Yfirlit yfir framvinduna 2014-2016

Störf verkefnisstjórnar 2014-2016

Meðfram flýtimeðferðinni vann verkefnisstjórn að hefðbundinni umfjöllun um aðra virkjunarkosti sem sendir höfðu verið inn til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Skv. lögum nr. 48/2011 er það í höndum Orkustofnunar að auglýsa eftir umsóknum um umfjöllun virkjunarkosta og var það gert 1. október 2013. Frestur til að skila inn umsóknum var framlengdur með auglýsingu þann 16. október 2013. Fjölmargar umsóknir bárust og hinn 10. mars 2014 lagði Orkustofnun fram fyrstu drög að lista yfir virkjunarkosti til umfjöllunar.

Þann 5. júní 2014 setti umhverfis- og auðlindaráðherra reglugerð með stoð í lögum nr. 48/2011 um hvaða gögn skyldu fylgja umsóknum um umfjöllun. Orkustofnun ber, samkvæmt lögum um rammaáætlun, að ganga úr skugga um að gögn sem orkufyrirtækin skila inn um virkjunarkosti vegna umfjöllunar í rammaáætlun, séu rétt og fullnægjandi og fer stofnunin þar eftir ákvæðum fyrrnefndrar reglugerðar um virkjunarkosti. Í bréfi til orkufyrirtækja dagsett 14. nóvember 2014 kallaði Orkustofnun eftir gögnum  í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og veitti frest til ársloka til afhendingar gagnanna.

Þann 20. janúar 2015 birti svo Orkustofnun lista á heimasíðu sinni yfir kosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Voru gögn fyrir þá 50 fyrstu afhent verkefnisstjórn með formlegum fundi hinn 21. janúar 2015. Tveir þessara kosta voru síðar dregnir til baka af Orkustofnun og fallið var frá framlagningu þriggja annarra virkjunarkosta. Þann 20. febrúar lagði stofnunin fram skilgreiningar á 33 nýjum virkjunarkostum og lágu þá fyrir gögn vegna 81 virkjunarkosts. Enn var þá að vænta gagna frá Landsvirkjun vegna tveggja virkjunarkosta í vindorku og einnig var enn unnið að skilgreiningu á einum kosti í jarðvarma. Sá kostur var síðar dreginn til baka, eins og tilkynnt var í erindi til verkefnisstjórnar þann 6. mars 2015.

Verkefnisstjórn boðaði til kynningarfundar um stöðu rammaáætlunar þann 29. janúar 2015. Frétt um fundinn birtist á vef rammaáætlunar.  Hér að aftan má finna glærur frá fundinum, upptöku frá fundinum og upptöku með glærum

Í frétt frá 11. mars 2015 á vef rammaáætlunar er gerð grein fyrir ákvörðun verkefnisstjórnar um hvernig skuli meðhöndla þá 81 virkjunarkosti sem Orkustofnun hafði á þeim tímapunkti afhent verkefnisstjórninni. Í stuttu máli ákvað verkefnisstjórnin að vísa 24 kostum til faglegrar umfjöllunar hjá faghópum. Ákveðið var að hrófla ekki við flokkun tuttugu og þriggja kosta sem flokkaðir voru í orkunýtingar- og verndarflokk í 2. áfanga, enda var metið að forsendur hefðu ekki breyst umtalsvert frá 2. áfanga rammaáætlunar. Faghópar 1 og 2 voru beðnir um álit á því hvort forsendur fimm virkjunarkosta hefðu breyst að því marki að þá bæri að meta að nýju. Varð það niðurstaða faghópanna að ekki væri um verulegar forsendubreytingar að ræða og því var flokkun umræddra virkjunarkosta úr 2. áfanga rammaáætlunar látin halda sér. Eftir stóðu 29 virkjunarkostir sem verkefnisstjórn tók ekki afstöðu til á þessum tíma.

Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Landsvirkjun afhenti Orkustofnun skilgreiningar á tveimur slíkum, Búrfellslundi og Blöndulundi, í mars 2015 og var þeim komið áleiðis til verkefnisstjórnar með erindi frá stofnuninni þann 12. mars 2015. Þann 17. mars 2015 var faghópum falið að fjalla um vindorkukostina tvo sem Landsvirkjun sendi inn til umfjöllunar, þ.e. Búrfellslund og Blöndulund. Alþingi samþykkti 1. júlí 2015 ályktun þess efnis að Hvammsvirkjun yrði flutt í orkunýtingarflokk. Hún er því ekki lengur í faglegri umfjöllun hjá faghópum.

Í erindi ON til Orkustofnunar dagsett 10. nóvember 2015 benti fyrirtækið á ýmsa vankanta á orðanotkun og skilgreiningum hugtaka í tengslum við ákveðna virkjunarkosti sem félagið hefur á sínum snærum. OR og ON uppfærðu í ljósi þessa afmarkanir svæða fyrir orkukostinn R3269B Meitillinn, auk þess að leggja til nýja tilhögun fyrir virkjunarkostinn R3271B Hverahlíð II í stað R3271A Hverahlíð. Nýtingarleyfi fyrir orkukostina R3270A Gráuhnúka og R3271A Hverahlíð, sem flokkaðir voru í orkunýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar, var gefið út af Orkustofnun þann 2. nóvember 2015. Orkustofnun fór þannig fram á að verkefnisstjórn tæki uppfærð gögn um virkjunarkostina R3269B Meitil og R3271B Hverahlíð II til umfjöllunar í stað fyrri tilhögunar. Þá féllu út virkjunarkostirnir R3270A Gráuhnúkar og R3271A Hverahlíð.

Í endanlegum tillögum verkefnisstjórnar til ráðherra sem afhentar voru 26. ágúst 2016 var því tekin afstaða til alls 82 virkjunarkosta.

Störf faghópa 2014-2016

Faghópar 1 og 2 voru skipaðir 16. apríl 2014 og hófu starfsemi í maí 2014. Þar sem ekki lá fyrir hvaða virkjunarkostir yrðu teknir til umfjöllunar fyrr en tæpu ári síðar notuðu faghóparnir tímann til að ræða aðferðafræði og gera úttekt á stöðu þekkingar og því hvaða rannsóknir skorti helst á þeim svæðum sem miklar líkur væru á að yrðu til skoðunar. Í mars 2015 lá fyrir hvaða virkjunarkostir færu í faglega umfjöllun hjá faghópunum og hófst þá umfangsmikil vinna við að skilgreina rannsóknaverkefni. Sumarið 2015 nýttist faghópunum í vettvangsrannsóknir og útivinnu. Lauk gagnaúrvinnslu og skýrsluskrifum að mestu leyti snemma árs 2016 og nýttust niðurstöðurnar þannig verkefnisstjórn að fullu. Skýrslur úr þessum rannsóknum má finna á heimasíðu rammaáætlunar.

Faghópur 3 var skipaður 9. júlí 2015 og tók til starfa í  ágúst 2015. Í 2. áfanga rammaáætlunar leitaðist faghópur III við að meta möguleika einstakra virkjunarhugmynda til að valda breytingum, annars vegar á félagsgerð og hins vegar á efnahagsgerð samfélagsins, bæði staðbundið og á landsvísu. Niðurstöður faghópsins nýttust lítið sem ekkert við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn 3. áfanga að leita leiða til að nálgast samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda með öðrum hætti. Hópur sérfræðinga vann minnisblað með fyrstu tillögum að slíkri aðferðafræði og í framhaldi af því var faghópur 3 skipaður, til að „meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið, svo sem áhrifa á félagslega velferð íbúa, samfélagslega fjölbreytni, samskipti, samstöðu, virkni og aðra þá þætti sem hópurinn telur æskilegt og mögulegt að leggja mat á“, eins og það er orðað í skipunarbréfi hópsins. Meðal nýmæla í starfi faghóps 3 voru íbúafundir með íbúum á svæðum þar sem virkjunarkosti er að finna.

Hinn 12. október 2015 skipaði verkefnisstjórn sérstakan faghóp, faghóp 4, til að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta eða hópa virkjunarkosta á þjóðarhag.

Faghópar 1 og 2 skiluðu niðurstöðum sínum - faglegu mati á verðmæti landsvæða og áhrifum virkjunarkosta á þessi verðmæti, auk röðunar á virkjunarkostum út frá heildarverðmæti svæða og áhrifa virkjunarkosta  – til verkefnisstjórnar þann 17. febrúar 2016. Á sama tíma lágu fyrir niðurstöður úr langflestum rannsóknum sem unnar voru á vegum faghópanna. Faghópur 3 skilaði af sér niðurstöðum af íbúafundum og úr skoðanakönnun meðal landsmanna allra. Aðferðafræði þess hóps leyfði hins vegar ekki röðun virkjunarkosta. Faghópur 4 komst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga rammaáætlunar. Því var ekki um aðrar niðurstöður að ræða frá þeim faghópi.

Í 4.-7.kafla lokaskýrslu verkefnisstjórnar er gerð frekari grein fyrir störfum, aðferðafræði og niðurstöðum faghópanna fjögurra.

Tillögur verkefnisstjórnar og samráð

Verkefnisstjórn kynnti fyrstu drög sín að tillögu um flokkun virkjunarkosta á opnum kynningarfundum á tímabilinu 31. mars til 13. apríl 2016. Efni þessara funda og upptöku frá fyrsta fundinum í Hörpu má finna hér að neðan:

Fundirnir voru haldnir á eftirtöldum stöðum:

  • Reykjavík, Kaldalón í Hörpu, fimmtudag 31. mars 2016 kl. 14-16 
  • Grindavík, Gjáin, miðvikudag 6. apríl 2016 kl. 20-22 
  • Kirkjubæjarklaustur, félagsheimilið Kirkjuhvoll, fimmtudag 7. apríl 2016 kl. 16.30-18.30 
  • Selfoss, Hótel Selfoss, fimmtudag 7. apríl 2016 kl. 20.30-22.30 
  • Stórutjarnir, Stórutjarnaskóli, mánudag 11. apríl 2016 kl. 20-22 
  • Akureyri, Hamrar í Hofi, þriðjudag 12. apríl 2016 kl. 12-14 
  • Varmahlíð, Miðgarður, þriðjudag 12. apríl kl. 20-22 
  • Nauteyri við Ísafjarðardjúp, Steinshús, miðvikudag 13. apríl 2016 kl. 20-22

Fyrra samráðsferlið

Með kynningarfundinum 31. mars hófst þriggja vikna kynningar- og samráðsferli í samræmi við ákvæði fyrri hluta 3. mgr. 10. gr. laga nr. 84/2011. Þetta samráðsferli, sem nefnt hefur verið „fyrra samráðsferlið“, stóð til 20. apríl 2016, en þeim sem þess óskuðu var veittur framlengdur umsagnarfrestur til 22. apríl. Meðan á ferlinu stóð var öllum frjálst að senda verkefnisstjórn skriflegar athugasemdir um framkomin drög og var sérstakur umsagnarvefur opnaður á heimasíðu rammaáætlunar til að auðvelda innsendingu athugasemda. Þar var einnig að finna helstu kynningargögn vegna samráðsferlisins, auk þess sem vakin var athygli á að einnig yrði unnt að senda inn umsagnir vegna tillagna verkefnisstjórnar að flokkun virkjunarkosta í 12 vikna samráðsferli sem hæfist 11. maí 2016 og fylgdi ákvæðum síðari hluta 3. mgr. 10. gr. laga nr. 84/2011. Alls bárust 18 umsagnir frá 15 aðilum. Umfjöllun um fyrra samráðsferlið og svör verkefnisstjórnar er að finna í kafla 9.4. í lokaskýrslunni.

Seinna samráðsferlið

Hinn 11. maí 2016 birti verkefnisstjórn tillögu sína að verndar- og orkunýtingaráætlun á heimasíðu rammaáætlunar og auglýsti hana í samræmi við ákvæði síðari hluta 3. mgr. 10. gr. laga nr. 84/2011. Þar með hófst 12 vikna samráðsferli, í daglegu tali nefnt „síðara samráðsferlið“, sem stóð til til 3. ágúst 2016. Á þeim tíma gafst öllum kostur á að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna á sérstökum umsagnarvef á heimasíðunni. Þar var einnig að finna helstu kynningargögn vegna samráðsferlisins.

Þrír aðilar óskuðu eftir lengri fresti til að skila athugasemdum. Við þessu var orðið að teknu tilliti til aðstæðna sem tilgreindar voru í beiðnunum. Alls bárust 69 umsagnir frá 44 aðilum í seinna umsagnarferlinu. Frá þessum umsögnum er greint og þeim svarað í kafla 9.5. í lokaskýrslu verkefnisstjórnar.

Lokaskýrsla verkefnisstjórnar afhent ráðherra

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar afhenti umhverfis- og auðlindaráðherra lokaskýrslu sína þann 26. ágúst 2016. Verkefnistjórnin lagði til að að átta nýir virkjunarkostir bættust í orkunýtingarflokk áætlunarinnar, tíu virkjunarkostir færu í verndarflokk og tíu í biðflokk.