Fréttasafn

Skýrsla um kortlagningu víðerna lítur dagsins ljós

29.11.2017

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði hefur tekið saman skýrslu um rannsókn á víðernum á miðhálendinu . Skýrslan ber heitið „Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði“ og höfundar skýrslunnar eru Þorvarður Árnason, David Ostman og Adam Hoffritz. Rannsóknarverkefnið var unnið innan vébanda faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar að beiðni Skipulagsstofnunar og rammaáætlunar, með fjárhagslegum stuðningi beggja aðila. 

Í verkefninu var fengist við þróun aðferða til að kortleggja staðsetningu, stærð og mörk víðerna, bæði út frá mannvirkjum og náttúrufarslegum forsendum, vegna framfylgdar landsskipulagsstefnu 2015-2026. Útbúinn var gagnagrunnur um öll mannvirki á miðhálendinu og þau hnitsett og greind. Mannvirkjunum var raðað í flokka m.t.t. einkenna þeirra (svo sem stærðar, sýnileika og tilgangs) og hverjum flokki síðan gefinn áhrifastuðull, þ.e. um áhrif til skerðingar á víðernum, sem getur verið breytilegur á milli flokka. Gagnagrunnurinn var útbúinn með kerfisbundnum, gegnsæjum hætti og mismunandi útfærslur á áhrifastuðlum prófaðar. 

Í skýrslunni er niðurstöðum þessarar vinnu lýst og lagðar fram tillögur að breytingum og endurbótum á eldri aðferðafræði við kortlagningu víðerna á Íslandi.


Til fróðleiks:

Niðurstöður rannsókna á vegum faghópa í 3. áfanga rammaáætlunar.