur verkefnisstjórnar

Í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun segir:

Að fengnum tillögum verkefnisstjórnar setur ráðherra, í samráði við [þann ráðherra er fer með [orkumál],1)]2) reglur um hvernig verkefnisstjórn skuli starfa, þ.m.t. um upplýsingaöflun, viðmið og matsaðferðir. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum. (6.mgr. 10.gr. laga nr. 48/2011)

Reglur þessar voru undirritaðar af umhverfis- og auðlindaráðherra þann 22 maí 2015 og birtar í Stjórnartíðindum 12. júní sama ár.